Skrifstofan korter í að vera óstarfhæf

Efling.
Efling. Samsett mynd/mbl.is

„Skrifstofan er korter í að vera með öllu óstarfhæf, segir Gabríel Benjamin, trúnaðarmaður starfsfólks Eflingar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að fáeinir starfsmenn hafi mætt á skrifstofu stéttarfélagsins í dag til að sinna fyrirspurnum félagsmanna. 

„Fólk þurfti að sinna erindum sem tilheyrðu ekki þeirra sviði, sem það hafði ekki endilega sérfræði kunnáttu á,“ segir Gabríel og bætir við að enginn starfi hjá stéttarfélagi án þess að vera hugsjónarmanneskja. 

Hann segir óvíst hversu lengi fólk getur haldið áfram að sinna baráttunni fyrir réttindum annarra meðan ástandið er svona.

Gabríel segist ekki getað metið það hvort starfsfólkið ætli að sækja um aftur hjá Eflingu. 

„Þetta er alveg gífurlega mikið áfall. Sumir eru með áratuga reynslu og starfað nánast frá stofnun Eflingar.“

Stjórnin fundaði ekki með trúnaðarmönnum

Gabríel ítrekar að trúnaðarmennirnir hafi ekki átt neinn þátt í ákvörðuninni um hópuppsagnirnar.

Hann segir að þau hafi verið boðuð á samráðsfund með lögmanni stjórnarinnar með mjög litlum fyrirvara. 

Fyrri fundurinn fór fram á mánudaginn en síðari fór fram í gær. Gabríel segir að stjórnin hafi ekki mætti ekki á neinn fund með trúnaðarmönnunum. 

Hann segir að á þeim síðari hafi þau fengið stuðning frá lögmanni VR og lögmanni ASÍ til þess að veita þeim ráðgjöf.

„Þar reyndum við eftir fremsta megni að sinna þessum fundum,“ sagir hann og bætir við að samráðsfundir séu lagalegur gjörningur. Í því felist að athuga hvort hægt sé með einhverju móti að koma í veg fyrir hópuppsagnir eða milda þær þeim með einhverjum hætti.

Gabríel bendir á að lög um hópuppsagnir séu frá árinu 2000 og þá hafi örugglega engum órað við því að heilu stéttarfélagi yrði sagt upp. Því nái þau ekki utan um slíka endurskipulagningu.

Misnotar tól um hópuppsagnir

„Við ræddum við lögmann stjórnarinnar, sem sinnti hlutverki sínu vel, en hann var ekki í stöðu til þess að ræða efnisatriði eða svarað spurningum.“

Gabríel segir það skrýtið að lesa fullyrðingar Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um að það hafi verið sátt þar sem hún sat ekki fundina.

„Sem atvinnurekandi er hún [Sólveig] að misnota tól um hópuppsagnir. Hún segir það vera nauðsynlega endurskipulagningu en ég veit fyrir víst að það er hægt að ná öllum þessum markmiðum fram án þess að ráðast í hópuppsagnir.“

Sólveig einnig starfsmaður á skrifstofu

Agnieszka Ewa Ziól­kowska, vara­for­maður Efl­ing­ar, er ein þeirra sem fékk uppsagnarbréf þar sem hún þiggur laun frá félaginu. 

Gabríel segist einmitt hafa velt því fyrir sér áður en bréfin voru send út hvort Sólveig Anna þyrfti sjálf að segja sér upp.

„Jú, hún er formaður en hún er líka starfsmaður með ráðningasamning og uppsagnarfrest,“ segir hann. 

„Ég get ekki sé sanngirnina í því að segja upp starfshluta varaformanns, og segja henni að starf hennar verði auglýst, á sama tíma og Sólveig Anna þarf væntanlega ekki að sækja um stöðu sína.“

Framhaldið óvíst

Spurður hvert starfsfólkið geti leitað segir Gabríel að VR hafi verið afar hjálpsamt starfsfólki, einnig þeim sem eru ekki í því stéttarfélagi, og boðið þeim ráðgjöf.

„Ég verð nú bara að hrósa starfsfólki VR og allt sem þau hafa gert fyrir okkur. Það er til sóma og svona á verkalýðsbaráttan að fara fram.“

Inntur að því hvernig hann sjái framhaldið segir Gabríel það vera óskrifað eins og er.

„Ég velti því fyrir mér hvort fólk hafi burði til þess að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem eru eftir vegna þessa áfalls,“ segir Gabríel og bætir við að hann voni svo innilega að ekkert bráðnauðsynlegt erindi hafi borist þeim síðustu daga. 

„Ég veit ekki til þess að það hafi verið nógu mikið af fólki til þess að sinna því á réttum tíma. Ef það gerist á næstu þremur mánuðum þá tekst ekki að sinna því með fullnægjandi hætti. Þá skrifast það algjörlega á Sólveig Önnu Jónsdóttur og stjórn hennar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert