Hvorki flugöryggi né rekstraröryggi stefnt í hættu

Stórar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á svæði Nýja Skerjafjarðar.
Stórar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á svæði Nýja Skerjafjarðar. mbl.is/Árni Sæberg

Ljóst er að hvorki flugöryggi né rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar eigi að vera stefnt í hættu samhliða uppbyggingu á svæði Nýja Skerjafarðar eða sökum verkþátta á framkvæmdatíma uppbyggingarinnar.

Þetta segir í skriflegu svari Reykjavíkurborgar við bréfi innviðaráðuneytisins þar sem óskað er upplýsinga frá borginni um fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu og með hvaða hætti borgin hyggst tryggja að þær hafi hvorki áhrif á flugöryggi né rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Hefur haft eðlilegt og gott samráð við Isavia

Í bréfi innviðaráðuneytisins til borgarinnar segir að tilefni þess sé minnisblað Isavia ohf. þar sem því er haldið fram að fyrirhuguð uppbygging í Nýja Skerjafirði muni hafa áhrif á flugöryggi Reykjavíkurflugvallar.

Reykjavíkurborg telur sig hafa haft eðlilegt og gott samráð við Isavia við gerð skipulagsáætlana í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Þannig hafi Reykjavíkurborg tryggt að skipulag samrýmist lögum og reglugerðum m.a. um loftferðir og flugvelli og einnig þeim samningum sem liggja fyrir á milli íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar vegna flugvallarins.

Forsögn fyrir rammaskipulag var send Isavia til umsagnar þegar hún var unnin og fundað var með fulltrúum Isavia ofh. vegna skipulagsvinnunnar f. Nýja Skerjafjörð. Drög að vindfarsskýrslu voru sömuleiðis send Isavia ohf. til yfirferðar og af hálfu umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar var brugðist við þeim athugasemdum sem fram komu frá félaginu með viðeigandi hætti.

Byggðin gæti haft „smávægileg“ áhrif á aðflug að flugbrautum 01 …
Byggðin gæti haft „smávægileg“ áhrif á aðflug að flugbrautum 01 og 31. mbl.is/Árni Sæberg

Hættan á vindhraðabreytingum „viðráðanleg“

Rannsókn á vegum EFLU á vindáhrifum/áhrifum byggðar á vind fór fram samhliða vinnu við gerð deiluskipulagstillögunnar árið 2020 fyrir Nýja Skerjafjörð. Isavia sá hins vegar ástæðu til að láta fara fram aðra óháða rannsókn og leitaði til hollensku loft- og geimferðastofnunarinnar, Royal Netherlands Aerospace Centre (NLR), varðandi greiningu á áhrifum nýrrar byggðar á aðstæður við flugvöllinn.

Samkvæmt minnisblaði Isavia eru niðurstöður rannsóknar NLR samhljóða niðurstöðum EFLU. Í tilvitnuðu minnisblaði kemur meðal annars eftirfarandi fram:

„Niðurstaða NLR er að hægt sé að grípa til ráðstafana til að minnka líkur á alvarlegu atviki í þessum aðstæðum. Framkvæma þarf áhættumat og koma upp ferlum og stýringu til að takast á við þessar aðstæður, og það verklag þarf að ná yfir allar stærðir flugvéla.“

Á hinn bóginn er niðurstaðan sú að áhættan sé „viðráðanleg“ og ætti ekki að koma í veg fyrir uppbygginguna í Nýja Skerjafirði, að því er segir í lokaorðum skýrslu um rannsókn NLR.

Í niðurstöðukafla sömu skýrslu kemur einnig fram að byggðin geti haft áhrif á aðflug að flugbrautum 01 og 31, að vindhraðabreytingar við aðflug séu metnar „smávægilegar“ og „ásættanlegar“ og að ókyrrðarstig geti aukist en ekki að því marki að það teljist skaðlegt. Þó er bent á að í tilteknum mjög sterkum vestlægum vindi geti ókyrrð yfir viðmiðunarmörkum skapast á flugbraut 31.

Við uppbyggingu Nýja Skerjafjarðar verður leitast við að lágmarka rask …
Við uppbyggingu Nýja Skerjafjarðar verður leitast við að lágmarka rask og ónæði á framkvæmdatíma. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Mun leitast við að lágmarka rask og ónæði

Í minnisblaði Isavia til innviðaráðuneytisins er lýst áhyggjum af áhrifum starfsemi stórvirkra vinnuvéla á framkvæmdasvæðinu og að þungaflutningar milli Einarsness flugbrautar 13-31 muni hafa áhrif á öryggi loftfara. Hætta sé á foki jarðefna og smáhluta inn á flugbrautina. Einnig er nefnt að notkun byggingarkrana nærri öryggissvæði flugvallarins muni að auki hafa takmarkandi áhrif á rekstur hans.

Í svari Reykjavíkurborgar við bréfinu segir að borgin muni tryggja að mannvirki, tæki og tól skeri ekki hindrunarflöt flugbrauta og aðflugs og að leitast verði við að lágmarka rask og ónæði á framkvæmdatíma.

„Með vísan til þess sem hér greinir að framan telur Reykjavíkurborg ljóst að hvorki flugöryggi né rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar eigi að vera stefnt í hættu samhliða uppbyggingu á svæði Nýja Skerjafjarðar eða sökum verkþátta á framkvæmdatíma uppbyggingarinnar.

Við gerð þeirrar tillögu að breytingu á deiluskipulagi fyrir Nýja Skerjafjörð sem nú er í lögbundnu ferli, mun Reykjavíkurborg sem endranær hafa samráð við Isavia ohf. og aðra hagsmunaaðila,“ segir í svarinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert