Vissum ekkert hvernig honum leið

Helgi Felixson og Titti Johnson eru höfundar heimildarmyndarinnar Út úr …
Helgi Felixson og Titti Johnson eru höfundar heimildarmyndarinnar Út úr myrkrinu. mbl.is/Ásdís

Frá því að Titti Johnson og Helgi Felixson hófu að vinna að heimildarmynd sinni um sjálfsvíg, Út úr myrkrinu, árið 2016 hafa 211 manns fallið fyrir eigin hendi á Íslandi – hið minnsta. Það eru sláandi tölur. Myndin verður frumsýnd í Bíó Paradís á þriðjudaginn.

Raunar má rekja þráðinn lengra aftur en þegar Titti kom heim dag einn árið 2013 var hundrað manna björgunarsveit við leit á ströndinni fyrir framan heimili þeirra Helga. „Ég hélt fyrst að aldan hefði hrifið einhvern með sér á haf út en í ljós kom að kona hafði gengið í sjóinn af fúsum og frjálsum vilja. Það sló mig,“ segir hún.

Ekki löngu síðar fyrirfór önnur kona, sem hún þekkti persónulega, sér. „Börnin okkar voru saman á leikskóla og við höfðum oft spjallað saman,“ rifjar hún upp. Til að færa þetta enn þá nær þeim þá svipti ungur maður sem bjó í sama húsi og þau sig lífi árið 2017. „Þó svo að við hefðum stundum hitt hann þá vissum við ekkert um það hvernig honum leið. Þegar maður fer að ræða um sjálfsvíg þá poppar þetta upp alls staðar,“ segir Helgi og Titti bætir við: „Það virðast allir þekkja einhvern sem hefur fyrirfarið sér; ættingja, vin, kunningja eða vinnufélaga, og okkur langaði að gera mynd um þetta átakanlega efni.“

Hún segir sérstaklega sorglegt hversu margt ungt fólk fellur fyrir eigin hendi. „Álagið er mikið hjá unga fólkinu, samfélagsmiðlar og annað, og því miður höndla sumir það ekki. Því þarf að breyta. Það er alltaf hægt að fá hjálp,“ segir Titti.

Stórt samfélagslegt vandamál

Helgi segir að sjálfsvíg sé svakalega stórt samfélagslegt vandamál sem erfitt hafi reynst að uppræta. „Þagnarhjúpur og skömm hefur umlukt sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir í gegnum aldirnar. Það skýrist eflaust af þeirri staðreynd að sjálfsvíg voru lengi talin glæpur, samanber orðið sjálfsmorð. Hægt var að gera eigur sjálfsvegenda upptækar og greftrun þeirra í kirkjugörðum var bönnuð og Ísland var þar engin undantekning. Lög giltu um sjálfsvegendur á Íslandi fram til ársins 1870. En þrátt fyrir lagaumbætur í sumum löndum og opnun umræðunnar um sjálfsvíg, sem 18. aldar hugsuðir stuðluðu að, varð ávinningurinn ekki langvinnur. Þegar kom fram á 19. öld urðu sjálfsvíg aftur tabú,“ segir hann.

Úr myndinni Út úr myrkrinu.
Úr myndinni Út úr myrkrinu.


Myndin byggist á frásögnum fólks sem misst hefur einhvern nákominn vegna sjálfsvígs. „Segja má að þetta fólk komi meira og minna úr nærumhverfi okkar og allt á það sameiginlegt að vilja virkilega tjá sig. Það þarf og vill ræða þessi mál og eyða þessu tabúi,“ segir Helgi.

Hættu við Nágranna

Vegna þessarar nástöðu var vinnuheiti myndarinnar Nágrannar. „Okkur var hins vegar kurteislega bent á, að það væri gömul sápuópera og betra væri að finna annað nafn. Þá komumst við út úr myrkrinu,“ segir Helgi sposkur en þeim var ekki kunnugt um þessa áströlsku heimilisvini margra Íslendinga.

Titti og Helgi eru sammála um að umræðan um sjálfsvíg sé smám saman að breytast og opnast hér á landi og nefna í því sambandi PIETA-samtökin, Sorgarsamtökin, Rauða krossinn og fleiri sem hafa með markvissum hætti lagt sitt lóð á vogarskálarnar.

„Við höfum lengi talað opinskátt um krabbamein og aðra sjúkdóma en þegar kemur að geðheilbrigðismálum og ég tala nú ekki um sjálfsvígum þá vefst okkur tunga um tönn. Það er skiljanlegt að röddin komi ekki frá þeim sem þjást heldur frá þeim sem næst þeim standa,“ segir Helgi.

Nánar er rætt við Titti og Helga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert