Lést vera Hallgrímur Helgason

Friðgeir Einarsson rithöfundur segir af tilraunum huldumanns sem undir fölsku …
Friðgeir Einarsson rithöfundur segir af tilraunum huldumanns sem undir fölsku flaggi reyndi að hafa af honum handrit að einu verka hans. Böndin berast að Ítala sem handtekinn var í janúar, grunaður um að látast vera 160 mismunandi aðilar, oft þýðendur, og reyna með því að komast yfir handrit óútgefinna bóka. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta byrjaði þannig að ég fékk póst frá útgefandanum mínum, Guðrúnu Vilmundardóttur hjá útgáfunni Benedikt, það var í október í fyrra,“ segir Friðgeir Einarsson frá, rithöfundur og sviðslistamaður og um leið einn fjölmargra í umfangsmikilli atvinnugrein bókaútgáfu heimsins sem orðið hafa fyrir barðinu á dularfullum svikahrappi sem leggur sig í framkróka við að næla í handrit óútgefinna bóka í óljósum tilgangi.

„Guðrún sendi mér þennan póst nokkrum dögum eftir að hún hafði sent lokahandrit að síðustu bókinni minni í prent úti og bað mig að senda sér handritið, hún fyndi ekki skjölin,“ heldur Friðgeir frásögn sinni áfram og tekur fram að sér hafi þótt beiðni útgefandans furðuleg.

„Ég hugsaði með mér að þetta væri hvort tveggja skrýtið og auk þess léleg vinnubrögð hjá útgefandanum en ætlaði nú samt að fara að senda henni skjalið þegar ég rak augun í netfangið sem pósturinn kom frá. Útgáfan heitir Benedikt en í netfanginu stóð gudrun at benedikf svo þarna er verið að búa til netfang sem er sjónrænt mjög svipað svo ef ég hefði verið að flýta mér hefði mér yfirsést það,“ segir Friðgeir frá.

Hallgrím Helgason vantaði lesefni

Eins játar hann að þegar hann rýndi nánar í orðalag póstsins frá meintri Guðrúnu hafi það verið býsna snubbótt þótt erindið hafi verið á íslensku og hafi sloppið fyrir horn málfarslega að hans viti. Hann hafi þá tekið upp símann og hringt í Guðrúnu sem kom þá af fjöllum, stödd í fríi á Ítalíu og hafði ekki sent honum stafkrók í pósti, hvað þá verið búin að týna nokkrum skjölum.

Friðgeir hafi því hunsað póstinn og þessa beiðni einhvers óþekkts aðila um handrit hans, en sjaldan er ein báran stök. Næst hafi honum borist póstur þar sem ritari kom fram í nafni Hallgríms Helgasonar rithöfundar. „Þetta var um það bil klukkutíma eftir að kom í fréttum hér að hann væri kominn með Covid og hefði verið settur inn á sóttvarnahótel. Þá kom póstur frá einhverjum sem sagðist vera Hallgrímur Helgason og þessi aðili bað mig að senda sér PDF-skjalið með nýju bókinni minni af því hann vantaði eitthvað að lesa í sóttkvínni,“ segir Friðgeir af samskiptum sínum við þetta rafræna hliðarsjálf Hallgríms. Þegar þessir atburðir gerðust var um það bil vika í útgáfu bókar Friðgeirs.

Hann hafi ákveðið að láta krók koma á móti bragði í þetta skiptið og beitt „Hallgrím“ málþófi. „Ég sagðist vera að reyna að útvega skjalið og eitthvað í þá áttina en svo hefur hann fattað að það var ekkert upp úr þessu að hafa, hann var greinilega með alla anga úti til að ná bókinni sem er mjög skrýtið því það hefði verið mjög erfitt fyrir hann að græða eitthvað á bók sem væri að koma út eftir eina viku,“ segir Friðgeir og segir fleiri íslenska rithöfunda hafa lent í þessum torkennilega svikara og jafnvel sent honum skjöl. Nefnir hann tvo höfunda á nafn, annar þeirra er Einar Kárason sem mbl.is forvitnaðist um málið hjá.

Bað um Þung ský

„Ég fékk póst eitt kvöld í september, frá Tone Myklebost, að því er ég hélt, en hún hefur þýtt nokkrar bækur eftir mig á norsku,“ segir Einar frá. „Hún bað mig að senda sér á PDF söguna Þung ský sem þá var rétt ókomin á markað, heldur hann áfram og kveðst í framhaldinu hafa sent þýðandanum meinta handritið í Word-skjali. Morguninn eftir hafi þá annar póstur beðið hans þar sem spurt var hvort hann gæti ekki sent efnið sem PDF-skjal.

Einar Kárason rithöfundur trúði því að erindið sem honum barst …
Einar Kárason rithöfundur trúði því að erindið sem honum barst kæmi frá norskum þýðanda hans og sendi handrit en maðkur reyndist í mysunni eftir að starfsfólk réttindadeildar Forlagsins bað hann að skoða netfangið gaumgæfilega. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fann út úr því en lét réttindaskrifstofu Forlagsins vita og þar fylltist fólk grunsemdum, bað mig að athuga netfangið sem mér hafði sýnst vera tone.myklebost@ og svo framvegis, en reyndist þá vera rnyklebost, sem sagt rn í stað m. Síðan hef ég ekki heyrt meira um málið en hitt var greinilegt að sá sem skrifaði mér var Íslendingur,“ segir Einar að skilnaði.

„En afleiðingarnar voru samt engar, þetta fólk heyrði aldrei neitt meira af handritunum, engin fjárkúgun var í spilinu eða neitt svoleiðis,“ heldur Friðgeir sinni frásögn áfram og kveður íslenska rithöfunda hafa rætt þennan dularfulla handritasafnara sín á milli og málið sé óneitanlega óþægilegt. „Maður veit ekki alveg til hvers á að nota þessar upplýsingar og í einu tilfelli hótaði hann Hólmfríði Úu, útgáfustjóra hjá Forlaginu, sagði eitthvað á þá leið að hann vissi hvar hún ætti heima og bráðum kæmi hann til hennar.“

Árið 2021 var þetta orðin plága

Þetta staðfestir Hólmfríður Úa Matthíasdóttir útgáfustjóri við mbl.is. „Það höfðu verið fregnir af handritaþjófum í bókaheiminum í nokkur ár og við höfðum fengið stöku beiðnir um gögn frá fölskum netföngum frá árinu 2019 en árið 2021 var þetta orðin plága,“ segir Hólmfríður frá. Greinir hún frá því að í byrjun þessa árs hafi einhver tekið að skrifa henni undir nafni þekkts þýðanda úr íslensku og hafi viðkomandi falast eftir ýmsum íslenskum bókum, svo sem Váboða eftir Ófeig Sigurðsson og Stoli eftir Björn Halldórsson.

Auk þess hafi viðmælandi þessi beðið Hólmfríði um „aðrar bækur sem þú ætlar að gefa út á þessu ári“ og hafi hann ekki viljað prentuð eintök, einungis rafræn PDF-skjöl og segir Hólmfríður fátt hafa verið um svör þegar hún innti viðkomandi eftir því hvað hann hygðist gera við efnið. „Við það sat um hríð,“ segir Hólmfríður.

Hólmfríður Úa Matthíasdóttir, útgáfustjóri Forlagsins, varð fyrir barðinu á svikahrappi …
Hólmfríður Úa Matthíasdóttir, útgáfustjóri Forlagsins, varð fyrir barðinu á svikahrappi sem neytti allra ráða til að hafa handrit af útgáfunni og kvaðst að lokum vita hvar hún byggi og vera væntanlegur í heimsókn. Ljósmynd/Aðsend

„Í október sama ár fékk ég síðan bréf frá öðrum þekktum þýðanda og var fljót að sjá að þarna var bókaþrjóturinn aftur á ferð. Nú var hann  að seilast eftir jólabókum Forlagsins. Við skiptumst á nokkrum skeytum þar til ég ákvað að sýna viðkomandi fram á að ég væri búin að sjá í gegnum hann með því að kynna hann fyrir „hinum þýðandanum“ sem hafði skrifað mér í upphafi árs og hefði svo mikinn áhuga á íslenskum bókmenntum. Þessu skensi mínu var illa tekið og svarað með ógnandi skeyti:

„Hæ! Einn daginn kem ég til þín. Ég veit hvar þú býrð.““

Hafi Hólmfríður, er þarna var komið sögu, ákveðið að fylgja ráðleggingum sér vitrari manna, eins og hún orðar það, og láta skrá hótunina hjá lögreglu, þótt hún þættist þess viss að bréfritari væri erlendur og ókunnur henni persónulega. „Bókaþrjóturinn lét þetta ekki aftra sér og skrifaði fjölmörgum starfsmönnum Forlagsins og reyndi að hafa út úr þeim gögn undir nöfnum höfunda og erlendra umboðsmanna og útgefenda,“ heldur Hólmfríður frásögn sinni áfram.

Íslenskan bjöguð en furðu rétt

„Hann skrifaði undir nöfnum höfunda Forlagsins til höfunda og útgefenda hjá öðrum forlögum og bauðst til að skiptast á PDF-skjölum að bókum. Við urðum að skrifa höfundum og þýðendum til að vara þau við og blokkera svikanetföngin svo starfsfólk fengi vinnufrið og ég veit að fleiri félagar okkar í útgáfustétt urðu að gera hið sama.“

Kveðst Hólmfríður hafa óttast að svikahrappur þessi hefndi sín á henni með því að nota hennar nafn til að svíkja gögn út úr öðrum og reyndar hafi í framhaldinu komið til þess. „Hann hafði þá verið að skrifa höfundi Forlagsins og þóst vera enski þýðandinn hans. Þegar það gekk ekki skrifaði hann undir mínu nafni og sóttist ákaft eftir texta að nýrri skáldsögu höfundar sem ekki hefur verið skrifuð, þannig að höfundurinn var fljótur að sjá í gegnum það, enda var íslenskan sorglega bjöguð þótt hún væri líka furðu rétt,“ lýkur Hólmfríður Úa hjá Forlaginu frásögn sinni af samskiptum við handritasvindlara þennan.

Fyrr á árinu fluttu erlendir fjölmiðlar, þar á meðal New Republic og New York Times, fréttir af því að bandaríska alríkislögreglan FBI hefði handtekið tæplega þrítugan Ítala, Filippo Bernardini, í New York vegna gruns um auðkennaþjófnað og rafrænt svindl, eða það sem kallast wire fraud og lýtur að hvers kyns svikum um fjarskiptabúnað, hvort sem það eru símar, tölvur eða aðrir miðlar.

Reyndi að næla í fimmtu Millenium-bókina

Telja framangreindir fjölmiðlar að þarna sé kominn maðurinn sem hrellt hefur útgefendur víða um heim um fimm ára skeið, oftar en ekki með því að látast vera þýðandi og biðja undir því yfirskini um handrit að bókum sem gjarnan eru á leið í útgáfu skömmu síðar. Greinir vefritið Vulture til að mynda frá því að árið 2017 hafi hurð skollið nærri hælum þegar einhver, sem þóttist vera Francesca Varotto, útgáfustjóri fimmtu Millenium-bókar sænska höfundarins Stieg Larsson, Maðurinn sem elti skuggann sinn, á Ítalíu, hafði samband við Norstedt-forlagið í Svíþjóð og bað um að fá sendan nýjan hlekk að handriti bókarinnar, sem átti að koma út samtímis í 27 löndum fáeinum dögum síðar, þar sem lykilorð hennar að fyrri hlekk væri útrunnið.

Millenium-þríleikurinn eftir Stieg Larsson er orðinn gott betur en þríleikur …
Millenium-þríleikurinn eftir Stieg Larsson er orðinn gott betur en þríleikur og reyndi bókaþjófurinn að næla í handrit fimmtu bókarinnar örskömmu fyrir útgáfu hennar í 27 löndum samtímis. AFP

Starfsfólk sænsku útgáfunnar kom á síðustu stundu auga á að ending tölvupóstlénsins, sem póstur meintrar Varotto barst frá, var marsilioeditori.com í stað .it fyrir Ítalíu. Viðvörunarbjöllum var þá hringt hjá öllum útgefendum og þegar tæknideild Marsilio-útgáfunnar fór ofan í saumana á .com-netfanginu reyndist það stofnað gegnum lénaþjónustuna GoDaddy og skráð á heimilisfang og símanúmer í Amsterdam í Hollandi. Þegar tæknimenn Marsilio hringdu í númerið svaraði þeim símsvari með kveðjunni „Takk fyrir að hringja í IBM,“ og lengra komust þeir ekki.

Greinir Vulture frá því að svindlarinn hafi einnig sett sig í samband við íslenskan höfund og New Republic segir frá svindltilraun gagnvart Hallgrími Helgasyni og ræðir auk þess við Friðgeir Einarsson.

Gæti átt von á 20 ára dómi

Bernardini, sem handtekinn var í New York, reyndist þegar upp var staðið hafa tengsl við útgáfubransann, bara ekki þau tengsl sem hann lét í veðri vaka. Ítalinn starfaði í deild erlendra útgáfuréttinda hjá Bretlandsútibúi bandaríska útgáfurisans Simon & Schuster, var þar almennur starfsmaður og á leið í frí til New York með kunningja sínum þar sem fulltrúar FBI biðu hans á flugvellinum eftir mikla rannsóknarvinnu en Bernardini er gefið að sök að hafa í svikum sínum komið fram undir alls 160 nöfnum skáldaðra sem raunverulegra persóna með það fyrir augum að komast yfir handrit óútgefinna bóka hjá rithöfundum og útgefendum.

Gæti Ítalinn átt yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi í Bandaríkjunum verði hann sekur fundinn en hann neitaði sakargiftum við birtingu ákæru og er nú í farbanni í New York en kærasti hans greiddi, eftir því sem fjölmiðlar vestanhafs greina frá, 300.000 dala tryggingu til að leysa hann úr fangelsi á meðan hann bíður dóms.

Friðgeir hefur hins vegar tekist á hendur umfjöllun um málið og hófu sex þættir hans um bókaþjófinn svokallaða göngu sína á hljóð- og rafbókavefnum Storytel í síðustu viku undir titlinum Handritagildran: bókaþjófurinn kjöldreginn. Þar beinir Friðgeir sjónum aðallega að starfsemi bókaþjófsins hérlendis, tekur viðtöl við höfunda og útgáfufólk, og segir frá sínum samskiptum við hann, sem á köflum voru býsna undarleg, svo sem ráða má af frásögn hans hér að framan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert