Umhverfissvið Kópavogsbæjar er að fara yfir og gera ítarlegri þau gögn sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taldi vanta upp á við afgreiðslu á framkvæmdaleyfi vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar í Fossvöllum og Lögbergsbrekku. Vegagerðin stöðvaði framkvæmdir eftir úrskurð nefndarinnar um ógildingu framkvæmdaleyfis og bíður viðbragða Kópavogsbæjar.
Auður D. Kristinsdóttir, skipulagsfulltrúi Kópavogsbæjar, segir að málið sé til skoðunar hjá lögfræðideild bæjarins og ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvernig brugðist verði við því.
Málið snýst um galla á gögnum sem lágu til grundvallar afgreiðslu bæjarstjórnar á umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi. Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá Waldorfskólanum, sem kærði framkvæmdaleyfið, var ekkert samráð haft við skólann við undirbúning framkvæmdarinnar eða tillit tekið til starfsemi skólans við hönnun kaflans. Hafi skólinn orðið að kæra framkvæmdina í von um að rödd hans heyrðist.
Waldorfskólinn hefur gert athugasemdir við tengingu skólans inn á hinn tvöfalda Suðurlandsveg. Tengingum inn á Suðurlandsveg verður fækkað verulega og þær sameinaðar á fáum stöðum. Áfram verður hægt að aka inn á veginn í austurátt en ekki taka vinstribeygju í átt til Reykjavíkur. Til þess að komast að skólanum þarf að fara um nýjan hliðarveg, rúmlega kílómetra langan.
Kópavogsbær er nú með til afgreiðslu umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir hliðarveg frá veginum að Waldorfskólanum, meðfram Suðurlandsvegi og inn á Geirlandsvegamót. Hliðarvegurinn er um 1,2 km að lengd og þurfa nemendur, kennarar og aðrir sem eiga erindi í skólann því að fara nokkrar krókaleiðir á vegi með 50 km hámarkshraða.