Spyr hvort Sólveig ætli að reka sjálfa sig

Agnieszka Ewa Ziól­kowska, vara­for­maður Efl­ing­ar.
Agnieszka Ewa Ziól­kowska, vara­for­maður Efl­ing­ar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Agnieszka Ewa Ziól­kowska, vara­for­maður Efl­ing­ar, segir í samtali við mbl.is að hún muni athuga lögmæti uppsagnarbréfsins sem hún fékk frá stéttarfélaginu í gær en Agnieszka er lýðræðislega kjörin varaformaður.

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar og B-listi henn­ar, samþykktu á stjórn­ar­fundi á mánudag að öllu starfs­fólki Efl­ing­ar yrði sagt upp.

Innt að því hvort henni sé sagt upp sem starfsmanni skrifstofunnar eða varaformanni segir Agnieszka að hún sinni stöðu varaformanns og starf hennar fyrir félagið sé sem slíkur.

„Þetta er fáránlegt. Hvernig á ég að sækja um stöðu sem varaformaður?“ spyr Agnieszka og bætir við að hún viti ekki hver næstu skref hennar verði. Hún muni þó byrja á að athuga lögmæti uppsagnarinnar.

Formaður og varaformaður óvinir

„Ég er forvitin að vita hvort Sólveig Anna ætli að reka sjálfa sig. Ef hún sér ekki ástæðu fyrir stöðu kjörins launaðs varaformanns á skrifstofunni, ætlar hún þá ekki að mæta á skrifstofuna? Eða á hún rétt á mun betri meðferð og sú eina sem á rétt á stöðu á skrifstofunni?“ segir Agnieszka og bætir við að það sé af og frá ef hún eigi að gegna stöðu ólaunaðs varaformanns sem hlaupi til úr öðru starfi er Sólveig sé frá.

Agnieszka hefur ekki rætt við Sólveigu síðan Agnieszka tók við formennsku í nóvember. 

„Þegar ég sagði henni að ég gat ekki boðið henni á fund trúnaðarráðs Eflingar, þar sem hún hafði sagt af stjórn, ákvað hún að ég væri óvinur hennar og við höfum ekki talað saman síðan.“

Agnieszka segir að staðan sé gífurlega kvíðavaldandi og erfið. 

„Svona á verkalýðshreyfingin ekki að starfa. Við eigum ekki að slást við hvort annað, við eigum að tryggja réttindi félaga okkar,“ segir hún og bætir við að Efling hafi starfað eðlilega undir hennar stjórn frá nóvember 2021 til febrúar á þessu ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert