Sleit hásin á fyrsta degi

„Maður fékk að heyra það frá krökkunum að maður ætti …
„Maður fékk að heyra það frá krökkunum að maður ætti engan pabba. Ég var oft dapur yfir því og gat sótt í þessa tilfinningu þegar ég lék Benedikt,“ segir Laddi sem leikur nú í Brúðkaupinu mínu. mbl.is/Ásdís

Leikarinn og grínistinn ástsæli, Þórhallur Sigurðsson, ávallt kallaður Laddi, býður blaðamanni að hitta sig á þeim óvenjulega stað líkamsræktarstöð í Faxafeni þar sem hann æfir. En blaðamaður er ekki mættur til að ræða líkamsrækt eða golf. Það er leiklistin og lífið sem vekur forvitni hans frekar, en Laddi leikur nú í nýrri seríu, Brúðkaupið mitt, sem komið er inn í Sjónvarp Símans Premium. Er þáttaröðin framhald af Jarðarförinni minni sem sló í gegn og hefur nú verið seld til Þýskalands og Frakklands.

Missir að vera föðurlaus

Við snúum okkur að persónunni Benedikt í þáttunum áðurnefndu, Jarðarförinni minni og nú Brúðkaupinu mínu. Laddi segir það ekki hafa verið létt verk að fara í hans spor.

Laddi leikur Benedikt í Brúðkaupinu mínu á móti Ragnheiði Steindórsdóttur.
Laddi leikur Benedikt í Brúðkaupinu mínu á móti Ragnheiði Steindórsdóttur.

„Hann er sérstakur og var í krísu, búinn að loka sig af tilfinningalega. Hann var bara fúll á móti. Hann átti bara einn vin og var mjög bitur. Hann hafði misst dóttur sína og gleymdi þá syni sínum. Það var svolítið erfitt að vera fúll á móti, að ná því. Ég er sjálfur ekki þannig en það tókst samt. Það komu alveg dagar sem maður var svolítið dapur þegar maður kom heim,“ segir Laddi og segist hafa fundið eitthvað í sjálfum sér sem hann gat notað í hlutverkið, en Laddi upplifði missi og höfnun sem lítið barn.

„Ég var lítill strákur þegar pabbi fór og ég kynntist honum eiginlega ekkert fyrr en á efri árum. Það er mikill missir að vera föðurlaus,“ segir Laddi og segir foreldra sína hafa skilið þegar hann var þriggja ára og þá hafi faðir hans flutt út á land.

„Maður fékk að heyra það frá krökkunum að maður ætti engan pabba. Ég var oft dapur yfir því og gat sótt í þessa tilfinningu þegar ég lék Benedikt,“ segir hann og segir pabba sinn ekki hafa sinnt sér neitt alla æskuna.

Varstu alltaf trúðurinn í bekknum sem strákur?

„Já, ég var feiminn, með minnimáttarkennd og var því með fíflalæti. Það var fronturinn. Ég var mikill mömmustrákur og hékk í pilsfaldinum á henni af ótta við að ég myndi missa hana líka.“

Jafnhaltur út þáttinn

Laddi segist ekki hafa átt von á að Jarðarförin mín yrði jafn vinsæll þáttur og raun bar vitni. Hann segir þó einn af handritshöfundunum, Jón Gunnar Geirdal, hafa haft fulla trú á báðum seríunum.

„Jón Gunnar var alveg viss um það. Hann var með það á hreinu með Jarðarförina og er með það á hreinu líka varðandi Brúðkaupið. Sá þáttur er aðeins öðruvísi, léttari. Benedikt minn er aðeins léttari og búinn að hitta æskuástina. Hann dó ekki í fyrri þáttum og er helvíti hress og kátur og ætlar að fara að gifta sig. En það fer ekki allt eins og á horfir, hann greinist aftur og þá hrynur allt. En hann ætlar að reyna að gifta sig áður en hann deyr,“ segir Laddi og glottir.
Það má að sjálfsögðu ekki gefa of mikið upp, en þess má geta að þátturinn er framleiddur hjá Glassriver.

Laddi sleit hásin í atriðinu sem tekið var upp í …
Laddi sleit hásin í atriðinu sem tekið var upp í Nauthólsvík.

Var eitthvað sem fór úrskeiðis í tökunum?

„Já, það má eiginlega segja það. Á fyrsta degi sleit ég hásinina, eða svona nokkurn veginn. Þetta gerðist í Nauthólsvík þegar taka átti upp sjósundsatriði. Ég var svo allt í einu orðinn haltur og var mikið bólginn. En kannski var gott að þetta gerðist á fyrsta degi því ég var þá jafnhaltur út allan þáttinn.“

Ítarlegt viðtal er við Ladda í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert