Fordæmalaus vanvirðing

Fréttamenn biðu fyrir utan skrifstofur Eflingar í gær til að …
Fréttamenn biðu fyrir utan skrifstofur Eflingar í gær til að ræða við starfsfólk í tengslum við uppsagnirnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður Eflingar kveðst djúpt vonsvikinn með stjórn og trúnaðarráð Eflingar, og öll þau sem í blindni trúa eftiráskýringum sem standist ekki skoðun. Hann segir vanvirðingu við starfsfólkið fordæmalausa og telur að ef einhver annar vinnustaður hefði tilkynnt um hópuppsögn á borð við þá sem félagið stendur nú fyrir, hefði Efling verið fyrst til að verja réttindi starfsmannanna.

Vala Árnadóttir, starfsmaðurinn sem um ræðir, greindi frá þessu í færslu á Facebook í morgun. Hún hefur áður ekki viljað tjá sig vegna fjölskyldutengsla við Sólveigu Önnu og vegna veikinda sinna.

Vala er frá í veikindaleyfi eftir að hafa lent í slysi síðasta sumar en hún er meðal þeirra sem fékk uppsagnarbréf sent til sín í pósti klukkan tvö í nótt eftir þriggja ára starf í þágu félagsins. Hún hafði þó tilkynnt um að hún kæmi ekki aftur til starfa eftir leyfið í kjölfar þess að sviðið sem hún starfaði á var lagt niður vegna „skipulagsbreytinga“.

Mbl.is hefur undir höndum eitt af bréfunum sem voru send …
Mbl.is hefur undir höndum eitt af bréfunum sem voru send út til starfsmanna. Ljósmynd/Aðsend

Breyting til að losa sig við starfsfólk

„Stuttu eftir að sviðið sem ég starfaði hjá var lagt niður var “skrifstofa félagamála” stofnuð og Viðar Þorsteinsson settur þar yfir, skrifstofa hans og starfsfólk þess þjónaði sama tilgangi og „félags- og þróunarsvið” gerði áður svo „skipulagsbreytingin” var nánast engin, nema til þess fallin að losa sig við sumt starfsfólk og setja Viðar [Þorsteinsson] yfir einingu sem hann myndi geta sætt sig við eftir að fjölda kvartanna í hans garð gerðu honum erfitt um vik að starfa áfram sem framkvæmdastjóri,“ segir í færslunni.

Að sögn Völu studdi hún þær konur sem kvörtuðu undan framkomu Viðars og hafði hún beðið Sólveigu Önnu um að gera slíkt hið sama.

„[E]n þá hafði hún í stað þess að taka kvartanir þeirra alvarlega sagt upp þeim sviðsstjóra „sem þau töldu að ætti upptök af þeim kvörtunum. “ Ég reyndi að biðla til hennar að standa með þeim konum sem alltaf hefðu staðið með henni, konur sem komu til starfa hjá Eflingu til að styðja við hennar baráttu og ég trúði því ekki að hún myndi bregðast þeim, en allt kom fyrir ekki.“

Enginn græðir á þessum farsa

Vala segir félagsmenn Eflingar ekki skulda henni neitt en hún á þó erfitt með hve margir þeirra trúi því að starfsmenn skrifstofunnar hafi á einhvern hátt átt þátt í þessari atburðarrás, fyrir utan að kvarta undan óboðlegri framkomu framkvæmdastjórans og vonað að Sólveig Anna myndi taka kvartanirnar alvarlega og standa með sínu fólki.

Það græðir enginn á þeim farsa sem hófst í lok október í fyrra, ekki starfsmenn og ekki félagsmenn Eflingar.

Starfsmenn fengu uppsagnarbréf í gærkvöldi.
Starfsmenn fengu uppsagnarbréf í gærkvöldi. Samsett mynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert