„Við erum að stoppa ökumenn í vikunni eftir páska og að benda þeim á að drífa sig í að skipta út nagladekkjunum,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
„Reglugerðin segir að 15. apríl eigi nagladekk að fara undan nema akstursskilyrði séu þannig og þá er verið að vísa í veðurfarsleg skilyrði.“
Spurður um hvenær verði byrjað að sekta segir Árni: „Við metum það út frá langtímaveðurspá og mér skilst það komi norðanátt aftur eftir páska en hún verður stutt. Ég get ekki sagt hvenær við byrjum að sekta. Á stórhöfuðborgarsvæðinu er tíu til ellefu stiga hiti og óþarfi að vera að láta glamra í malbikinu.“