Það er búið að byggja lítinn virkisvegg úr pullum í stofunni hjá Hönnu og Arnari því það þarf að hafa auga með þremur litlum krílum, nýorðnum eins árs. Blaðamaður er mættur til Keflavíkur til að heyra sögu þessarar fjölskyldu sem stækkaði heldur betur hinn 1. apríl 2021 þegar þríburarnir fæddust, þeir fyrstu á Íslandi þá í fjögur ár. Þorri, Bjartur og Írena horfa forvitin á gestinn sem klofar yfir „vegginn“ með stóra myndavél um hálsinn. Bjartur og Írena skríða um gólf á meðan Þorri gengur um, örlítið valtur enda nýfarinn að labba. Bjartur, sem er með sætar krullur, reynir að teygja sig í áttina að myndavélinni og Írena horfir stórum bláum augum á aðfarirnar. Krúttskalinn þarna er við það að springa.
Parið kynntist fyrir ellefu árum í partíi á Ásbrú og ástin greip þau föstum tökum, þá ekki orðin tvítug. Hanna hefur starfað sem kennari í heimabæ sínum Keflavík og Arnar er sérfræðingur hjá Isavia. Þau vildu gjarnan eignast barn en það kom ekki eftir pöntun.
„Það tók mjög langan tíma að eignast Ingiberg en við höfðum reynt í sex ár,“ segir Hanna, en þegar þau voru næstum búin að gefa upp alla von varð hún ólétt að Ingiberg litla, sem verður þriggja ára í sumar. Þegar hann var um eins árs ákváðu þau að bæta við einu barni og gefa drengnum lítið systkini, en miðað við fyrri reynslu vissu þau ekki hvað það myndi taka langan tíma.
Almættið hafði stór plön fyrir litlu fjölskylduna því Hanna varð ólétt innan tveggja mánaða og komst að því fljótt að ekki var aðeins von á einu barni.
„Okkur grunaði strax að ég gæti verið með tvíbura því það er mikið um tvíbura í ættinni. Systkini mín eru tvíburar, en ég er fimm árum eldri en þau,“ segir Hanna.
„Ég fór svo í snemmsónar þegar ég var komin sex vikur á leið og þá sást strax að það voru þrjú,“ segir Hanna og Arnar hlær að minningunni.
„Við vorum búin að vera að grínast með tvíburana okkar en það var þannig að þegar Hanna tók óléttupróf mjög snemma á meðgöngu kom um leið svört lína. Þá vorum við viss um að þau væru tvö,“ segir hann.
Getið þið lýst þessu augnabliki þegar læknirinn segir ykkur að það séu þrjú?
„Ég fór bara að gráta en Arnar fór að hlæja,“ segir Hanna.
„Já, við tókum sjokkið hvort í sína áttina,“ segir Arnar.
„Ég sá strax tvo sekki og spyr hvort það séu tvíburar á leiðinni. Læknirinn fer að skoða þetta betur og svarar: „Nei, það eru þríburar!“ Hann var eiginlega í sjokki sjálfur,“ segir Hanna.
Fréttirnar voru að vonum yfirþyrmandi og Hanna segist strax hafa farið að hugsa um framtíðina.
„Við vorum nýbúin að kaupa okkur litla íbúð og lítinn fjölskyldubíl og bjuggumst við einu barni í viðbót og höfðum hugsað okkur að þau yrðu saman í einu herbergi. Ég hugsaði að við þyrftum nýja íbúð og nýjan bíl,“ segir Hanna og Arnar tekur undir það.
„Það fóru þúsund hugsanir af stað,“ segir hann.
„Við fórum svo út í bíl og sátum þar í svona klukkutíma og ég þurfti að anda mig í gegnum þetta,“ segir Hanna.
Hvað tók það langan tíma að melta það að það væru þrjú börn á leiðinni?
„Ég held að við séum ekki ennþá búin að ná því,“ segir hún og Arnar skellihlær.
„Á meðgöngunni sátum við oft saman í sófanum á kvöldin og sprungum svo allt í einu úr hlátri yfir því að það væru í alvöru þríburar á leiðinni,“ segir hún.
„Foreldrar Hönnu brugðust svipað við, nema öfugt. Mamma hennar fór að skellihlæja en pabbi hennar stóð bara undrandi með tárin í augunum,“ segir Arnar.
Meðgangan gekk vel að sögn Hönnu en þó fékk hún mikla grindargliðnun, bakflæði og meðgöngusykursýki.
„Ég fann ekki fyrir sykursýkinni því ég náði að halda henni niðri,“ segir Hanna og Arnar bætir við að síðustu þrjá mánuði fyrir fæðingu hafi þau búið hjá foreldrum Hönnu því þau voru að bíða eftir að flytja í hús sitt. Foreldrar Hönnu, Guðný Sigríður Magnúsdóttir og Hilmar Theodór Björgvinsson, hafa verið þeim stoð og stytta í gegnum allt.
„Við ætluðum fyrst að vera í litlu íbúðinni en sáum að það myndi aldrei ganga,“ segir Hanna og segir 80 fermetra íbúð ekki hefðu dugað undir sex manna fjölskyldu.
„Við fluttum inn í húsið fjórum dögum fyrir fæðingu þeirra. Við erum eiginlega enn að koma okkur fyrir því við höfum ekki haft tíma eftir að þau fæddust,“ segir Hanna og Arnar bætir við að þau hafi þurft að drífa í húsakaupum því um leið og börnin væru fædd hefðu þau aldrei getað keypt húsið.
„Með fjögur börn á framfærslu hefðum við aldrei komist í gegnum greiðslumatið.“
Nú fæddust þau 1. apríl, var það ákveðið fyrir fram?
„Nei, það var bara aprílgabb, ég fékk smá verki og við drifum okkur niður á Landspítala,“ segir Hanna sem þá var komin 33 vikur og einn dag.
„Það telst mjög gott fyrir þríburameðgöngu, öllu yfir þrjátíu vikur ber að fagna,“ segir Arnar og þau segja bæði að þau hafi aldrei efast um að allt myndi ganga vel.
„Ég var rosa slök; ég hafði alltaf á tilfinningunni að þetta færi allt vel,“ segir Hanna og lýsir aðdragandanum.
„Ég fann smá verki, eins og túrverki, og segi Arnari frá því. Hann vildi að við drifum okkur á Landspítalann því okkur hafði verið sagt að koma þótt sársaukinn væri ekki mikill. Við ákváðum þá bara að kíkja og á Reykjanesbrautinni fann ég ekkert, en við komuna mældust hríðar. Ég fékk stera og reynt var að stoppa fæðinguna eða halda hríðum niðri á meðan sterarnir væru að virka, en þeir hjálpa lungum barnanna,“ segir Hanna.
„Þau voru svo tekin með keisara en það er alltaf gert með þríbura,“ segir Hanna og Arnar fékk að fylgjast með þrátt fyrir strangar reglur vegna faraldursins.
„Bjartur var 1.916 grömm, Írena 2.200 grömm og Þorri var 2.310 grömm,“ segir Hanna.
„Þau voru samt svo pínulítil! Ég á mynd af mér þar sem ég held á þeim öllum í einu og þau rétt passa yfir bringuna á mér,“ segir Arnar og segir að eftir nokkra daga hafi þau losnað við slöngur sem hjálpuðu þeim að anda. Börnin þrjú og foreldrarnir voru mánuð á vökudeild.
Spurð um týpískan dag svarar Hanna:
„Við vöknum um sexleytið, ég og þríburarnir, og Ingibergur skríður fram úr um sjö og þá er ég yfirleitt búin að skipta á bleium og gefa pela. Au-pair-stúlkan vaknar um sjö og ég kem Ingibergi á leikskólann og hún gefur hinum að borða á meðan. Núna taka þau bara einn lúr á dag þannig að við erum eitthvað að dúlla okkur, förum út eða erum inni að leika til hádegis. Þau borða svo hádegismat og fara svo út að sofa í vagni um tólf,“ segir hún og segir eftirmiðdaginn fara í leik, að sækja á leikskóla og undirbúa svo kvöldmat.
„Svo er það bað og peli og öll kvöldrútínan,“ segir hún og segir þau setja þríburana í rúmið jafnvel fyrir sjö á kvöldin.
„Við gerum það viljandi svo eldri strákurinn fái smá tíma einn með okkur en hann sofnar ekki fyrr en átta, hálfníu,“ segir Arnar.
Þannig að það er allt dottið í dúnalogn um átta og þið getið farið að spjalla saman?
„Já, eða varla. Við höfum ekki orku í það,“ segir Hanna og þau hlæja bæði.
Hvað farið þið með margar bleiur á dag?
„Allt frá sautján og upp úr. Um daginn var ég búin að skipta á átján kúkableium fyrir hádegi,“ segir hún og þau hlæja bæði.
„Bleiumagnið var það mikið að við þurftum að panta aukaruslatunnur, bæði svarta og græna,“ segir Arnar.
Írena, Bjartur og Þorri vaxa og dafna vel. Það fer að líða að því að öll verði farin að hlaupa um húsið, sem skapar nýjar áskoranir fyrir foreldrana. Þau kvíða ekki framtíðinni.
„Ég myndi ekki vilja hafa þetta neitt öðruvísi. Þetta tekur mikið á mann en gefur tvöfalt til baka. Þegar við erum fimmtug erum við búin með uppeldið og getum farið að vera á Flórída tvo mánuði á ári að leika okkur,“ segir Arnar og Hanna er ánægð með það plan.
„Við tókum bara fjögur börn á 21 mánuði. Þau verða ekki fleiri. Það er miklu meira en komið gott,“ segir Hanna og brosir.
Nýlega fengu foreldrarnir kærkomið frí og skelltu sér í helgarfrí til London. Foreldrar Hönnu tóku að sér börnin á meðan. Spurð hvort helgin hafi ekki verið dásamleg svarar Hanna:
„Ég fékk loksins að sofa,“ segir hún og hlær dátt.
Þau segjast stundum láta sig dagdreyma um framtíðina þegar krakkarnir verða eldri og meira sjálfbjarga en yfirleitt hafi þau nóg að gera að láta hverjum degi nægja sína þjáningu.
Eru þið einhvern tímann alveg að bugast?
„Já, það koma svoleiðis augnablik. Sérstaklega núna síðustu tvo mánuði þegar veturinn var svona þungur en nú er að birta til og það léttir yfir manni og öllum.“
Ítarlegt viðtal er við Hönnu og Arnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðins um helgina.