Refsiaðgerðir Rússa gætu beinst að Íslandi

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ísland þarf þegar í stað að hefja undirbúning vegna hugsanlegra refsiaðgerða Rússlands gegn landinu. Rússar hafa hótað hörðum viðbrögðum við væntanlegri inngöngu Finnlands og Svíþjóðar inn í Atlantshafsbandalagið (NATO).

Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Óttast viðbrögð Rússa við inngöngu í NATO

Í færslunni segir hann ráðamenn í Kreml hafa hótað hörðum viðbrögðum sæki Finnland og Svíþjóð eftir aðild að NATO og að ríkisstjórnir landanna tveggja óttist þau svo mjög að þær gætu hætt við aðildarumsókn.

Refsiaðgerðir Rússlands munu að mestu snúa að ríkjunum tveimur en þær gætu líka beinst að Íslandi og öðrum aðildarríkjum NATO. Auk þess að það eitt og sér að Ísland er eitt Norðurlandanna getur leitt til refsiaðgerða.

Hér skipti mestu máli fyrir Ísland, sem er minnsta aðildarríki NATO, herlaust og án fastrar viðveru varnarliðs, að vera ekki „veikasti hlekkurinn í varnarbandalaginu“, að mati Baldurs.

Sérstaklega er mikilvægt að huga að netöryggi, öryggi sæstrengja og helstu stofnana þjóðfélagsins nú í aðdraganda ákvörðunar Svía og Finna. Mikilvægt er að Ísland taki þessi mál þegar í stað upp við bandalagsríkis sín til að styrkja varnir landsins.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands.
Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands. AFP

Aðildin mun styrkja varnir allra Norðurlanda

Telur hann inngöngu ríkjanna tveggja inn í NATO þó muni styrkja varnir allra Norðurlandanna til langs tíma litið. Þau séu líklegri til að tala einni röddu í varnarmálum og geta í sameiningu brugðist við framtíðar ógnum, hvort sem þær komi frá Rússlandi eða Kína.

Samvinna Norðurlandanna í varnarmálum myndi einnig styrkjast. Varnarsamvinna ríkjanna er hins vegar líkleg til að fara í vaxandi mæli fram innan NATO. Hvaða áhrif það mun hafa á norræna varnarsamvinnu á vettvangi Norðurlandaráðs er erfitt að meta í augnablikinu.“

Þá segir hann forystufólk jafnaðarmanna, sem haldi um stjórnartaumana í Finnlandi og Svíþjóð og hingað til verið mótfallið aðild að varnarbandalaginu, vera að snúast hugur. Mið- og hægri flokkar í löndunum, sérstaklega í Svíþjóð, hafi af vaxandi þunga talað fyrir aðild að bandalaginu á síðustu árum.

Löndin eiga í náinni varnarsamvinnu við NATO sem og Bandaríkin en hafa hingað til talið að hlutleysi nýtist best til að tryggja stöðugleika í norður Evrópu. Hlutleysi hafi komið í veg að Svíþjóð hafi dregist inn í stríðsátök í meira en 200 ár og Finnland lent austan megin járntjalds eftir síðari heimsstyrjöldina.“

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Enginn veit takmörk útþenslustefnu Pútíns

Ástæðuna fyrir stefnubreytingu jafnaðarmanna segir Baldur vera einfalda. Rússland virði ekki lengur landamæri nágrannalanda sinna og hiki ekki við að ráðast inn í þau. Engin viti takmörk útþenslustefnu Pútíns og að hann hafi gefið í skyn að Finnland eigi að tilheyra Rússlandi.

Ríki sem ekki eiga aðild að NATO eru í veikari stöðu gagnvart Rússlandi og mun líklegra er að á þau verði ráðist en aðildarríki bandalagsins. Ráðist Rússland inn í Finnland og Svíþjóð eru þau líkleg til að lenda í sömu stöðu og Úkraína. Þau myndu fá móralskan stuðning og vopn frá Vesturlöndum en NATO og aðildarríki þess myndi ekki verja ríkin. Það yrði þrautin þyngri fyrir þessi ríki að verja sig sjálf gegn kjarnorkuveldinu Rússlandi.

Þannig muni aðildin að NATO draga úr líkum þess að Rússland ráðist á þau og auka stöðugleika á Eystrasaltinu og Norðurlöndunum, að sögn Baldurs. Fæling sé lykilhugtakið í þeirri stefnumótun sem nú eigi sér stað, þ.e. að fæla ráðamenn í Kreml frá því að ráðast til atlögu.

Að sama skapi þarf Ísland nú að huga að því að fæla ráðamenn í Kreml frá því að láta refsiaðgerðir bitna sérstaklega á okkur sæki Finnland og Svíþjóð um inngöngu í NATO á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka