Eldsneyti fyrir skip og vörubíla

Landsvirkjun og PCC kanna framleiðslu rafeldsneytis.
Landsvirkjun og PCC kanna framleiðslu rafeldsneytis. mbl.is/Hari

Landsvirkjun vinnur að undirbúningi og þróun tveggja rafeldsneytisverkefna vegna orkuskipta í samgöngum. Annars vegar framleiðslu vetnis til notkunar á stór ökutæki og hins vegar framleiðslu metanóls á flutningaskip.

Vetnisstöð við Ljósafossstöð er í samþykktu aðalskipulagi Grímsness- og Grafningshrepps og deiliskipulag er í vinnslu.

Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun, sagði að fyrsta skref fyrirhugaðs vetnisverkefnis gæti t.d. framleitt eldsneyti til að knýja 35 vöruflutningabíla og 3-6 rútur eða strætisvagna.

Miðað er við að setja upp tvær vetnisverksmiðjur til að byrja með, aðra mögulega við Ljósafoss og hina nálægt öðrum enda fjölfarinnar leiðar flutningabíla. Staðsetningin verður væntanlega ákveðin í samráði við samstarfsaðila í þungaflutningum og aðra hagaðila. Umfang rafgreiningar á hvorum stað gæti verið um 2 MW til að byrja með og fjárfesting þá um tveir milljarðar. Gert verður ráð fyrir möguleikum til stækkunar.

Á ársfundi Landsvirkjunar 24. mars sl. kom fram að undirbúningstími vetnisverkefnisins gæti verið 12-18 mánuðir þannig að því gæti lokið á næsta ári. Ríkarður sagði að eftir það yrði tilkynnt um mögulega fjárfestingaákvörðun í framkvæmdum og rekstri.

Landsvirkjun og þýska fjárfestingafélagið PCC SE ætla að rannsaka möguleika á að fanga koldíoxíð (CO2) í útblæstri frá kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. Einnig verður skoðuð framleiðsla á vetni með rafgreiningu. Vetnið og koldíoxíðið má nota til að framleiða grænt metanól með endurnýjanlegri raforku. Rafeldsneytið mætti t.d. nota til að knýja tvö stór flutningaskip. Mögulegt umfang fjárfestingar yrði um eða yfir níu milljarðar króna og aflþörfin a.m.k. 20 MW. Hugað verður að möguleikum og þörf á stærðarhagkvæmni bæði í upphafi og þróun hennar með tímanum.

„Með verkefni af þessu tagi væri hægt að fara í orkuskipti á tveimur flutningaskipum,“ sagði Ríkarður. Hann segir að takist vel til sé hægt að víkka út umfang slíkrar framleiðslu rafeldsneytis fyrir stærri flota og jafnvel fiskveiðiskip með tímanum. Undirbúningstími þessa verkefnis er einnig 12-18 mánuðir. Að þeim tíma liðnum verður tekin ákvörðun um framhaldið.

Með þessari aðferð eru slegnar tvær flugur í einu höggi. Fangað verður koldíoxíð í útblæstri verksmiðjunnar, sem jafnvel getur verið kolefnishlutlaust ef lífræn viðarkol verða notuð eins og stefnt er að. Í stað þess að knýja flutningaskipin með olíu með tilheyrandi útblæstri verður notað umhverfisvænt metanól.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert