Sprotafyrirtækið HorseDay hefur sett á markað samnefnt smáforrit sem ætlað að vera miðpunktur samfélagsins um íslenska hestinn. Var forritið kynnt á lokamóti Meistaradeildar í hestaíþróttum nýverið. Forritið er fáanlegt í App Store og Google Play.
Með forritinu fæst yfirsýn yfir þjálfun hestsins og umhirðu, auk þess sem það býður upp á beina tengingu við WorldFeng og GPS-skráningu á hestaferðum, ekki ósvipað og þekkist innan tómstunda með forritinu Strava.
Hugmyndin að HorseDay fæddist í hesthúsi þar sem hestafólk er vant að halda utan um skráningu á daglegum atburðum hestanna á tússtöflum, þar með talið hreyfingu, þjálfun, járningar, tannhirðu, lyfjagjöf, fóðrun og fleira.
Ólafur H. Einarsson hrossaræktandi er einn stofnenda fyrirtækisins og fékk son sinn, Odd viðskiptafræðing, til liðs við sig, sem er framkvæmdastjóri. Sér Ólafur um markaðs- og sölustjórnun.
„Við teljum að þetta verði mikil bylting fyrir hestaheiminn en þetta er líka áhugavert fyrir vísindasamfélagið enda hefur Háskólinn á Hólum tekið þátt í þróuninni og Háskóli Íslands ritrýnir komandi greinar sem varða gangtegundagreininguna,“ segir Oddur í tilkynningu.
Fyrirtækið hefur notið styrkja frá Tækniþróunarsjóði, Stofnverndarsjóði íslenska hestakynsins og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.
Hönnunarskrifstofan Metall kom að hönnun og flæði forritisins ásamt hönnun vörumerkisins og framsetningu þess og hugbúnaðarfyrirtækið REON kom að forritun og þróun hugbúnaðarins.
Stjórn HorseDay skipa Stella Björg Kristinsdóttir, Sigurjón Rafnsson, Magnús Ingi Óskarsson, Marta Rut Ólafsdóttir og Hermann Kristjánsson, sem jafnframt er stjórnarformaður.