Fengu uppsagnarbréfin í nótt

Sólveig Anna Jónsdóttir Formaður Eflingar segir að staðið hafi verið …
Sólveig Anna Jónsdóttir Formaður Eflingar segir að staðið hafi verið rétt og faglega að ferlinu. Ljósmynd/Efling

Samkomulag náðist síðdegis í gær við trúnaðarmenn innan Eflingar um framkvæmd á skipulagsbreytingum á vinnustaðnum og var öllu starfsfólki sent uppsagnarbréf í kjölfarið. Ætlast er til að starfsfólk vinni uppsagnarfrestinn en þeir sem óska þess verða þó leystir undan vinnuskyldu síðasta mánuðinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Eflingar.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is fékk starfsmaður Eflingar uppsagnarbréf sitt klukkan tvö í nótt en umræddur starfsmaður var í veikindaleyfi.

Sólveig Anna Jónsdóttir Formaður Eflingar segir að staðið hafi verið rétt og faglega að ferlinu en að henni þyki leitt að minnihluti stjórnar hafi ekki virt trúnað og kosið að leka upplýsingum til fjölmiðla.

Jafnrétti að leiðarljósi

„Innleidd verða ný ráðningarkjör, með gagnsæi og jafnrétti að leiðarljósi, og starfað verður undir nýju skipulagi með breyttum hæfniskröfum og verkaskiptingu. Breytingarnar miða að bættri þjónustu við félagsmenn og aukinni skilvirkni í rekstri,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Greint var frá því á mánudaginn að meirihluti stjórnar Eflingar hefði samþykkt tillögu Sólveigar Önnu og Baráttulista hennar, að segja upp öllu starfsfólki. Er uppgefin ástæða skipulagsbreytingar á vinnustaðnum. Þeir sem kæra sig um að halda starfi sínu eru hvattir til að sækja um aftur.

Þriggja mánaða uppsagnarfrestur

Öllum starfsmönnum er tryggður að lágmarki þriggja mánaða uppsagnarfrestur, einnig þeim sem ekki hafa áunnið sér hann, að því er fram kemur í tilkynningunni. Þá mun Efling falla frá réttindum og skyldum í tilvikum þar sem starfsmaður óskar að ganga í annað starf áður en uppsagnarfrestur er liðinn. Starfsfólki verður einnig veitt aukið svigrúm til að sækjast eftir öðrum störfum, til að mynda fara í atvinnuviðtöl á vinnutíma.

Í tilkynningunni lýsir Sólveig Anna ánægju með að samráði við trúnaðarmenn sé lokið og að staðið hafi verið rétt og faglega að ferlinu. Þá segir hún vanstillta umræðu hafa farið úr böndunum síðustu sólarhringa þar sem ýmsir hafa sett sig á háan hest „án þess að vita nokkuð um málið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert