„Þessi leið kom á óvart“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Stjórn félagsins hvatti til þess …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Stjórn félagsins hvatti til þess að Lífeyrissjóður verzlunarmanna sniðgengi hlutafjárútboð Icelandair vegna framgöngu félagsins í kjaradeilunni við flugfreyjur. Haraldur Jónasson/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir hópuppsögn Eflingar hafa komið sér á óvart miðað við allt sem á undan hefur gengið hjá stéttarfélaginu.

Boðað hefur verið til aukafundar í stjórn VR á morgun til að ræða málið en um tíu starfsmenn skrifstofu Eflingar eru félagar í VR.

Átti von á breytingum en ekki þessu

„Miðað við allt sem á undan hefur gengið, allar þær deilur og þau átök sem hafa átt sér stað á vettvangi skrifstofu Eflingar og innan félagsins, og það uppgjör sem átti sér svo stað í nýafstöðnum kosningum, með sigri Sólveigar og hennar lista, þá átti maður svo sannarlega von á einhverjum breytingum og aðgerðum en ég verð að viðurkenna það að þessi leið kom á óvart,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

Hann segir VR hafa brugðist við málinu með því að taka strax á móti þeim sínum félagsmönnum sem starfa hjá Eflingu og veita þeim stuðning, sálgæslu og lögfræðiþjónustu.

„Það var það sem við gerðum strax í upphafi og lögðum alla áherslu á það í staðinn fyrir að vera með einhverjar yfirlýsingar opinberlega. Það er það sem við höfum verið að einbeita okkur að.“

Þá kveðst hann einnig hafa fundað með trúnaðarmönnum VR sem og trúnaðarmönnum annarra starfsmanna Eflingar sem ekki eru félagsmenn VR.

„Þannig þeir fengu líka þjónustu hjá okkur, án endurgjalds að sjálfsögðu.“

„Það er búið að kasta mörgum steinum“

Þykir þér réttlætanlegt hvernig staðið hefur verið að þessu máli?

„Ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið með stórar yfirlýsingar í málinu er fyrst og fremst sú að við eigum lögvarða hagsmuni í því og erum fyrst og fremst að sinna réttargæslu og þjónustu við þá félagsmenn okkar sem þarna störfuðu.

Við höfum kosið það í stjórn VR að hlutast ekki til um þessi átök sem hafa átt sér stað inni á skrifstofu Eflingar heldur einblína frekar á okkar eigin félag og þeim fjölmörgum verkefnum sem framundan eru hjá því.“

Spurður hvað honum finnist um stjórnarhætti Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og hvort hann beri traust til hennar í ljósi nýliðinna atburða, segist Ragnar ekki vilja blanda sér í deilur og átök innan annarra félaga.

„Það er búið að kasta mörgum steinum í allar áttir og ég einbeiti mér bara fyrst og fremst að því hvað okkar félag er að gera og þeirri grundvallarskyldu sem við höfum að gegna gagnvart okkra eigin félagsmönnum.“

Kveðst hann þó óska þess að verkalýðshreyfingin komist sameinuð út úr þessu öllu saman fyrir næstu kjarasamningaviðræður.

„Það er það mikilvægasta af öllu. Ég á þess enga ósk heitari heldur en að verkalýðshreyfingin í heild sinni komi standandi út úr þessu, ekki veitir af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert