„Í gærmorgun sáum við að það var eitthvað að einni hænunni. Við tókum hana upp og þá steindrapst hún. Þá hringdum við í Brigitte dýrlækni og hún tók sýni úr fjórum og lógaði öllum hænunum,“ segir Birna Þorsteinsdóttir, bóndi á Reykjum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í Árnessýslu, í samtali við mbl.is.
Grunur um fuglaflensu á býlinu hennar vaknaði í gær. Nú hefur hann verið staðfestur.
Talið er nokkuð víst að smitaður hrafn sem fannst dauður rétt hjá hænsnakofanum hafi smitað hænurnar.
Birna segir dýralækninn hafa tekið sýni úr fjórum hænum. Af þeim hafi þrjár greinst smitaðar. Því sé nokkuð ljóst að þetta hafi dreift sér í fleiri hænur en á bænum voru alls tíu hænur og einn hani.
Að sögn Birnu hafði dýralæknir í kjölfarið samband við alla í sveitinni sem eru með hænur eða endur hjá sér.