Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, var ómyrk í máli í ávarpi sínu, sem og samtali við mbl.is, við mótmælin sem haldin voru á Austurvelli í dag vegna söluferlis hluts íslenska ríkisins í Íslandsbanka.
„Mér finnst það liggja í augun uppi að þetta er eitthvað sem öll ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Þau geta ekki firrað sig ábyrgð, sérstaklega í ljósi þess að Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi virðast standa við bakið á Bjarna Benediktssyni,“ sagði Halldóra í samtali við mbl.is.
Í byrjun vikunnar var greint frá því að Lilja Alfreðsdóttir hygðist ekki svara spurningum fjölmiðla um páskana. Spurð hvort henni þyki það ásættanlegt segir Halldóra:
„Nei, að sjálfsögðu er það ekki ásættanlegt.“
Aðspurð sagðist hún óttast að ríkisstjórnin reyni að sitja þetta af sér og þagga málið niður. Það liggi í augum uppi, þar sem ríkisstjórnin vilji ekki kalla til rannsóknarnefndar Alþingis um málið.
Ástæðuna segir hún tvíþætta.
„Stjórnarliðar vilja ekki skipa rannsóknarnefnd vegna þess að þau vita hvaða afleiðingar það hefur í för með sér,“ sagði hún í ávarpinu.
Í fyrsta lagi muni rannsóknarnefndin rannsaka ábyrgð Bjarna Benediktssonar sem sé umtalsverð.
„Í öðru lagi, vita þau að það gengur ekki að hafa fjármálaráðherra starfandi sem er með heila rannsóknarnefnd á hælunum á sér.“
Því þurfi fjármálaráðherra að víkja.
„Það er hans egó, hans valdastaða sem stendur í vegi fyrir því að það fari fram alvöru rannsókn á þessari botnlausu spillingu sem blasir við okkur.“
„Sagan um einkavæðingu Íslandsbanka er saga íslenskra stjórnmála,“ sagði Halldóra Mogensen í ræðu sinni á mótmælunum.
„Saga af fúski, frændhygli, meðvirkni og fullkomnu ábyrgðarleysi.“
Halldóra sagði það hafa komið fáum á óvart hvernig komið var að sölunni. „Við fylgjumst með sögunni endurtaka sig aftur og aftur. Sögunni um ginnkeypt, gráðug stjórnvöld sem seldu þjóðareign í hendur loddara og þjófa, og spáðu ekkert of mikið í hver væri þar á bak við eða hvort allt væri með felldu.“
Þá sé óboðlegt að fjármálaráðherra óski eftir rannsókn á sínum eigin embættisverkum sjálfur.
„Þess vegna verðum við að þrýsta á ríkisstjórnina og stjórnarþingmenn að setja á fót rannsóknarnefnd Alþingis.“
Rannsóknarnefndin hafi verkfæri til þess að rannsaka þetta mál í kjölinn, verkfæri sem ríkisendurskoðandi hafi einfaldlega ekki.
„Ef við tökum bara dæmið um ráðgjafafyrirtækin sem seldu sjálfum sér bréf til að braska með þá getur ríkisendurskoðandi ekki neytt þessa braskara í skýrslutöku. En rannsóknarnefndin getur það.“