18 ára ungmennum frá Íslandi gefst nú tækifæri til þess að ferðast frítt innan Evrópu með lest. Í upphafi árs varð DiscoverEU hluti af Erasmus+ áætluninni, sem Ísland tekur þátt í.
DiscoverEU er frumkvæðisverkefni á vegum Evrópusambandsins þar sem ungmennum eru gefin Interrail lestarmiði sem er hægt að nota ótakmarkað í ákveðinn tíma til að ferðast um Evrópu.
Tilgangur verkefnisins er að gefa ungmennum tækifæri til að kynnast betur, þvert á landamæri, tungumál og menningu til að minnka fordóma ásamt öðru.
Fyrirkomulag verkefnisins er þannig að þeir sem eru fæddir frá fyrsta júlí 2003 til þrítugasta júní 2004 og eru með lögheimili á Íslandi geta sótt um lestamiðann fyrir 21. apríl. 48 manns verða dregin út og fá þau ásamt lestarmiðanum frítt flug til Evrópu.
Annar útdráttur verður í haust fyrir þau sem eru fædd seinna á árinu 2004.
Hægt er að lesa nánar um DiscoverEU hér en umsóknarferlið fer fram í gegnum evrópsku ungmennagáttina.