Óvönduð vinnubrögð hjá Eflingu

Friðrik Jónsson, formaður BHM.
Friðrik Jónsson, formaður BHM. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst þetta óhugnanleg aðferðafræði. Við í verkalýðshreyfingunni myndum bregðast hratt við ef einhver á vegum atvinnurekanda myndi beita svona aðferðum og í raun misnota lög um hópuppsagnir.“

Þetta segir Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), um tillögu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem er nýtekin við sem formaður Eflingar í annað sinn, um að segja öllu starfsfólki félagsins upp störfum. Tillagan var samþykkt af stjórn Eflingar á stjórnarfundi í fyrradag.

Í tilkynningu frá Baráttulistanum, sem Sólveig Anna leiddi í síðustu stjórnarkosningum Eflingar, segir að breytingar innan Eflingar séu hugsaðar til að innleiða samræmi, jafnrétti og gagnsæi í launakjörum starfsfólks, innleiða eðlilegt bil milli hæstu og lægstu launa á skrifstofunum og gera aðrar löngu tímabærar og nauðsynlegar breytingar á skipulagi.

Áður hafði komið fram að ástæður fyrir hópuppsögninni væru meðal annars jafnlaunavottun, nýjar starfslýsingar, hæfniviðmið og breytingar á launakerfi.

Stéttarfélög þurfi að vanda sig

Friðrik telur þær ástæður sem gefnar hafa verið fyrir uppsögnunum ekki réttlæta hópuppsögn og segir þetta ósiðlegt hjá stjórn Eflingar. Hann tekur fram að auðvitað geti komið upp hjá stéttarfélögum, rétt eins og öðrum vinnustöðum, að segja verði starfsfólki upp eða skera niður, en þá þurfi stéttarfélögin að vanda til verka.

„Við þurfum að vanda okkur sérstaklega. Þetta eru einfaldlega óvönduð vinnubrögð, þau eru ekki sæmandi.“

Hættulegt fordæmi

Friðrik segir auðséð að aðgerðir Sólveigar Önnu og stjórnar hennar séu í grunninn til þess fallnar að lækka laun starfsmanna. Verið sé að setja hættulegt fordæmi.

Í samtali við mbl.is í gær vísaði Sólveig Anna því á bug að hópuppsögnin skapaði hættulegt fordæmi fyrir hinn almenna vinnmarkað.

„Þetta er að engu leyti til eftirbreytni eða til neinnar fyrirmyndar. Þetta er afleitt mál. Efling getur ekki komið fram í þessu eins og þau séu eyland – þetta kemur illa við okkur öll,“ segir Friðrik.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert