Skíðayfturnar á aldrinum 40 - 52 ára

Mynd úr Skálafelli frá því í mars.
Mynd úr Skálafelli frá því í mars. Ljósmynd/Guðmundur Jakobsson

Eins og fram hefur komið er fyrirhugaðar ýmsar framkvæmdir á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins. Eru þær fjármagnaðar af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu til samræmis við íbúafjölda.



Til stendur að ný stólalyfta verði sett upp í Skálafelli árið 2024 eins og fjallað var um fyrr í vetur. Mbl.is tók Guðmundur Jakobsson tali sem starfað hefur í skíðahreyfingunni í áratugi. Guðmundur er einn þeirra sem talað hefur fyrir því að nýta svæðið í Skálafelli meira en gert hefur verið. Hann bendir á að lyfturnar í Skálafelli séu komnar mjög til ára sinna.

„Lyftan mun leysa gömlu lyftuna af hólmi sem tekin var í notkun árið 1982. Hún er því orðin gömul en lyftur sem kallaðar eru 1 og 2 eru enn eldri eða frá því um 1970.  Nýja lyftan mun ná niður að bílaplani. Með henni fylgir að það eiga að koma snjóbyssur í Skálafell [til að framleiða snjó]. Snjóbyssurnar er eitt af því sem þarf til að bæta aðstöðuna í Skálafelli.

Ýmislegt fleira þarf að gera fyrir svæðið. Hægt væri að byrja á því að laga innviðina eins og að slétta brekkurnar og setja upp fleiri snjógirðingar. Girðingarnar stoppa það gríðarlega magn af snjó sem fýkur til á veturna og eru grunnurinn að því að hægt sé að nota Skálafellið meira. Minni snjór er í Skálafelli en í Bláfjöllum því Bláfjöllin eru á meira úrkomusvæði. Til að fanga þann snjó sem þó er fyrir hendi í Skálafelli þá þurfum við að vera með góðar girðingar í þeim skíðaleiðum sem fyrir eru og auka þar með gæðin,“ segir Guðmundur en bendir á fleiri atriði sem kippa þurfi í liðinn.

Skíðasvæðið í Skálafelli.
Skíðasvæðið í Skálafelli. Ljósmynd/Guðmundur Jakobsson



„Nýja lyftan á að koma árið 2024 en vegurinn er ónýtur, afleggjarinn frá Þingvallaveginum og upp að Skálafelli. Einnig þarf að stækka bílaplanið vegna þess að með nýju lyftunni mun fjölga mjög fólki sem vill fara á skíði í Skálafelli. Þessi atriði eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg en það þarf auðvitað að fylgja fjármagn til að hægt sé að fara í þessar framkvæmdir.

Undanfarin ár hefur lítið verið gert fyrir Skálafellið. Það sem ég man eftir er að lýsing var lagfærð og settar voru nokkrar snjógirðingar. Fyrir um tuttugu árum þá tók þáverandi yfirmaður í fjallinu sig til og slétti brekkur við lyftur eitt og tvö. Hann gerði mikið af þessu og þá þurfti minni snjó í brekkurnar. Margar af þessum girðingum eru komnar til ára sinna og setja þarf upp fleiri.”  

Þorir fólk í lyftuna í Skálafelli?

Þekkt er að sjaldnar er opið í Skálafelli en í Bláfjöllum. Til að mynda hefur aðallega verið opið um helgar í Skálafelli. Guðmundur telur að svæðin geti stutt hvort við annað og færir fyrir því rök. Fjölbreytnin muni aukast fyrir skíðafólk á höfuðborgarsvæðinu og dögunum muni fjölga þar sem hægt verður að skíða, vegna þess að aðstæður á þessum tveimur svæðum séu ólíkar með tilliti til veðurs.

„Eins og ég horfi á málið þá gæti verið opið í Skálafelli þegar lokað er í Bláfjöllum vegna veðurs. Austanáttin er svo ríkjandi í janúar og febrúar. Hún er óhagstæð fyrir Bláfjöllin en hagstæð fyrir Skálafellið. Þessi átt er slæm fyrir vind uppi á toppi í Bláfjöllum og keyrslu á lyftum. Ég myndi vilja opna fyrir þann möguleika að hafa opið í Skálafelli í janúar og febrúar en einnig væri gott ef það væri oftar opið á virkum dögum í Skálafelli.

Með því væri hægt að fá fleira fólk á skíði á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit um fjölda fólks sem treystir sér ekki í Bláfjöll vegna þess að oft er mjög fjölmennt á öxlinni. Margir vilja fá langar og þægilegar brekkur, sem eru einmitt fyrir hendi í Skálafelli. Frá toppnum í Skálafelli eru fjórar mögulegar leiðir og þegar nýja lyftan kemur þá skapast möguleikar til að opna svæðið ennþá meira.

Hópur fólks fer á skíði í Skálafelli þegar þar er opið en sést ekki í Bláfjöllum. Meðal annars vegna þess að Skálafellið þjónustar svæði eins og Akranes og Borgarnes fyrir utan það að vera í túnfætinum á Mosfellsbæ.“

Gönguskíðafólk á ferðinni í mars.
Gönguskíðafólk á ferðinni í mars. Ljósmynd/Guðmundur Jakobsson



Guðmundur segist gjarnan vilja ná fleira fólki í brekkurnar hér heima sem fer í skíðaferðir erlendis en nýtir aðstöðuna á Íslandi frekar lítið.

„Sá aldur sem ég myndi vilja sjá meira á skíðum er auðvitað unga fólkið en einnig fólk sem er yfir fimmtugt. Fólk sem skíðar mikið erlendis en sést mjög lítið í brekkunum hérna heima. Ég held að sumt af þessu fólki þori hreinlega ekki að fara í lyftuna í Skálafelli enda er hún úr sér gengin. Í mörgum tilfellum er þetta fólk ekki mjög vant lyftum en langar að fara á skíði. Það treystir sér ekki í fjallið því lyftan er löngu úrelt og er ekki boðleg í dag miðað við það sem er í gangi á öðrum skíðasvæðum.

Íþróttin er orðin mjög stór og getur stækkað enn meira. Fjölgun iðkenda á gönguskíðum hefur verið gríðarlegur og aðstaðan fyrir gönguskíðafólk er frábær í Bláfjöllum. Einnig er hægt að gera góða aðstöðu fyrir gönguskíði í Skálafelli. Þau sem stunda fjallaskíði nota Skálafellið mjög mikið, bæði sunnan- og norðanmegin í fjallinu.“

Óttast að verkið muni tefjast

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í janúar stendur til að setja upp tvær lyftur í Bláfjöllum áður en kemur að lyftunni í Skálafelli. Guðmundur segist sammála þeirri nálgun að setja upp lyfturnar í Bláfjöllum á sama tíma og lyftan í Skálafellinu komi í kjölfarið. En hann óttast að það geti tafist.

„Þegar ég var formaður Skíðaráðs Reykjavíkur fyrir þremur árum síðan var verið að vinna í skipulaginu og félögin fengu að koma að borðinu. Þá var ákveðið að sættast á að það kæmi lyfta í Suðurgili [í Bláfjöllum] til að byrja með og þar á eftir lyftan í Skálafelli. Því næst kæmi önnur lyfta í Bláfjöllum.

Nú er búið að setja báðar lyfturnar  á dagskrá í Bláfjöllum sem mér finnst alveg skiljanlegt. Þær lyftur eru stuttar og allur þessi mannskapur sem kemur að utan nýtist betur í að setja þá upp báðar lyfturnar í Bláfjöllum á sama tíma heldur en að setja upp eina í Bláfjöllum og aðra í Skálafelli. Það væri ekki góð samnýting á mannskap og ég held að þessi forgangsröðun sé því skynsamleg.

Guðmundur Jakobsson í sínu náttúrulega umhverfi.
Guðmundur Jakobsson í sínu náttúrulega umhverfi.



Það er von mín að lyftan í Skálafelli komi árið 2024 en dragist ekki til ársins 2025 sem ég óttast að verði. Ég vil að menn efni þau loforð sem gefin hafa verið en við höfum barist fyrir betri aðstöðu á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins í fimmtán ár eða svo. Vonandi sýna menn kjark og þor og bretta upp ermar fyrir skíðaíþróttirnar,“ sagði Guðmundur Jakobsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka