Fuglaflensa hefur verið staðfest í þremur villtum fuglum á landinu sem fundist hafa undarfarna daga. Um er að ræða heiðagæs við Hornafjörð, hrafn á Skeiðum í Árnessýslu og súlu rétt við Strandakirkju við Suðurstandaveg.
Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar.
Þar segir einnig, að heimilishænsni á bóndabæ á Skeiðum, þar sem hrafninn fannst, hafi jafnframt sýnt sjúkdómseinkenni og voru fuglarnir allir aflífaðir í dag.
„Sýni hafa verið tekin úr hænsnunum og er beðið niðurstöðu rannsóknar. Fuglaflensuveiran sem staðfest hefur verið í villtum fuglum er af gerðinni H5. Meinvirkni veirunnar er ekki þekkt. Beðið er niðurstaðna frekari greiningar frá erlendum rannsóknarstofum.
Viðbragðsáætlun Matvælastofnunar um viðbrögð og varnir gegn smitandi sjúkdómum í fuglum hefur verið virkjuð,“ segir í tilkynningu.