Alltaf heillast af kvikmyndabransanum

Inga Weisshappel er að líkindum fyrsta manneskjan sem starfar sem …
Inga Weisshappel er að líkindum fyrsta manneskjan sem starfar sem music supervisor á Ísland. Hún starfar fyrir Wise Music Group. mbl.is/Árni Sæberg

Tónlist í kvikmyndum er orðin mun veigameiri en áður og snýst um meira en bara að semja tónlistina. Það er margt annað sem þarf að hugsa um,“ segir Inga Magnes Weisshappel sem nýlega var ráðin „music supervisor“ hjá alþjóðlega fyrirtækinu Wise Music Group. Starfið felst í því að hafa yfirsýn yfir tónlistina í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum eða auglýsingum. Störf sem þetta hafa lengi verið hluti af bransanum í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar en Inga er að öllum líkindum fyrsti starfandi „music supervisor“ á Íslandi. Hún segir að það sé stórt skref fyrir íslenskt tónlistarlíf og gæti hjálpað til við að koma íslensku tónlistarfólki enn betur á framfæri á alþjóðlegum kvikmyndamarkaði.

Vann við gerð Kötlu

Inga er 29 ára og útskrifaðist sem tónskáld úr Listaháskóla Íslands fyrir fjórum árum. „Ég er með smá bakgrunn í myndlist og hef ástríðu fyrir því að sameina tónlist og mynd. Ég hef alltaf heillast af kvikmyndabransanum sem getur sameinað mörg listform í eitt. Það er því alger draumur að geta starfað með ólíkum listamönnum við kvikmyndagerð,“ segir hún.

Frá útskrift hefur Inga starfað mikið sem „music editor“ við ýmis kvikmyndaverkefni. Meðal verkefna eru Katla og Netflix-myndin Against the Ice. „Í þessu starfi hef ég verið einskonar milliliður milli tónskálds og leikstjóra. Ég tek til að mynda tónlist sem tónskáldið hefur samið og stilli henni upp, vel músík fyrir senur og sýni leikstjóra. Þetta er alls konar handavinna og fyrir vikið fær tónskáldið meiri frið til að semja tónlistina.“

Stór verkefni sem bíða

Inga tók við starfinu hjá Wise Music fyrr á þessu ári. „Ég þurfti aðeins að hugsa mig um og átta mig á því hvort Ísland væri tilbúið fyrir starf sem þetta, hvort hér væri nóg af verkefnum. Eftir að hafa talað við fólk í bransanum komst ég að því að svo væri. Verkefnin hér eru orðin svo stór og fram til þessa hefur enginn verið að halda utan um kvikmyndatónlist á Íslandi, hvorki fyrir framleiðendur né tónskáldin.“

Hún segir að verkefni séu þegar farin að hrúgast inn. „Ég hef eiginlega verið að drukkna í fundum síðan ég byrjaði fyrir tveimur mánuðum. Það eru þegar komin tvö kvikmyndaverkefni og fleiri eru að raðast upp. Það virðast allir vera fegnir því að loksins sé einhver með tónlistarþekkingu kominn til Íslands til að halda utan um þessi mál.“

Rennir ekki blint í sjóinn

Wise Music er alþjóðlegt fyrirtæki sem m.a. sérhæfir sig í útgáfu kvikmyndatónlistar. Inga segir að tónskáldið Ólafur Arnalds sé þar á mála og sama gilti um Jóhann Jóhannsson heitinn. Starf „music supervisors“ hefur löngum þótt sjálfsagt á stærri mörkuðum og hefur síðustu ár verið að þróast í nágrannalöndunum. Inga verður í raun sjálfstætt starfandi á Íslandi en vinnur í samstarfi við skrifstofu Wise Music í Kaupmannahöfn. „Það er mikil reynsla á þessu sviði þar. Fólkið í Kaupmannahöfn hefur farið í gegnum þetta allt, að byrja svona starfsemi og leyfa henni að þróast. Þau þekkja af eigin reynslu hvað það hefur gagnast kvikmyndaframleiðslu að þessi staða varð til. Fyrir vikið þarf ég ekki að renna blint í sjóinn hér, fara íslensku leiðina og gera allt sjálf.“

Starfið mjög fjölbreytt

Starf Ingu getur verið misjafnt eftir verkefnum en felur það alla jafna í sér að hafa yfirsýn yfir tónlistina í hverju verkefni. Stundum þarf bara að gera samning um notkun á tónlist sem hefur áður verið gefin út en stundum þarf einnig að velja þá tónlist. „Svo er það líka að velja tónskáld, sitja með leikstjóra og framleiðendum og hjálpa þeim að túlka sína sýn og hvað þeir vilja fá út úr tónlistinni. Eftir það get ég þurft að sjá um verkefnastjórn, skil á efni og alls kyns samskipti.“

Ung tónskáld fái tækifæri

Inga segir að reynsla sín af því að vera milliliður milli tónskálds og leikstjóra nýtist vel í nýja starfinu. „Ég kann bisness-hliðina, hvernig þetta virkar allt saman. Ég hef hitt margt hæfileikafólk síðustu ár sem veit ekki hvað það á að gera til að koma sér á framfæri. Ég sé fyrir mér að ég geti hjálpað til við að gefa upprennandi tónskáldum tækifæri til að sanna sig og opna fyrir þau dyrnar. Framleiðendur eru kannski líklegri til að hleypa nýju fólki að ef ég stend að baki því og styð við það. Ég held að þetta geti því gagnast bæði framleiðendum og tónskáldum.“

Fyrirtæki horfa til Íslands

Mikil gróska hefur verið í kvikmyndabransanum á Íslandi síðustu ár. Fjöldi stórra sjónvarpsþáttaraða hefur verið framleiddur hér og ekkert lát virðist vera á gerð leikinna kvikmynda. „Ég er ekki viss um að það hefði verið grundvöllur fyrir þessari stöðu fyrir tíu árum. Eftir að Hildur Guðna vann óskarinn hafa íslensk tónskáld vakið meiri athygli og erlend framleiðslufyrirtæki eru farin að horfa hingað af þeim sökum. Nú er allt í kringum tónlistarframleiðsluna í kvikmyndagerð að verða mun stærri pakki en áður og það er ekki að hægt að setja allt sem að henni snýr á hendur tónskáldanna. Þau hjá Wise Music urðu einmitt vör við skort á fagmannlegri yfirsýn kvikmyndatónlistar á Íslandi, þ.e. „music supervision“. Núna er ég ein á skrifstofu en þeirra langtíma hugmynd er að skrifstofan muni stækka. Þau eru líka ánægð með þá athygli sem ég fengið í bransanum eftir að ég var ráðin. Þau eru eiginlega í skýjunum yfir því hvað ég hef farið á marga mikilvæga fundi og hvað margir eru áhugasamir um þessa stöðu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert