Segja Sólveigu Önnu fara með rangt mál

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Trúnaðarmenn Eflingar lýsa yfir andstöðu við hópuppsögnina og telja ekkert því til fyrirstöðu að ná yfirlýstum markmiðum stjórnar Eflingar með öðrum hætti,“ segir í bókun frá trúnaðarmönnum Eflingar sem undirrituð er af Ölmu Pálmadóttur trúnaðarmanni Eflingar, Gabríel Benjamín, trúnaðarmanni VR og Daníel Ísebarn Ágústssyni, fyrir hönd Eflingar í gær.

Í bókuninni kemur fram að stéttarfélagið Efling hafi samþykkt skipulagsbreytingar 11. apríl sl. með fyrirvara um samráð við trúnaðarmenn. Trúnaðarmenn segja að Sólveig Anna fari með rangt mál um að samkomulag hefði náðst um hópuppsagnirnar, og bókun þeirra frá því í gær hafi verið send þar sem hið rétta kemur í ljós. 

Formaður hefði átt að afhenda uppsagnarbréfin

Í bréfi frá trúnaðarmönnum sem sent var á fjölmiðla segir að ekki sé hægt að segja að um samráð hafi verið að ræða um hópuppsagnirnar, „enginn vilji var til breytinga eða mildunar á hópuppsögn heldur einhliða ákvörðun sem er röng, óskynsamleg og með öllu ónauðsynleg. Gefnar voru upp ástæður sem fólust í breytingum á ráðningarkjörum og til að uppfylla skilyrði varðandi jafnaunavottun. Þessar ástæður eru ekki byggðar á rökum og halda engu vatni.“

Í bréfinu kemur einnig fram að eftir á að hyggja hefði verið best að formaður hefði afhent hverjum og einum uppsagnarbréfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert