Páskarnir veiti styrk á stríðstíma

Móttökur Samtökin Flóttafólk hafa útvegað börnum frá Úkraínu ný föt, …
Móttökur Samtökin Flóttafólk hafa útvegað börnum frá Úkraínu ný föt, skólatöskur og páskaegg auk þess að skipuleggja afþreyingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrúnartún og Hátún, þar sem sjálfboðaliðar hafa staðið vaktina og veitt flóttafólki ýmiss konar aðstoð, voru lokuð á skírdag en opna aftur eftir helgi. „Við gáfum öllum páskaegg síðustu daga og aðrar vörur til þess að skila fólkinu ágætlega birgðu inn í helgina,“ segir Sveinn Rúnar Sigurðsson, sem hefur staðið í stafni aðgerða til samræmingar úrræða fyrir flóttafólk frá Úkraínu.

Hann segir það mikilvægt að útfærslan á hjálparstarfinu sé með þeim hætti að fólk geti haldið út til langs tíma. „Við fögnum þessu litla fríi og munum koma sterk inn eftir páska, fólkið sem hefur mannað Guðrúnartún og Hátún hefur ekki fengið neina pásu.“

Streymi flóttafólks inn til landsins hefur minnkað, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, aðgerðastjóra teymis um móttöku flóttafólks frá Úkraínu. „Síðastliðnar vikur hafa ekki komið nema fimmtíu og tveir frá Úkraínu,“ segir Gylfi en hann býst við að fækkunin haldi áfram fyrstu dagana eftir páska. „Pólverjar eru svo mikið að fljúga fram og til baka vegna páskanna þannig að það getur reynst erfiðara að fá flug, okkur dettur helst í hug að það sé ástæðan.“

Flestir úkraínskir flóttamenn koma hingað með flugi frá Póllandi, en nýlega kom hingað átta manna hópur með Norrænu.

Heilsugæslan gat ekki mannað sína starfsemi yfir páskana, sem verður til þess að heilsufarsskoðun tefst. Hún var nú þegar helsti flöskuhálsinn við móttöku flóttafólksins. Það kann því að verða til þess að einhverjir verða lengur í úrræði Útlendingastofnunar, enda flyst flóttafólk ekki yfir á forræði sveitarfélaganna fyrr en eftir slíka skoðun.

Getur ekki blessað í gegnum fjarfundabúnað

Dymbilvikan í réttrúnaðarkirkjunni hefst á sunnudaginn og lýkur þann 24. apríl, ólíkt því sem tíðkast í lútherskri trú og íslenskir frídagar miðast við. Margir Úkraínumenn fasta í sjö vikur fram að páskunum en fastan er þannig að þeir neita sér um hvers kyns dýraafurðir eða áfengi. Þegar klukkuna vantar hálftíma í tólf að miðnætti, laugardaginn fyrir páskadag, fer vanalega fram miðnæturmessa sem stendur yfir alla nóttina og lýkur ekki fyrr en klukkan sex eða sjö morguninn eftir.

Á Íslandi er vandasamt fyrir Úkraínumenn að framfylgja þessari hefð í ár þar sem réttrúnaðarkirkjan hér á landi heyrir undir rússnesku réttrúnaðarkirkjuna og viðurkennir ekki innrás Rússlands í Úkraínu. Þá kom upp sú hugmynd að halda úti miðnæturmessu í streymi frá Úkraínu en Sergej K. Artamonov, Úkraínumaður búsettur á Íslandi, segir það ekki ganga, enda geti presturinn ekki blessað í gegnum fjarfundabúnað og til þess að skipuleggja svona messu þurfi líka sérstakt leyfi frá Kænugarði og réttrúnaðarpresti.

„Við getum ekki farið í messuna hjá rétttrúnaðarkirkjunni en við erum að skipuleggja samkomu sjálf þar sem við verðum búin að baka páskakex, hittumst og málum páskaegg. Páskarnir snúast einmitt um von, samskipti og ást,“ segir Sergej.

Páskahátíðin er aðalhátíð Úkraínumanna, en Sergej líkir henni við jólahátíðina á Íslandi. Það er því sársaukafullt að geta ekki haldið upp á páskana með ástvinum og ættingjum, en fjölskyldur eru margar hverjar sundraðar vegna stríðsins. Sergej segir það engu að síður táknrænt að halda upp á páskana á þessum stríðstíma, en á sunnudaginn er dagur upprisunnar. „Það veitir fólki andlegan styrk, eftir erfiðan vetur kemur vor og með því kemur von.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert