Reykingar föður alvarlegar fyrir getnað

Reyki faðir fyrir getnað barns, einkum ef hann byrjaði að reykja fyrir 15 ára aldur, eru afkomendur hans mun líklegri að hafa minnkaða lungnastarfsemi, astma og ofnæmi. Þetta er meðal þess sem komið hefur fram í Evrópurannsókninni Lungu og heilsa en fjórða lota rannsóknarinnar er nú að hefjast. 

Að sögn Bryndísar Benediktsdóttur, heimilislæknis og prófessors emeritus, átti þetta við jafnvel þó svo hann hafi hætt að reykja fimm árum fyrir getnað barnsins. Það sama átti við ef faðir hafði unnið við logsuðu eða verið berskjaldaður fyrir málmgufum fyrir getnað barns. Það sama átti ekki við ef faðir byrjaði að reykja eða vinna við logsuðu eftir fæðingu barns.

Ekki fundust sömu tengsl milli reykinga móður fyrir getnað. En ef föðuramma reykti á meðgöngu voru ömmubörnin hennar líklegri til að hafa skerta lungnastarfsemi, astma og ofnæmi. Einnig kom í ljós að að ef faðir var í yfirþyngd sem barn og einkum kringum kynþroska voru afkomendur hans líklegri til að hafa skerta lungnastarfsemi og astma.

„Þessar niðurstöður benda til þess að huga eigi betur að forvörnum þegar kemur að lífsstíl og skaðlegu umhverfi drengja kringum kynþroska. Líklegt er að skaðleg efni í innöndunarlofti og efnaskipti geti haft skaðleg áhrif á sæðisfrumur, en nauðsynlegt er að gera frekari rannsóknir til staðfestingar því,“ segir Bryndís. „Rannsókn okkar staðfesti einnig það sem vitað er að reykingar móður á meðgöngu hafa áhrif á öndunarfæraheilsu ófædds barns. Þá kom líka í ljós að ef móðir vann við ræstingar og notaði hreinsiefni hvort sem það var fyrir getnað barns, kringum getnað eða á meðgöngu voru afkomendur líklegri til að hafa astma.“

Kæfisvefn algengari en talið hafði verið

Svefn hefur verið skoðaður vandlega í rannsókninni og fyrir 12 árum var öllum íslensku þátttakendunum boðið að fara í svefnrannsókn þar sem fylgst var með öndun og súrefnismettun með mælitækjum frá íslenska fyrirtækinu NOX.

Að sögn Elínar Helgu Þórarinsdóttur, sérnámslæknis í heimilislækningum og doktorsnema við Háskóla Íslands, kom í ljós að kæfisvefn var mun algengari en áður hafði verið talið og var 15% þátttakenda boðin meðferð með svefnöndunartæki. Hluti þeirra þáði meðferðina.

„Kæfisvefn getur haft alvarlegar afleiðingar ef hann er ekki greindur og meðhöndlaður. Sjúkdómurinn eykur m.a. líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, háþrýstingi og heilaáföllum. Að auki veldur kæfisvefn mikilli syfju hjá meiri hluta sjúklinga, en ekki öllum. Mikil syfja hefur áhrif á athygli og einbeitingu og þannig hefur margsinnis verið sýnt fram á tengsl dagsyfju við slys, bæði bílslys, vinnuslys og mistök við vinnu. Þá er dagsyfjan beinlínis lífshættuleg,“ segir Elín Helga. Það getur því verið til mikils að vinna að greina kæfisvefn og meðhöndla.

Íslenska teymið í rannsókninni frá vinstri: Hjördís Sigrún Pálsdóttir, Helga …
Íslenska teymið í rannsókninni frá vinstri: Hjördís Sigrún Pálsdóttir, Helga Norland, Davíð Gíslason, Bryndís Benediktsdóttir, Elín Helga Þórarinsdóttir og Þórarinn Gíslason.


Niðurstöður um margt hagnýtar

Evrópurannsóknin Lungu og heilsa hófst árið 1990 sem fjölþjóða rannsókn meðal ungs fólks (20-44 ára) til að meta algengi og meðferð astma og ofnæmis ásamt tengslum þessara sjúkdóma við fjölmarga áhættuþætti og heilsufar. Evrópurannsóknin er langviðamesta faraldsfræðirannsókn hvað varðar lungnaheilsu hjá slembiúrtaki. Þórarinn Gíslason, lungnalæknir, prófessor emeritus og umsjónarmaður rannsóknarinnar, segir niðurstöðurnar um margt hagnýtar og hafa varpað ljósi á áður óþekkt tengsl við umhverfi og lífsstíl.

„Við höfum verið í samstarfi við þá sem eru fremstir á þessu sviði í heiminum og höfum náð að byggja upp öflugt tengslanet. Slíkt samstarf stuðlar líka að markvissari greiningu og meðferð okkar skjólstæðinga og um leið betri nýtingu á fjármagni,“ segir Þórarinn en erlendir sérfræðingar eru nánast í viku hverri kallaðir til skrafs og ráðagerða.

Þórarinn, Bryndís og Davíð Gísalson ofnæmislæknir benda öll á, að rannsóknin sé þverfagleg með þátttöku fagfólks úr ólíkustu áttum, lækna af ýmsu tagi, lýðheilsufræðinga, atvinnusjúkdómafræðinga, jarðfræðinga, örverufræðinga, veðurfræðinga og fjölmargra fleiri. Það hjálpi mönnum að sjá heildarmyndina.

Nánar er fjallað um Evrópurannsóknina Lungu og heilsa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert