Nýtt hverfi með um 500 íbúum

Finnur Yngvi og Viðar Helgason undirrita samning um uppbyggingu Ölduhverfis.
Finnur Yngvi og Viðar Helgason undirrita samning um uppbyggingu Ölduhverfis. Morgunblaðið/Margrét Þóra

Skrifað hefur verið undir samning um uppbyggingu nýs íbúðahverfis, Ölduhverfis, í landi Kropps í Eyjafjarðarsveit. Nýja hverfið mun verða hluti af þéttbýliskjarnanum við Hrafnagil þar sem er að finna alla helstu þjónustu sveitarfélagsins, s.s. leik- og grunnskóla, sundlaug, íþróttahús og skrifstofu Eyjafjarðarsveitar. Byggðar verða 200 nýjar íbúðir í hverfinu. Íbúar gætu orðið allt að 500 talsins í fullbyggðu hverfi.

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, segir að Ölduhverfi verði mikilvæg viðbót við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Hrafnagilshverfi og rími vel við þá stefnu sveitarfélagsins að byggt sé upp í og við þann þéttbýliskjarna.

Sveitarfélagið er sjálft að hefja viðamikla uppbyggingu í innviðum sínum með byggingu á nýjum leikskóla og metnaðarfullum endurbótum á Hrafnagilsskóla, bókasafni sveitarfélagsins og íþróttaaðstöðu fyrir almenning. Mikilvægt sé að sjá fram í tímann hvernig byggð þróist en Ölduhverfi sé stór hluti af því.

Eykur breiddina

Finnur Yngvi segir að Ölduhverfi muni auka breidd þeirra búsetukosta sem í boði eru í sveitarfélaginu „en íbúðirnar virðast vera fjölbreyttar og henta mjög vel hvort sem er fyrir þá sem eru að byrja að búa, fjölskyldufólk eða eldri íbúa sveitarfélagsins,“ segir hann.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við Ölduhverfi hefjist síðari hluta þessa árs. Uppbyggingin verður í einkaframkvæmd, þar er átt við uppbyggingu og lagningu innviða, s.s. gatna- og stígagerð og fráveitukerfi. Að þeirri uppbyggingu lokinni mun Eyjafjarðarsveit taka við og eignast opin svæði, lóðir, götur, gangstíga og aðra þá innviði sem tilheyra rekstri sveitarfélaga og annast viðhald þeirra til frambúðar.

Nánar um málið í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert