Leitt að varaformaður hafi ekki skilning á stöðu sinni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir misskilning vera til staðar hjá Agnieszku Ewa Ziól­kowska, vara­for­manni Efl­ing­ar, varðandi uppsögn hennar og leitt sé að hún hafi ekki betri skilning á stöðu sinni.

Í viðtali í Kastljós í kvöld sagði Sólveig að hún gæti ekki sagt upp varaformanni en að Agnieszka væri í launuðu ráðningasambandi og því fengið uppsagnarbréf líkt og aðrir starfsmenn skrifstofunnar.

Sólveig sagði það eftir að koma í ljós hvort Agnieszka myndi ganga aftur í inn í starfið. 

Ákvörðunin ekki tekin í hefndarskyni

Hún sagði að með hópuppsögnunum, sem væru löglegar, yrði stöðugildum fækkað og að nýtt launakerfi yrði innleitt. Ekki væru um hreinsanir á óæskilegu fólki að ræða.

Þá ítrekaði Sólveig að ekki væri um að ræða handhófskennda ákvörðun hennar sem hafi verið gerð í uppnámi eða hefndarskyni. 

Hún sagði að stjórnin hafi rétt til þess að taka ávörðun um rekstur á félaginu og gagnrýndi í því samhengi trúnaðarmenn Eflingar sem bentu á að þeir höfðu einungis rætt við lögmann stjórnarinnar en ekki stjórnina sjálfa á samráðsfundum.

Segist geta haldið skrifstofunni opinni

„Ég biðla til fólks að skoða þetta mál með örlítið meiri jarðtengingu, skynsemi, kynna sér málavexti áður en það æðir fram eins og forseti Alþýðusambandsins. Til þess að fordæma eitthvað sem hún veit ekkert um,“ sagði Sólveig.

Sólveig ítrekaði að starfsfólk væri hvatt að sækja aftur um. 

„Ef svo undarlega fer að fólk neitar að sinna starfsskyldum sínum þá tel ég engu að síður að ég geti haldið skrifstofunni opinni,“ sagði Sólveig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert