„Reynt að fella okkur allt námið“

Dr. Ragnheiður Bragadóttir við upphaf augnskurðaðgerðar á Ullevål-sjúkrahúsinu þriðjudaginn 5. …
Dr. Ragnheiður Bragadóttir við upphaf augnskurðaðgerðar á Ullevål-sjúkrahúsinu þriðjudaginn 5. apríl. Sjúklingurinn er með ellidrer, eða cataract, og kemur Ragnheiður akrýllinsu fyrir í auganu í um klukkustundarlangri aðgerð. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég er fædd í Reykjavík árið 1959 og svo flutti ég til Vestmannaeyja þar sem ég bjó til átta ára aldurs,“ hefur dr. Ragnheiður Bragadóttir frásögn sína, prófessor í augnlækningum við Háskólasjúkrahúsið í Ósló í Noregi, Ullevål í daglegu tali, og sérfræðingur í sjónhimnuskurðlækningum. Við erum stödd á skrifstofu Ragnheiðar í byggingu númer 36, Ullevål-sjúkrahúsið er nánast eins og eigið sveitarfélag mitt í norsku höfuðborginni og ekki fyrir hvern sem er að rata um fjölda bygginga á lóðinni, þær elstu frá ofanverðri 19. öld. Ragnheiður fannst þó að lokum.

Ragnheiður á skrifstofu sinni. Hún lauk doktorsprófi í rafeðlisfræði augans …
Ragnheiður á skrifstofu sinni. Hún lauk doktorsprófi í rafeðlisfræði augans í Linköping árið 1996 og hefur meðal annars fengist við sjónhimnuígræðslur á köttum í samstarfi við Kristinu Narfström, prófessor í dýralækningum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Augnlæknirinn hefur búið í Skandinavíu hálfa ævi sína, hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1979 og innritaðist í læknadeild Háskóla Íslands, þegar ákveðin í að helga starfsferil sinn því sem við gætum einna best samkvæmt orðatiltækinu – sjáaldri augans. „Ég var eiginlega ákveðin í að verða augnlæknir áður en ég byrjaði í læknisfræðinni. Mér finnst augað svo fallegt og sjónin er svo mikilvæg,“ segir Ragnheiður og erfitt að mótmæla þeirri yfirlýsingu enda hefur hún bætt lífsgæði býsna margra um dagana, sé aðeins litið til skurðaðgerða hennar skipta þær þúsundum á löngum ferli.

Doktor í rafeðlisfræði augans

„Á þessum tíma var ekki numerus clausus [fjöldatakmarkanir miðaðar við ákveðinn fjölda efstu próftaka] í læknadeildinni en þegar ég byrjaði voru þar margir sem voru að fara í annað og þriðja skiptið á fyrsta ár og rosaleg pressa á okkur, það var reynt að fella okkur og því haldið áfram gegnum allt læknanámið,“ segir Ragnheiður og getur ekki varist hlátri. „Við vorum held ég yfir 60 sem útskrifuðumst '86 og svo tók ég kandídatsárið á Akureyri,“ heldur hún áfram og játar að á þessum tíma hafi hún þó aðeins verið að bíða eftir að komast á augndeild. Það tókst og við tóku níu mánuðir á Landakotsspítala en þá var stutt í Skandinavíuför og þaðan hefur Ragnheiður enn ekki snúið.

Gott augnsamband læknis og sjúklings verður seint ofmetið og hér …
Gott augnsamband læknis og sjúklings verður seint ofmetið og hér horfir Ragnheiður (vinstra megin) í auga sjúklings síns af þrívíddarskjá og skjámyndin því ekki alveg í fókus frá sjónarhóli lesenda. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég fékk hjálp frá Ingimundi Gíslasyni, lækni á Landakoti, við að koma mér út til Svíþjóðar. Ég hafði áhuga á rannsóknum á sjónhimnunni og þannig lenti ég í Linköping,“ segir Ragnheiður sem bjó um árabil í þessum sænska smábæ en háskólasjúkrahúsið þar var á þessum tíma mjög framarlega í sjónhimnurannsóknum og lauk hún doktorsgráðu í augnlækningum þaðan árið 1996 sem sérfræðingur í rafeðlisfræði augans.

Í Linköping komst Ragnheiður í kynni við Kristinu Narfström, prófessor í dýralækningum, sem að sögn Ragnheiðar var býsna lunkin við að finna dýr með sjónhimnusjúkdóma, bæði hunda og ketti. „Í hundum og köttum eru mjög margir arfgengir sjónhimnusjúkdómar sem hún hefur fundið og við fengumst til að mynda við sjónhimnuígræðslur á köttum í Gautaborg. Þeirri, sem sá um kettina fyrir okkur þar, þótti hálfóhugnanlegt að við værum að fara að skera í augun á köttum en ég sagði henni að hún gæti verið alveg róleg með það, ég væri búin að æfa mig svo mikið á mannfólkinu,“ segir Ragnheiður og glottir við tönn.

Blankur læknanemi á öndverðum níunda áratug síðustu aldar og færleikurinn …
Blankur læknanemi á öndverðum níunda áratug síðustu aldar og færleikurinn valinn í samræmi við fjárhaginn, austurþýskur Trabant sem forðum var algeng sjón á íslenskum vegum. Tveir strokkar og 26 hestöfl, hver þarf meira? Ljósmynd/Aðsend

Loksins eftir 20 ár

Ýmislegt gagnlegt hafi komið upp úr þessari vinnu, viss genastökkbreyting hafi til dæmis uppgötvast í hundum. „Hundarnir sem við meðhöndluðum voru með stökkbreytingar í RPE65-geninu. Ástralskir vísindamenn gerðu vírusvektor með heilbrigðu RPE65-geni og við komum því fyrir undir sjónhimnu í augum hundanna. Vírusvektorinn smitaði frumurnar með fríska geninu og hundarnir fengu sjón,“ útskýrir Ragnheiður ferlið og hljómar nánast sem biblíusögur í eyrum óinnvígðra. Kveður hún þarna á ferð eitt margra gena í hverjum stökkbreytingar valda sjónhimnusjúkdómum sem leiða til blindu og er reyndar ákveðin þungamiðja í störfum hennar við Ullevål.

Þær eru fjórar, íslensku augnlæknarnir við Ullevål, f.v. Ragnheiður, Helga …
Þær eru fjórar, íslensku augnlæknarnir við Ullevål, f.v. Ragnheiður, Helga Huld Petersen, Þóra Jónsdóttir og Valgerður Traustadóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég kom hingað varð ég yfirmaður á deild fyrir sjónhimnuskurðlækningar og setti á fót rannsóknarstofu fyrir elektrófýsíólógíu [rafeðlisfræði] hérna niðri í kjallara og hún Sonja, sem við mættum í stiganum, er tæknimanneskja þar,“ segir Ragnheiður af genarannsóknunum og blaðamaður man glöggt eftir téðri Sonju í stiganum, brosmildri og huggulegri. Stemmningin er mjög heimilisleg hér á augndeildinni. „Í elektrófýsíólógíunni getum við greint á milli þess hvort um arfgenga sjónhimnusjúkdóma er að ræða eða sjúkdóma af öðrum orsökum,“ útskýrir Ragnheiður.

Ragnheiður framkvæmir aðgerðina á sjúklingi sínum og fylgist með því …
Ragnheiður framkvæmir aðgerðina á sjúklingi sínum og fylgist með því sem hún er að gera á skjánum gegnum þrívíddargleraugu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hún heldur lista yfir sjúklinga, sem greindir eru á rannsóknarstofunni, og smám saman hafi margar stökkbreytingar fundist með rannsóknum sem teygja sig víða um heim. Á listanum hafi því fjölgað jafnt og þétt og hann brátt talið 1.300 manns. Fáeina úr þessum hópi var ekki hægt að meðhöndla fyrr en téðar rannsóknir á hundunum höfðu skilað sínu. „Fyrsta genameðferðin á arfgengum augnsjúkdómi var einmitt á RPE65, að hluta til vegna okkar rannsókna á hundunum. Við höfðum þá á skrá nokkra sjúklinga sem ég meðhöndlaði fyrir tæpu ári. Loksins eftir 20 ár!“ segir Ragnheiður sigri hrósandi og játar að draumur hennar hafi einmitt verið að hefja meðhöndlun þessara sjúklinga áður en sól eftirlaunaáranna risi yfir hana.

Með doktorshattinn í Linköping árið 1996, nýbakaður doktor í rafeðlisfræði …
Með doktorshattinn í Linköping árið 1996, nýbakaður doktor í rafeðlisfræði augans. Ljósmynd/Aðsend

Ef við gerum ekkert missirðu sjónina

Samstarf þeirra Narfström, sem hófst í Linköping á sínum tíma, teygir sig yfir áratugi og raunar langt út fyrir Skandinavíu og Evrópu. „Hún fékk prófessorsstöðu í Missouri, var „headhunt-uð“ [ráðin gegnum stjórnenda-/sérfræðingaleit] til Bandaríkjanna og samstarf okkar hélt áfram eftir það. Hún fékk þar mjög góða aðstöðu til sinna rannsókna, ég var þar mörgum sinnum og við gerðum augnaðgerðir saman,“ segir Ragnheiður og lætur í té mynd sem hér fylgir af þeim Narfström framkvæma augnaðgerð á hundi í Missouri í byrjun aldarinnar.

Ljósmynd/Aðsend

Sjúklingar koma inn á skurðarborð Ragnheiðar af ýmsum ástæðum, svo sem þegar um sjónhimnulos er að ræða, sem er bráðaaðgerð, og sjóntap af völdum sykursýki en sá sjúkdómur getur valdið blindu sé hann það langt genginn að leysigeislameðferð dugi ekki til. „Tækninni hefur fleygt mikið fram síðustu árin, fyrir tuttugu árum sögðum við við sykursjúka, sem voru komnir á þetta stig, „ef við gerum ekki neitt missirðu sjónina, ef við skerum þig þá sérðu annaðhvort á morgun eða þú verður blindur“, en núna er þetta allt öðruvísi, miklu betri áhöld, meiri kunnátta og svo tæknin við að sjá inn í augað,“ útskýrir Ragnheiður og segir frá smásjártækni sem gerir læknum kleift að skoða augað að innan. „Þú færð að sjá það í aðgerðinni núna á eftir,“ segir læknirinn glaðhlakkalega og blaðamanni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.

Hárbeitt áhöld við sjónopið, smásjártæknin býður fjölda möguleika, þar á …
Hárbeitt áhöld við sjónopið, smásjártæknin býður fjölda möguleika, þar á meðal notkun mun smærri áhalda en áður tíðkaðist. Í þessu starfi er vissara að vera ekki skjálfhentur. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Meðal þess sem Ragnheiður nefnir af tækniframförum síðustu ára eru mun smærri áhöld til augnaðgerða. „Nú gerir maður bara pínulítil göt í gegnum augnvegginn, áður fyrr þurfti að gera stór op til að komast að með stærri verkfæri inn í augað. Núna erum við líka með miklu betri smásjár og linsur og horfum á aðgerðina á þrívíddarskjá, ég held það séu bara 500 sjúkrahús í öllum heiminum með svoleiðis, eitt sjúkrahús í viðbót við okkur hér í Noregi og ég veit að til stendur að kaupa slíka skjái í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.“

Þýðir ekkert að tala íslensku

Augnskurðaðgerðir Ragnheiðar taka yfirleitt um klukkustund og sjúklingur almennt útskrifaður heim samdægurs með heimsókn í eftirlit daginn eftir. Ótrúlegt? Kannski ekki árið 2022. Aðrar frásagnir af hinum fínþráðóttari vefjum augnskurðlækninga hljóma jafnvel enn ævintýralegar. „Í sumum aðgerðum notar maður gas inn í augað og silikonolíur til að loka sárinu, maður getur ekki saumað sjónhimnuna. „Sú sem ég ætla að operera á eftir,“ segir Ragnheiður, í þessu viðtali er norskum og sænskum læknisfræðihugtökum mikið slett eftir langa búsetu og allt í lagi að leyfa þeim að vera með sums staðar, „er með það sem kallast ellidrer, eða cataract [einnig ský á auga], þetta er algengasta aðgerðin á auga,“ heldur hún áfram og lýsir því hvernig aðgerðin fer fram og lyktar með því að akrýllinsu er komið fyrir í auganu til að auðvelda sjúklingnum daglegt líf.

Slakað á eftir maraþonhlaup í Stokkhólmi 1996. Með Ragnheiði á …
Slakað á eftir maraþonhlaup í Stokkhólmi 1996. Með Ragnheiði á myndinni eru Trausti Valdimarsson meltingarsérfræðingur og Guðjón sonur hans. Ljósmynd/Aðsend

Þessu fylgja frekari frásagnir af augnkvillum, svo sem götum á sjónhimnu og glerhlaupslosi svokölluðu og þeim aðferðum sem beitt er á skurðarborðinu þessu til meðhöndlunar sem er vægast sagt nákvæmnisvinna, unnin gegnum smásjá tengda þrívíddarskjá og alls ekki fyrir skjálfhenta.

Þegar hér er komið sögu í viðtalinu er drepið létt á dyr og inn á skrifstofu Ragnheiðar stígur Þóra Jónsdóttir augnlæknir en við deildina á Ullevål gegna fjórar íslenskar konur augnlæknastöðum og eru þá Helga Huld Petersen og Valgerður Traustadóttir enn ótaldar. Þóra tekur þegar að ræða við Ragnheiði á norsku um sjúkdómstilfelli nokkurt og blaðamaður getur ekki á sér setið að spyrja út í þetta stílbrot þeirra Íslendinga. „Það þýðir ekkert að tala um þetta á íslensku,“ svarar Þóra um hæl, „hér er þetta allt á norsku sem við erum að fást við allan daginn og yrði tómur misskilningur ef við færum að reyna að koma þessu frá okkur á íslensku okkar á milli.“ Gefur augaleið.

Ragnheiður í útreiðartúr með mágkonu sinni, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, og …
Ragnheiður í útreiðartúr með mágkonu sinni, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, og bróðurdótturinni Brynhildi Gígju Ingvarsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Fjöldi Íslendinga í sérnámi í Linköping

Segja mætti í bókstaflegri merkingu að starfsemi Ragnheiðar innan veggja sjúkrastofnunarinnar skeri í augu, en daglegt amstur er þó mun margþættara en það. „Ég er með einn aðgerðadag í viku, það er í dag [þriðjudag í síðustu viku]. Á morgun hitti ég svo þá sem ég operera í dag og svo er ég með ERG á morgun líka, það er greining á þeim sem eru með arfgenga sjónhimnusjúkdóma, en á mánudögum og föstudögum er ég akademísk,“ segir Ragnheiður og minnir þar með á að prófessorstitillinn, sem nefndur er í upphafi viðtalsins, er ekki bara til skrauts.

„Þá er ég með stúdenta í verklegri kennslu og rannsóknarvinnu og flyt fyrirlestra í auditorium sem er hérna niðri,“ segir hún af prófessorsstöðunni sem er 20 prósent staða á pappírum en þó 40 prósent í framkvæmd. Áður en Ragnheiður tók við prófessorsstöðunni var hún um árabil dósent og kveðst betur mega við una nú þar sem prófessorsstaðan bjóði henni mun rýmri tíma til rannsókna, þess veigamikla þáttar allrar læknisfræði.

Sonur Ragnheiðar, Óli Dagmann Jóhannsson, í skíða- og snjóbrettaferð með …
Sonur Ragnheiðar, Óli Dagmann Jóhannsson, í skíða- og snjóbrettaferð með mömmu og fákurinn ekki af verri endanum, Saab 900 Turbo. Ljósmynd/Aðsend

Við vendum kvæði okkar í krossinn fræga og förum yfir margra áratuga búsetu í Skandinavíu. Ragnheiður fluttist til Linköping í Svíþjóð á níunda áratug aldarinnar sem leið og á fjórða tug ára síðar er hún hér enn. „Það var mjög gaman í Linköping, við vorum svo mörg Íslendingar þarna í sérnámi í læknisfræði, þetta var hálfgerð Íslendinganýlenda,“ rifjar Ragnheiður upp af smábænum sænska sem hún flutti til árið 1988. „Þarna voru líka makar og börn svo þetta var býsna mikill hópur með öllu. Vantaði reyndar alveg fjöllin þarna, þetta er marflatt,“ segir augnlæknirinn sem er mikið fyrir skíðaíþróttina auk þess að stunda kajakróður, hjólreiðar og aðra útivist.

Valdi Noreg vegna skíðanna

„Ég er oft heima á Íslandi í fríum. Bræður mínir hafa oft farið með mig og strákinn minn í ferðir um hálendið á jeppunum sínum með risadekkjum og öllu tilheyrandi.“ Aðalvetrarsportið í Linköping hafi vegna fjallaleysis verið skautar á stöðuvötnunum í nágrenninu, svo sem Roxen og Vättern, nafn þess síðarnefnda greypt í minni blaðamanns, og vafalaust margra miðaldra lesenda, úr fróðleik landafræðikennslubóka áttunda og níunda áratugarins um stærstu stöðuvötn Svíþjóðar, Vänern, Vättern og Mälaren. Hvílíkar minningar.

Í sérfræðinámi í Svíþjóð, líklega 1991. F.v.: Ragnheiður, Ýr Logadóttir …
Í sérfræðinámi í Svíþjóð, líklega 1991. F.v.: Ragnheiður, Ýr Logadóttir þvagfæraskurðlæknir, Anna Geirsdóttir heimilislæknir og Ólöf Sigurðardóttir, sérfræðingur í klínískri lífefnafræði. Ljósmynd/Aðsend

„Svo var komið að því að flytja sig. Mig langaði til einhverrar af höfuðborgunum hér, Kaupmannahafnar, Óslóar eða Stokkhólms, og ég valdi að lokum Ósló og það var bara með skíðaiðkun í huga,“ játar Ragnheiður enda ljóst að danska höfuðborgin hefði líklega seint haft vinninginn á þeim vettvangi. Hún skrifaði þó sjúkrahúsum í öllum borgunum og heimsótti þær allar en Ósló og Ullevål freistuðu að lokum mest. Þetta var árið 1999 eftir rúmlega áratug í Linköping. „Hérna er líka mjög veðursælt og þetta er við sjóinn, baðstrendur, eyjar og allt til alls,“ segir Ragnheiður sem fer töluvert um á gönguskíðum í skóglendinu í nágrenni Óslóar.

Sjónhimnuskurðlækni hafi einmitt vantað við Ullevål fyrir aldamótin, læknar hafi verið að koma frá nágrannalöndunum til nokkurra vikna dvalar í einu og ófremdarástand ríkt í þessum efnum. „Svo mér var tekið með opnum örmum. Þá var verið að endurnýja alla deildina og aðgerðastofurnar og þetta leit mjög vel út,“ rifjar Ragnheiður upp af fyrstu skrefunum á augndeildinni þar sem nú starfa 300 manns, þar af tæplega 70 læknar.

Afarnir í málfræði og skógrækt

„Mér finnst ég nú vera komin hálfa leiðina til Íslands bara með því að koma hingað, Norðmennirnir eru mun líkari okkur Íslendingum en Svíarnir finnst mér,“ segir augnlæknirinn sem á ekki von á öðru en að vera áfram í Noregi. „Mínu fólki á Íslandi finnst fínt að hafa mig hérna í Noregi, koma til mín og fara á skíði og í sumarbústaðinn. Ég er með ekta norska „hyttu“ inni í skógi, án rennandi vatns og rafmagns.

Með Degi bróður að torfærast á íslenska hálendinu.
Með Degi bróður að torfærast á íslenska hálendinu. Ljósmynd/Aðsend

Dagur bróðir minn féll alveg í stafi þegar hann kom þangað fyrst og sagði að þetta hefði hann alltaf dreymt um,“ segir Ragnheiður og brosir breitt en þau eru sex systkinin og svo ættfróðum sé gert til geðs er hún dóttir Braga Björnssonar lögfræðings og Helgu Tryggvadóttur sem var læknaritari á kvensjúkdómadeild Landspítalans þegar Ragnheiður nam læknisfræði. Þau eru bæði látin.

Föðurafi Ragnheiðar var dr. Björn Guðfinnsson prófessor sem framkvæmdi viðamestu rannsókn á íslenskum framburðarmállýskum, sem enn hefur verið framkvæmd, á árunum 1940 til 1946. Fór Björn um nær öll skólahverfi landsins og fékk hátt í 7.000 skólabörn til að lesa textabrot og skrifaði hjá sér framburðareinkennin því ekkert var upptökutækið. Tryggvi, móðurafi Ragnheiðar, Sigtryggsson var hins vegar bóndi, kennari og hannyrðamaður, prjónaði hvort tveggja og óf. Hann fór fjölda skógræktarferða til Noregs og hafði með sér nýjar plöntutegundir til Íslands, varð heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og lék á lágfiðlu en til eru útvarpsviðtöl við Tryggva þar sem hann ræðir varðveislu gamalla dansstefja íslenskra.

Ráðstefna á Íslandi í sumar

„Ég sé aldrei eftir því að hafa valið þetta fag, það er mjög skemmtilegt og ekki síður að hafa rannsóknir og kennslu til að sinna líka. Augnfagið er mjög heillandi og ótrúlega margt sem þar hefur gerst á minni starfsævi,“ segir Ragnheiður Bragadóttir, prófessor og sérfræðingur í sjónhimnuskurðlækningum við Ullevål-sjúkrahúsið, að lokum. Hún er á leið til Íslands með rísandi sól, þar fer í júní fram ráðstefna um arfgenga sjónhimnusjúkdóma á vegum samtakanna Retina International, sem Blindrafélag Íslands á aðild að. RI-samtökin standa reglulega fyrir ráðstefnum þar sem leikir og lærðir koma saman og hlýða á fremstu vísindamenn heims greina frá rannsóknum sínum og fer ráðstefnan í sumar fram samhliða Norðurlandaráðstefnu augnlækna sem Ísland hýsir í ár.

Lífið er annað og meira en arfgengir sjónhimnusjúkdómar og skurðaðgerðir. …
Lífið er annað og meira en arfgengir sjónhimnusjúkdómar og skurðaðgerðir. Sveppatínsla í guðsgrænni náttúrunni. Ljósmynd/Aðsend

Smiðshöggið er svo rekið á þessa heimsókn á Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló með skurðaðgerðinni sem tæpt er á hér að framan og Ragnheiður framkvæmir á um það bil klukkustund, studd aðstoðarfólki og þrívíddarskjánum góða, stórfróðlegt veganesti inn í páskahátíðina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert