Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS barnaþorpa á Íslandi, fór í janúar síðastliðnum til Malaví ásamt Rúrik Gíslasyni fyrrum knattspyrnumanni og Jóhannesi Ásbjörnssyni viðskiptamanni. Þremenningarnir heimsóttu barnaþorp SOS í landinu, þar sem bæði Rúrik og Jóhannes fengu að hitta börn sem þeir hafa styrkt með fjárgjöfum undanfarin ár.
Með á ferðalaginu var kvikmyndamaður sem myndaði ferðalagið og var afraksturinn sýndur á Sjónvarpi Símans á fimmtudag.
Í samtali við mbl.is segir Hans að hugmyndin að ferðinni hafi kviknað á síðasta ári, en fresta þurfti ferðinni þrisvar vegna kórónuveirufaraldursins.
„Við hjá góðgerðasamtökum erum alltaf að finna leiðir til að vekja athygli á starfi samtakanna og það hefur virkað best að segja sögur af bæði börnunum og styrktarforeldrum. Svona heimsóknir færa Íslendinga nær starfsseminni – þegar við náum að sýna starfssemina í máli og myndum.
„Við höfum í okkar starfi verið að segja sögur af börnunum. Það eru mörg börn sem hafa alist upp í SOS barnaþorpum sem eru kannski orðin forstjórar, kennarar eða læknar í dag af því að þau fá þessi tækifæri. Þau finnast kannski munaðarlaus einhversstaðar og fá þá heimili og tækifæri í SOS barnaþorpum. Svo eiga öll þessi börn styrktarforeldra víðsvegar um heiminn,“ segir Hans, en rúmlega 9 þúsund Íslendingar, Rúrik og Jóhannes þeirra á meðal, eru styrktarforeldrar.
Rúrik, sem er velgjörðarsendiherra SOS á Íslandi, hitti styrktarson sinn til fjögurra ára í Malaví.
„Það var frábært að sjá þá hittast. Hvað strákurinn var ánægður með þessa heimsókn,“ segir Hans um fund styrktarfeðganna.
Hans segir það hafa verið eftirminnilega upplifun að ferðast um Malaví, sem staðsett er í austurhluta Afríku.
„Malaví er eitt fátækasta ríki veraldar og er á meðal neðstu ríkja á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Hvorugur þeirra (Rúrik og Jóhannes) höfðu komið til Afríku og þarna koma þeir bara í aðstæður sem þeir hafa aldrei upplifað áður. Menningarsjokkið fyrir þá var rosalegt,“ segir Hans.
Spurður hvort að Covid-19 hafi haft mikil áhrif á ferðalagið, fyrir utan frestanir, segir Hans;
„Það kom okkur rosalega á óvart hvað Covid-staðan í Malaví var nánast engin. Þar sem fátækt er mikil er fólk ekki að ferðast mikið á milli staða svo að útbreiðsla Covid-19 er ekki að ná mikið til sveitanna.“
Í þessu samhengi minnist Hans á að fótboltaleikur á milli Rúriks og barnanna í þorpi SOS hafi verið skipulagður;
„Þau röðuðu sér upp í kringum völlinn og þegar Rúrik skoraði þá hlupu þau öll og föðmuðu hann, rúmlega hundrað börn. Það er eiginlega ótrúlegt að enginn okkar hafi fengið Covid, nálægðin var svo mikil.“
Hans segir litlu hafa mátt muna þegar veðuraðstæður ollu mikilli eyðileggingu í suðurhluta landsins, fáeinum dögum eftir að íslenski hópurinn fór þaðan;
„Það er rigningatímabil á þessum tíma í Malaví. Landið einhvern veginn breytir um lit. Við sluppum við mestu rigningarnar, það rigndi alltaf þar sem við vorum nýbúnir að vera og sólin elti okkur út um allt. Þremur dögum eftir að við vorum í suðurhluta landsins þar sem barnaþorpið og fjölskyldueflingarsvæðið kom fellibylur yfir svæðið. Vegurinn sem við keyrðum á fór í sundur þremur dögum eftir að við keyrðum eftir honum. Tvö hundruð þúsund manns misstu heimili sín og 70 manns létust. Barnaþorpið slapp alveg, þar var bara vont veður,“ segir Hans, en fjölskyldueflingarsvæðið í Malaví er fjármagnað af SOS á Íslandi. Þar búa barnafjölskyldur í sárafátækt sem njóta aðstoðar SOS við að verða sjálfbærar.
Þá segir Hans að pólitískur óstöðugleiki hafi sömuleiðis litað dvölina í Malaví, en Hans lýsir eftirfarandi atburðarrás um dvöl hópsins í borginni Blantyre;
„Þá fékk ég skilaboð frá íslenska sendiráðinu um að við ættum helst að forða okkur úr borginni sem fyrst því það sé að bresta á með mótmælum og að óeirðarlögregla væri að loka öllum götum. Svo að við flýttum okkur úr borginni og urðum ekki varir við neitt. Svo síðasta daginn vorum við að horfa á Ísland- Króatíu á EM í handbolta þegar ríkisstjórnin fellur í kjölfar spillingarmáls. Forsetinn hafði bara leyst ríkisstjórnina upp, og fellibylurinn var að ganga yfir landið svo það var víða vatns- og rafmagnslaust. Það var mikið um að vera þarna þegar við vorum að fara.“
Hans segir hópinn hafa verið í góðum og miklum samskiptum við íslenska sendiráðið, sem meðal annars skipulagði heimsóknir á ýmsa staði þar sem Ísland heldur úti þróunarsamstarfi í Malaví;
„Þetta hjálpaði okkur að kynnast hinu hefðbundna lífi Malava í landinu, hvernig aðstæður eru og hvernig fólk býr. Það var mjög dýrmætt fyrir okkur að geta farið með sendiráðinu í grunnskóla, á fæðingadeild og séð hvað fólkið er stolt af því að hafa t.d. fengið nýja hreinlætisaðstöðu.
„Það sem var hvað átakanlegast á ferðalaginu var heimsókn á fæðingadeild sem Ísland hafði endurreist. Að sjá kornungar stúlkur niður í tólf ára sem voru að fara að fæða barn. Þarna varð okkur aðeins um megn. Það er mikið um barnahjónabönd og líka bara misnotkun. Stór þáttur í því á svona fátækum svæðum er að foreldar barna eru ekki nógu vel frædd um bæði hætturnar á misnotkun á börnum, að þekkja merki um misnotkun og að það sé hægt að kæra,“ segir Hans.
Hans vonast til þess að ferðalagið og sjónvarpsþátturinn um það eigi eftir að leiða til aukinnar skráninga styrktarforeldra á Íslandi. Margt smátt geri svo sannarlega eitt stórt;
„Styrktaraðilarnir sem styrkja fjölskyldueflinguna eru kallaðir styrktarvinir. Þeir eru kannski að borga þúsund krónur á mánuði, og þessi þúsundkall verður síðan að 66 þúsund krónum í Malaví. Þetta er svokölluð félagsleg arðsemi – þegar við náum að hjálpa þessum fjölskyldum og framlagið 66 faldast af því að foreldrarnir geta farið að afla sér tekna, sent börnin sín í skóla og síðan hefur það snjóboltaáhrif inn í framtíðina. Lítið framlag á Íslandi er risastórt í þróunarlöndum,“ segir Hans. Í því samhengi minnist Hans á þann kraft sem Rúrik hefur komið með í starfið;
„Það er eiginlega umtalað hjá okkur á skrifstofunni hvað Rúrik hefur tekið þessu verkefni af miklum alhug. Hann lætur þetta sig alveg ofboðslega miklu máli varða. Hann var t.d. að keppa í spurningarþætti í þýsku sjónvarpi um daginn og vinningurinn rann til okkar, 1,6 milljónir. Við erum ótrúlega stolt af öllum okkar velgjörðarsendiherrum og við erum svo þakklát fyrir að eiga þau að.“