Munu anda ofan í hálsmál nefndarinnar

Viðar Eggertsson, einn af fulltrúum Réttlætis, ásamt Degi B. Eggertssyni, …
Viðar Eggertsson, einn af fulltrúum Réttlætis, ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, að fundi loknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar Réttlætis, sem hafa barist fyrir rannsókn á starfsemi vöggustofa í Reykjavík, voru misjákvæðir þegar þeir stigu af fundi með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra fyrr í dag, þar sem staða á undirbúning rannsóknarinnar var rædd. Voru þeir flestir vongóðir um að athugasemdir þeirra hafi komið skýrt á framfæri og að tekið verði mark á þeim.

„Þetta var fundur sem að var mjög nauðsynlegur og við bindum miklar vonir við að það hafi komið mjög skýrt fram af okkar hálfu hvað okkur þykir mikilvægt í þessari rannsókn sem stendur fyrir dyrum,“ segir Viðar Eggertsson, einn af fulltrúunum, að fundi loknum.

Árni H. Kristjánsson og Hrafn Jökulsson.
Árni H. Kristjánsson og Hrafn Jökulsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir fundinn hafa verið tækifæri fyrir fulltrúana að koma skýrt á framfæri hvað væri mikilvægast fyrir nefndina að skoða og rannsaka og kveðst hann ætla að fylgja málinu vel eftir til að sjá til þess að það verði gert. 

„Ég hef alltaf hótað því og mun hóta því áfram að ég mun anda ofan í hálsmál nefndarinnar, og ég býst við að við eigum það allir sameiginlegt að við verðum alltaf vakandi fyrir því að það verði örugglega almennilega gengið til verks og farið ofan í saumana á því hvað gerðist á þessum vöggustofum,“ segir Viðar.

Árni H. Kristjánsson einn af fulltrúum Réttlætis tók í sama streng. „Við fórum yfir þessa punkta sem við höfum áður lagt til, sex grundvallar spurningar sem þarf að fá svör við og þetta er ekki úr lausu lofti gripið. Þetta var eftir langa yfirlegu þegar við vörpuðum þessu fram, akkurat þessum sex spurningum, og rökstuddum þær mjög ítarlega í greinargerð, af hverju.“

Hvað varð um vöggustofubörnin

Tómas V. Albertsson, annar fulltrúi, segir fundinn hafa verið mikilvægan en ekki veitt að því að skerpa línurnar. Hann segir nefndina þurfa að fá á hreint ýmislegt er varðar tölfræði, hversu mörg börn voru vistuð þarna, hversu mörg börn dóu og hvað varð um einstaklingana sem þarna dvöldu. 

„Og þetta alræðisvald, hvernig stóð á því að forstöðukonan réði öllu? Það eru ýmsir svona punktar sem komu upp en þetta er í pólitískum höndum og þá veit maður aldrei hvað gerist,“ segir Tómas.

Tómas V. Albertsson segir málið nú í pólitískum höndum.
Tómas V. Albertsson segir málið nú í pólitískum höndum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Markmiðin hafi verið óljós

Í júlí á síðasta ári samþykkti borgarstjórn að gerð yrði rannsókn á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins sem voru reknar í Reykjavíkurborg á síðustu öld.

Í mars lagði borgarráð grunn að rannsókninni, tillaga um skipun rannsóknarnefndar var samþykkt og markmið hennar kynnt. 

Þessi skref þóttu vera merki um mikla framför en þegar betur var að gáð þótti áhyggjuefni hve illa skilgreind og óljós markmið nefndarinnar voru. Fulltrúar Réttlætis hafa gagnrýnt þetta harðlega og bent á að ýmsar mikilvægar spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við séu hvergi sjáanlegar.

Í dag gengu fulltrúarnir, þeir Hrafn Jök­uls­son, Viðar Eggerts­son, Tóm­as V. Al­berts­son og Árni H. Kristjáns­son ,loks á fund með borgarstjóra í fyrsta sinn frá því í júlí á síðasta ári.

Fulltrúar Réttlætis. Frá vinstri: Hrafn Jök­uls­son, Tóm­as V. Al­berts­son, Árni …
Fulltrúar Réttlætis. Frá vinstri: Hrafn Jök­uls­son, Tóm­as V. Al­berts­son, Árni H. Kristjáns­son og Viðar Eggerts­son. mbl.is/Hólmfríður

Skýr vilji borgarinnar

Dagur B. Eggertsson segir skýran vilja hjá borginni að standa vel að rannsókninni. Nú þegar hafi borgarskjalasafn tekið saman umfangsmikil gögn en þá gæti einnig verið nauðsynlegt að leita gagna í heilbrigðiskerfinu. Þau séu aftur á móti ekki opin vegna persónuverndarsjónarmiða og þarf því að fá nauðsynlegar rannsóknarheimildir áður en ráðist verður í slíka aðgerð. 

„Það sem í mínum huga stóð kannski upp úr varðandi áherslur hópsins er mjög skýr áhersla á að skoða ekki bara hvað gerðis og hvernig það gerðist heldur kannski hvers vegna. Hvers vegna voru hlutirnir eins og þeir voru. En það var líka rík áhersla af þeirra hálfu að skoða vandlega og ítarlega afdrep þeirra barna sem voru á vöggustofunum. Allt frá andlátum að ættleiðingum.“

Rétt jafnvægi lykilatriði

Hann segir nú þingnefndar að fara yfir þessi mál þar sem lagafrumvarp liggur nú fyrir Alþingi sem bíður samþykktar sem veitir rannsóknarnefndinni heimild til að afla nauðsynlegra upplýsinga. Hann segir borgina fá annað tækifæri að nesta nefndina þegar því ferli er lokið.

„Þarna þarf að ná jafnvægi milli þess að hafa þetta það markvisst og skýrt að það sé ljóst hvað viljum fá út úr rannsókninni en líka það opið að nefndin hafi frelsi til þess að kanna ítarlega það sem rannsóknin mun leiða í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert