„Upplifði allar tilfinningar í heiminum“

Styrktarfeðgarnir Rúrik og Blessings.
Styrktarfeðgarnir Rúrik og Blessings. Ljósmynd/Aðsend

Rúrik Gíslason fyrrverandi knattspyrnumaður segir stutt hafa verið á milli gráts og hláturs þegar hann heimsótti barnaþorp SOS hjálparsamtakanna í Malaví í janúar síðastliðnum.

Rúrik ferðaðist til Malaví ásamt Hans Stein­ari Bjarna­syni, upp­lýs­inga­full­trúa SOS barnaþorpa á Íslandi, og mági sínum Jó­hann­esi Ásbjörns­syni viðskipta­manni. Þre­menn­ing­arn­ir heim­sóttu barnaþorp SOS í land­inu, þar sem bæði Rúrik og Jó­hann­es fengu að hitta börn sem þeir hafa styrkt með fjár­gjöf­um und­an­far­in ár. 

Með á ferðalag­inu var kvik­myndamaður sem myndaði ferðalagið og var afrakst­ur­inn sýnd­ur á Sjón­varpi Sím­ans á fimmtu­dag. 

Rúrik er einn fjögurra velgjörðarsendiherra SOS barnaþorpa á Íslandi. 

Hvernig kom það til að þú gerðist velgjörðarsendiherra SOS barnaþorpanna á Íslandi?

„Ég er búinn að vera sendiherra samtakanna síðan 2018. Það kemur bara þannig til að samtökin setja sig í samband við mig og það er þannig með þessi samtök að það er rosalega lítill peningur sem fer í markaðsstörf og kynningu á því sem þessi samtök eru að gera. Mitt starf og það sem mig langar svo að ná í gegn með að vera sendiherra er að kynna þessi samtök og kynna starfsemi þeirra, hvað þau eru að vinna magnað starf. Því maður verður ekkert var við það bara af því bara. Maður verður einhvern veginn að kynna sér málið og láta sig málin varða til að fatta hvað það er í raun og veru mikilvægt að svona samtök séu til,“ segir Rúrik í samtali við mbl.is. 

Ferðin til Malaví varði í tólf daga, en henni hafði verið frestað þrisvar vegna kórónuveirufaraldursins. 

Styrktarfeðgarnir Rúrik og Blessings.
Styrktarfeðgarnir Rúrik og Blessings. Ljósmynd/Aðsend

Upplifði allan tilfinningaskalann

Rúrik segir ferðalagið hafa verið magnaða upplifun og að ef hann hefði helst óskað sér að fá að heimsækja fleiri staði. Hann segist hafa farið í gegnum allan tilfinningaskalann á ferðalaginu;

„Ég upplifði bara allar tilfinningar í heiminum held ég. Þetta voru svo miklar andstæður og þegar þú upplifir svona miklar tilfinningar þá veistu ekkert endilega hvernig þú átt að haga þér, hvað þú átt að segja o.s.frv. Það var svo stutt á milli hláturs og gráts. Við heimsóttum þorp og fæðingardeild sem snerti okkur mikið. Það gerði mann meyrann.

Íslenski hópurinn.
Íslenski hópurinn. Ljósmynd/Aðsend


„Svo að sama skapi sá maður gleðina og ánægjuna með að hafa hvort annað í andlitum flestra. Ég veit að þetta hljómar dálítið væmið en þetta er bara raunveruleikinn þarna úti og eitthvað sem við eigum ekki að venjast á Íslandi, að þurfa að liggja á gólfinu á fæðingardeildinni, alast upp án foreldra eða fá ekki að borða. Þetta snertir mann alveg ótrúlega djúpt á bæði góðan og slæman hátt. Slæman hátt hvað varðar það hvað þetta var sorglegt stundum en á góðan hátt hvað fólk var samt einhvern veginn ánægt með hvað þau höfðu. Það er erfitt að tala alveg hreint út um það hvernig manni leið nákvæmlega því maður er að upplifa svo rosalega margar tilfinningar. Ég horfði á þáttinn í gær og það er alveg greinilegt að ég vissi oft á tíðum ekki hvað ég átti að segja eða hvernig ég átti að haga mér því maður var einhvern veginn bara í svona móki. Það var svo mikið af tilfinningum að hellast yfir mann,“ segir Rúrik. 

Lærði heilan helling

Rúrik segist hafa lært mikið af ferðinni og að hún hafi breytt sín hans á lífið. 

„Ég held að þetta hafi breytt sýn minni á lífið til frambúðar. Þetta er svona með því magnaðra sem maður hefur upplifað að öllu leyti. Nú get ég bara talað fyrir sjálfa mig en stundum gerist maður sekur um að kvarta og kveina yfir hlutum sem skipta ekki máli. Ég ætla ekki að vera bera okkur saman við annað fólk en ég held að allir hafi svolítið gott af því að setjast aðeins niður og hugsa sig kannski tvisvar um áður en það fer að kvarta og kveina yfir einhverju sem er kannski minniháttar.

„Það var aðallega það, að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur. Þetta breytir bara sýn manni á lífið að öllu leyti. Það er rosalega erfitt að koma þessari ferð almennilega frá sér í orði því hún var oft á tíðum svolítið yfirþyrmandi. Það er öðruvísi að standa þarna en að heyra frá þessu í einhverjum heita pottinum einhverstaðar,“ segir Rúrik. 

Stendur upp úr að hitta styrktarsoninn 

Rúrik segir það standa upp úr eftir ferðina að hafa hitt Blessings, styrktarson sinn. . 

„Það stendur náttúrulega upp úr að hitta Blessings, drenginn sem ég er búin að vera styrkja síðan 2018. Hann elst upp í barnaþorpi eftir að pabbi hans var myrtur,“ segir Rúrik, en Blessings er í dag fjórtán ára. 

Rúrik spilar fótbolta ásamt börnum í barnaþorpi SOS.
Rúrik spilar fótbolta ásamt börnum í barnaþorpi SOS. Ljósmynd/Aðsend

„Í rauninni fannst mér allir sem ég hitti þarna mjög áhugasamir því heimsóknir eru vanalega ekki leyfðar í barnaþorpin. Við fengum sérstakt leyfi til þess. Auðvitað fannst mér gaman að hitta krakka og ræða við þau um hvað þeim finnst skemmtilegt að gera. Blessings, styrktarsonur minn, er t.d. markmaður í fótbolta og við spiluðum saman fótbolta. Hann var bara gríðarlega efnilegur og margir strákar í þorpinu sem voru rosalega góðir í fótbolta og lögðu sig alla fram. Það fór bara mjög vel á með okkur.“

Erfitt að bera fæðingadeildina augum 

Rúrik segir það hafa verið átakanlegt að heimsækja fæðingadeild sem að Ísland endurbyggði í gegnum þróunarsamvinnuverkefni á svæðinu. 

„Ég hef persónulega aldrei séð konu fæða barn, hvað þá barn fæða barn. Við heimsóttum s.s. fæðingardeild í Malaví og það var alveg gríðarlega erfið upplifun að labba þar í gegn og sjá þar allt niður í 12 ára stelpur, sumar nývaknaðar úr dái eftir að hafa fætt barn. Það var alveg ótrúleg upplifun. Ég mun aldrei gleyma því,“ segir Rúrik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert