Inga Þóra Pálsdóttir
„Ég harma þessar uppsagnir. Þessi gjörningur hennar er ekki góður. Þetta gæti orðið skaðlegt fyrir verkalýðshreyfinguna.“
Þetta segir Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, varaformaður VR, í samtali við mbl.is um hópuppsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, á starfsfólki skrifstofu félagsins.
Spurð hvort óeining sé innan stjórnar VR um málið þvertekur Svanhildur fyrir það.
„Alls ekki. Við erum mjög samtaka og sammála um þetta mál. Það var algjör samrómur innan stjórnar. Það var enginn ánægður með þennan gjörning Sólveigar. Enginn.“
Hún telur Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, hafa tekið skýra afstöðu með starfsfólki Eflingar.
„Hann er búinn að veita viðtöl þar sem hann harmar þennan gjörning. Mér fannst hann alveg vera skýr með það.“
Þá telur Svanhildur mikilvægt að árétta að VR komi ekki nálægt þessum hópuppsögnum.
„Það er ekki VR sem er í þessum gjörningi, heldur Efling.“
Svanhildur segir VR hafa aðstoðað félagsfólk sitt, sem og aðra sem ekki voru í VR, á faglegan hátt. Nú reyni þau að ná sem bestu samningum fyrir sitt fólk.
„Það er verið að aðstoða það fólk með faglegum hætti. Við reynum að gera allt sem við getum til þess að þau nái fram sem bestum samningi við þessi starfslok sín. Bæði kjaramálafulltrúi VR og Ragnar Þór formaður hafa verið að einblína á að aðstoða þetta fólk og aðra sem ekki hafa verið í VR en hafa þurft á aðstoð á halda.“