Vilhjálmur ber traust til Sólveigar

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég trúi því að Sólveig Anna hafi farið eftir þeim leikreglum sem í gildi eru,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambands Íslands, í samtali við mbl.is.

„Það er miður þegar gripið er til hópuppsagnar á vinnustöðum. Enda erum við hér að tala um lífsafkomu og atvinnuöryggi launafólks. Þegar slíkt gerist er það grundvallaratriði að ætíð sé farið efir öllum lögum og reglum og tryggt að kjarasamningsbundin réttindi séu virt í hvívetna.“

Þetta segir Vilhjálmur um uppsagnir á öllu starfsfólki Eflingar. Efling er hluti af Starfsgreinasambandinu og Vilhjálmur fagnaði þegar Sólveig Anna bauð sig aftur fram sem formann Eflingar.

„Það er hins vegar ljóst að þessar uppsagnir eru eðli málsins samkvæmt alfarið á ábyrgð lýðræðislega kjörinnar stjórnar Eflingar. Ég trúi því og treysti að stjórn félagsins tryggi að öllum lögum og reglum verði tryggð með afgerandi hætti.“

Telur þú að farið hafi verið eftir lögum í uppsögnunum?

„Ég hef engar forsendur til að meta það. Ég trúi því að Sólveig Anna hafi farið eftir þeim leikreglum sem í gildi eru.“

„Aðalmálið er það að starfsfólkinu séu tryggð þau réttindi sem þau eiga rétt á, sem og aðgengi að lögfræðiþjónustu og annað slíkt, óski það eftir slíku. Ég hef ekki heyrt annað en að þau munu fá þá þjónustu sem þau óska eftir til að verja sín réttindi.“

Hvað með starfsfólk Eflingar sem er einnig í félaginu sem myndi þar venjulega sækja lögfræðiaðstoð?

„Að sjálfsögðu eiga starfsmenn rétt á því að ná sér í óháða lögfræðiaðstoð telji það sig þurfa slíkt og stéttafélagið standi þá straum að því.“

Verður ekki súr stemning á degi verkalýðsins út af þessu máli?

„Loksins getur verkalýðshreyfingin og launafólk safnast saman fyrsta maí og það hefur ekki getað gerst síðustu tvö ár sökum Covid-19. Ég ætla að vona að það verði góð stemning á fyrsta maí vítt og breytt um landið,“ segir Vilhjálmur Birgisson sem vildi ekki tjá sig meira um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert