Sexfalt fleiri flug um Keflavík um páskana

Mun fleiri ferðast um páskana nú en í fyrra. Mikið …
Mun fleiri ferðast um páskana nú en í fyrra. Mikið hefur verið dregið úr ferðatakmörkunum í Evrópu mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðahugur er í fólki fyrir páskana og margir verða á ferð og flugi til og frá landinu. Þær upplýsingar fengust hjá Isavia að um páskana í fyrra hafi komur og brottfarir farþegaflugvéla í millilandaflugi verið innan við 100 um páskana en stefni í að verða 600-700 nú. Páskatímabilið telst vera frá laugardegi fyrir pálmasunnudag og til annars dags páska að báðum dögum meðtöldum.

Ólíkar ferðatakmarkanir

Ferðatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins hefur víða verið aflétt eða dregið mjög úr þeim. Mismunandi reglur gilda í einstökum löndum og getur skipt máli hvaðan farþegi er að koma hvaða skilyrði hann þarf að uppfylla til að vera hleypt inn í landið.

Icelandair hefur útbúið upplýsingasíðu á heimasíðu sinni (icelandair.is) um hvaða kröfur eru gerðar á hverjum áfangastað. Stuðst er við opinberar upplýsingar frá hverjum áfangastað. Síðan er uppfærð mjög reglulega. Ferðamenn geta nýtt sér hana, hvort sem þeir ætla að fljúga til áfangastaða Icelandair eða ekki. Hægt er að færa inn upplýsingar um stöðu bólusetninga gegn Covid-19, hvaðan er ferðast og hvert og hvar vegabréf viðkomandi var gefið út. Svo er hægt að sækja lista yfir gögn sem þarf að hafa handbær.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair eru kröfur mismunandi eftir áfangastöðum og bólusetningarstöðu. Fáir áfangastaðir í Evrópu krefja bólusetta um neikvætt Covid-19-próf en t.d. Spánn, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Austurríki krefja óbólusetta um próf.

Óbólusettir farþegar komast hvorki til Bandaríkjanna né Kanada. Bólusettir þurfa að framvísa þar nýlegu og neikvæðu Covid-19-prófi. Yfirleitt þarf að fylla út eyðublað með upplýsingum um viðkomandi farþega og hafa bólusetningarvottorð.

Flugfélagið Play (flyplay.com) veitir einnig upplýsingar um hvaða skilyrði eru sett á hverjum áfangastað vegna kórónuveirufaraldursins. Þær er t.d. hægt að nálgast í gegnum gagnvirka svarþjónustu (Playfin) og eru upplýsingarnar uppfærðar jafnóðum og breytingar verða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert