Starfsmönnum hent út af innri vef

Starfsmenn skrifstofu Eflingar komast ekki inn á innri vef félagsins.
Starfsmenn skrifstofu Eflingar komast ekki inn á innri vef félagsins. mbl.is

Starfsmenn Eflingar vöknuðu upp við það í morgun að þeir kæmust ekki lengur inn á innri vef skrifstofu félagsins, þar sem tilkynningar berast og þeir geta átt í samskiptum við hvern annan og yfirmenn sína.

Frá þessu greinir Inga Þóra Haraldsdóttir, fráfarandi gæða- og skjalastjóri Eflingar í tísti.

Ekki verið upplýst um ástæðu lokunarinnar

Þetta hafi komið starfsmönnum skrifstofunnar á óvart enda hafi enginn látið þá vita fyrirfram um að þeir kæmust ekki inn á innri vefinn, að sögn Ingu Þóru.

„Það hafa ekki borist neinar tilkynningar um af hverju þetta var gert,“ segir hún í samtali við mbl.is. 

Verandi gæða- og skjalastjóri segir Inga það koma sér afar illa að geta ekki notað innri vefinn í starfi sínu.

„Starfsfólk var að nota þetta í gær til að hafa samband við yfirmenn sína og haga vinnu sinni þannig þetta er bara mjög heftandi upp á upplýsingaflæði að gera.“

Spurð segist hún ekki vita hver tilgangurinn er með því að loka starfsmenn skrifstofunnar úti af vefnum á þennan hátt en að hún voni að stjórn Eflingar muni svara því.

„Það er á þeirra ábyrgð að gera það.“

Hamlar starfi skrifstofustarfsfólks mikið

Gabríel Benjamín, trúnaðarmaður VR innan Eflingar, segist ekki hafa kannað það hvort hann komist inn á vefinn sjálfur, inntur eftir því. Hann hafi þó fengið það staðfest að innri vefurinn væri lokaður frá öðrum starfsmönnum skrifstofunnar sem höfðu reynt að komast inn á hann.

„Þetta hamlar starfi okkar mikið og sérstaklega þá óformlegum samskiptum.“

Rétt eins og Inga kveðst Gabríel ekki hafa fengið neinar skýringar á því hvers vegna vefnum var lokað fyrir starfsfólki.

„Stjórn hefur ekkert haft samband við mig í gegnum þetta ferli. Ég hef bara heyrt frá lögmanni stjórnar. Það eru engar opnar boðleiðir til að koma svona skilaboðum áfram og það er ekki búið að hafa neitt samráð um hvað skal gerast en við starfsfólkið munum bara þurfa að ræða þetta saman á þriðjudagsmorgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert