Trúin speglar mannlega tilveru

r Á vettvangi dagsins hefur þjóðkirkjan beitt sér í málefnum …
r Á vettvangi dagsins hefur þjóðkirkjan beitt sér í málefnum hælisleitenda og í umhverfisvernd, segir sr. Dagur Fannar Magnússon, hér við við altarið í Bræðratungukirkju í Biskupstungum sem hann þjónar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Kirkja og kristinn boðskapur eiga alltaf erindi við líðandi stund. Trúin varðar alla og speglar alla mannlega tilveru. Á vettvangi dagsins hefur Þjóðkirkjan beitt sér í málefnum hælisleitenda og í umhverfisvernd. Kemur þar með alveg skýr skilaboð. Þá má segja að starf prestsins spanni þetta allt: að ganga með fólki í gleði og sorg og allt þar á milli,“ segir séra Dagur Fannar Magnússon, nýr sóknarprestur í Skálholti. Hann var settur inn í starfið um síðustu helgi, á pálmasunnudag og í aðdraganda páska.

Upprisan kjarni kristindóms

„Upprisa Jesú er kjarni kristindómsins. Með upprisunni vöknum til vitundar um núið, um eilífðina og hið æðsta og mesta í þessu lífi og handan þess líka. Guðsríkið er innra með okkur og handan okkar á öllum tímum og utan hans. Alltaf aðgengilegt og innan seilingar,“ segir Dagur Fannar sem vígðist til prests fyrir þremur árum. Fór þá til þjónustu í Heydölum í Breiðdal austur á landi og átti þar, með fjölskyldu sinni, góðan tíma. Fékk mikilvæga reynslu í starfi. Svo fór þó að Suðurlandið kallaði og þegar starf Skálholtsprests var laust sótti okkar maður um og fékk.

„Ég vann hér í Skálholti sumarið 2019 og líkaði vel. Fékk þá sterkari áhuga á staðnum og prestakallinu sem var áður til staðar. Ég er frá Selfossi en sem peyi var ég mikið hjá ömmu minni, Perlu Smáradóttur, sem bjó í Reykholti hér í Biskupstungum. Þá á ég ættir að rekja að bænum Tjörn hér í Tungunum og þar býr skyldfólk mitt í dag. Tengslin við sveitina eru sterk og hingað leitaði hugurinn,“ segir Dagur Fannar.

Tólf kirkjur í átta sóknum

Morgunblaðið tók hús á Degi Fannari á dögunum austur í sveitum. Þau Dagur, Þóra Gréta Pálmarsdóttir kona hans og börnin þrjú búa sem sakir standa á bænum Hvítárbakka. Verða þar uns viðgerðir á prestsbústað í Skálholti eru afstaðnar.

Í hinu víðfeðma Skálholtsprestakalli eru alls tólf kirkjur í átta sóknum. Alls eru sóknabörnin um 1.500 auk þess sem fólk er á sitt annað heimili í sumarhúsabyggðunum í uppsveitum Árnessýslu mætir oft til viðburða og helgihalds. Ætlað er að margir muni til dæmis mæta til athafna nú um páskana en í Skálholtsprestakalli hefur skapast rík hefð fyrir innihaldsríku og miklu helgihaldi. Þar má nefna að nú í vikunni hafa í Skálholti verið Kyrrðardagar, en þar fær fólk tækifæri til þess að draga sig frá áreiti hversdagsins og líta inn á við með inntak páskanna til hliðsjónar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 14. apríl. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert