Ókeypis lestarmiðar fyrir íslensk ungmenni

Fáni Evrópusambandsins á Sigurboganum í París.
Fáni Evrópusambandsins á Sigurboganum í París. AFP/Ludovic MARIN

18 ára ungmennum frá Íslandi gefst nú tækifæri til þess að ferðast frítt innan Evrópu með lest. Í upphafi árs varð DiscoverEU hluti af Erasmus+ áætluninni, sem Ísland tekur þátt í.

DiscoverEU er frumkvæðisverkefni á vegum Evrópusambandsins þar sem ungmennum eru gefin Interrail lestarmiði sem er hægt að nota ótakmarkað í ákveðinn tíma til að ferðast um Evrópu.

Tilgangur verkefnisins er að gefa ungmennum tækifæri til að kynnast betur, þvert á landamæri, tungumál og menningu til að minnka fordóma ásamt öðru.

48 miðar dregnir út

Fyrirkomulag verkefnisins er þannig að þeir sem eru fæddir frá fyrsta júlí 2003 til þrítugasta júní 2004 og eru með lögheimili á Íslandi geta sótt um lestamiðann fyrir 21. apríl. 48 manns verða dregin út og fá þau ásamt lestarmiðanum frítt flug til Evrópu.

Annar útdráttur verður í haust fyrir þau sem eru fædd seinna á árinu 2004.

Hægt er að lesa nánar um DiscoverEU hér en umsóknarferlið fer fram í gegnum evrópsku ungmennagáttina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert