Íslensku megi ekki nota til að útiloka fólk

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

„[Þ]ótt íslenskukunnátta sé mikilvæg má barátta fyrir íslenskunni aldrei snúast upp í þjóðrembu og íslenskuna má aldrei nota til þess að útiloka fólk á ómálefnalegan hátt eða gera með einhverju móti lítið úr því.“

Þetta skrifar Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, í færslu á Facebook-síðu sinni. Þar vísar hann til auglýsingar á fimmtán störfum á skrifstofu Eflingar, þar sem íslenskukunnátta er gerð að kröfu í öllum tilfellum. 

Veltir hann því upp hvers vegna áhersla sé uppi þar sem þjónustuþegar Eflingar séu að stórum hluta ekki íslenskumælandi, hið minnsta ekki sem móðurmál.

Þetta er athyglisvert, í ljósi þess að rúmur helmingur félaga í Eflingu er af erlendum uppruna og nærri ⅔ þeirra sem leituðu til Kjaramálasviðs félagsins á síðasta fjórðungi ársins 2020 voru af erlendum uppruna. En engin krafa er gerð um t.d. pólskukunnáttu þrátt fyrir hátt hlutfall Pólverja meðal Eflingarfélaga.

Þá veltir Eiríkur því upp hvort ætla mætti að á skrifstofu Eflingar væri full þörf fyrir starfsfólk með kunnáttu í ýmsum tungumálum öðrum en íslensku og ensku „og fram hefur komið í fréttum að á skrifstofunni hefur unnið fólk sem ekki hefur gott vald á íslensku en talar hins vegar ýmis önnur tungumál sem nýtast í starfinu, í samskiptum við félagsfólk af ýmsum þjóðernum.“

„Með auglýsingu af þessu tagi er verið að útiloka það fólk, þrátt fyrir að starfsfólk sem sagt var upp hafi verið hvatt til þess að sækja um að nýju. Ég fæ ekki betur séð en þarna sé verið að misnota íslenskuna. Það er ekki gott,“ segir Eiríkur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert