Volaða land heimsfrumsýnd á Cannes

Stilla úr kvikmyndinni Volaða land.
Stilla úr kvikmyndinni Volaða land. Ljósmynd/Maria von Hausswolff

Kvikmyndin Volaða Land eftir Hlyn Pálmason hefur verið valin til þátttöku í keppnisflokknum Un Certain Regard í aðaldagskrá alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Cannes og verður heimsfrumsýnd á hátíðinni, sem fer fram dagana 17.-28. maí.

Elliot Crosset og Ingvar Eggert í aðalhlutverki

Myndin gerist undir lok 19. aldar og fjallar um ungan, danskan prest sem ferðast til Íslands með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar á för sinni. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn smám saman tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Með aðalhlutverk fara þeir Elliott Crosset Hove og Ingvar E. Sigurðsson, og í stærstu aukahlutverkum eru þau Hilmar Guðjónsson, Jacob Hauberg Lohmann, Vic Carmen Sonne, og Ída Mekkín Hlynsdóttir. Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sá um klippingu myndarinnar. Frosti Friðriksson var leikmyndahönnuður myndar, Alex Zhang Hungtai samdi tónlistina, og Björn Viktorsson sá um hljóðhönnun ásamt Kristian Eidnes Andersen.

Hlynur Pálmasson, leikstjóri og handritshöfundur, og leikkonan Vic Carmen Sonne …
Hlynur Pálmasson, leikstjóri og handritshöfundur, og leikkonan Vic Carmen Sonne við tökur á kvikmyndinni Volaða land. Ljósmynd/Anton Máni Svansson

Sem fyrr sagði leikstýrði Hlynur Pálmason myndinni og skrifaði handritið að henni en fyrri verk hans hafa verið heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðunum í Berlín, Cannes, Locarno og Toronto, og unnið til fjölda verðlauna víðsvegar um heiminn.

Volaða land er framleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Join Motion Pictures og hinu danska framleiðslufyrirtæki Snowglobe. Framleiðendur eru Anton Máni Svansson, Katrin Pors, Eva Jakobsen, og Mikkel Jersin. Meðframleiðendur eru Didar Domehri frá Maneki Films í Frakklandi, Anthony Muir og Peter Possne frá Film I Väst í Svíþjóð, Mimmi Spång frá Garagefilm í Svíþjóð, og Guðmundur Arnar Guðmundsson frá Join Motion Pictures, Íslandi.

Valin úr þúsundum kvikmynda hvaðæna að 

Mikill heiður er fólginn í því að fá kvikmynd sýnda á Cannes enda um að ræða eina af þremur stærstu og virtustu kvikmyndahátíðum heims, að sögn Antons Mána Svanssonar, sem er einn af framleiðendum myndarinnar.

Við gætum ekki verið spenntari og stoltari yfir árangrinum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Spurður út í það hvernig kvikmyndir komast á hátíðir af þessu tagi segir Anton það vera einfalt. 

„Það er bara sótt um. Það eru nokkur þúsundir mynda sem sækja um hvaðæna að úr heiminum. Svo er dómnefnd sem fyrir allar umsóknir og velur bestu myndirnar.“

Hlynur Pálmason og Anton Máni Svansson með „barnið“ þeirra, hluta …
Hlynur Pálmason og Anton Máni Svansson með „barnið“ þeirra, hluta af 35mm filmurúllunum sem kvikmyndin Volaða land var skotin á. Ljósmynd/Maria von Hausswolff

Hlynur og Anton hafa unnið saman við kvikmyndagerð síðan árið 2013 og er Volaða land önnur kvikmynd þeirra félaga sem fer á kvikmyndahátíðina í Cannes, að sögn Antons.

„Við fórum fyrst á hátíðina með mynd Hlyns, Hvítur, hvítur dagur, árið 2019, þar sem hún keppti í Critic's Week og í ár förum við með Volaða land. Þannig þetta er búið að vera mjög ánægjulegt, gefandi og skemmtilegt ferðalag,“ segir Anton.

„Það er í raun alveg magnað hversu heppinn maður er búinn að vera. Því þótt allt teymið leggi rosalega hart að sér til að gera gott verk þá snýst þetta líka um heppni, þ.e. að ná inn þegar valið er um svona fáar myndir úr þúsundum mynda,“ bætir hann við.

Allar nánari upplýsingar um Volaða land má á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert