Íslendingamót á miðjum Grænlandsjökli

Einar Torfi Finnsson
Einar Torfi Finnsson Einar Torfi Finnsson/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn

Metfjöldi íslenskra gönguskíðagarpa verða á Grænlandsjökli næsta mánuðinn, en bæði Einar Torfi Finnsson og Vilborg Arna Gissurardóttir, fjallaleiðsögumenn, munu þvera jökulinn ásamt fylgdarliði, sitt í hvora áttina. 

„Við hittumst væntanlega fyrir austan miðju, nálægt hábungunni,“ segir Einar Torfi. Hann leiðir fimm manna hóp gönguskíðagarpa frá austri til vesturs, en Vilborg lagði af stað fyrr í vikunni frá vestri til austurs. 

Einar leiðir fimm manna hóp og Vilborg og Brynhildur Ólafsdóttir leiða saman sex einstaklinga. Þegar þau hittast verður því saman kominn hópur fjórtán Íslendinga. 

Rúmlega tuttugu daga ferðalag

Einar leggur af stað með sinn hóp á sumardaginn fyrsta. Hann segir að þessi árstími sé ákjósanlegur enda orðið bjart en ekki of hlýtt. 

Leiðin er í kringum 550 kílómetra löng og hópurinn stefnir á að ljúka göngunni á 21 til 24 dögum. Þau eru þó með mat fyrir 30 daga. 

Hópurinn kallar sig Gönguskíðagengið og tilheyrir félagsskap sem hittist vikulega yfir veturinn og fer á skíði auk þess að fara saman í ferðir.  

„Þetta var svona tuttugu manna kjarni í mörg ár en sprakk út í fyrra og í vetur, en við erum hátt í sextíu í hópnum.“

Einar segir að sumir hafi æft sig sérstaklega fyrir ferðina, en allir ferðalangarnir séu í góðu formi og búi yfir reynslu af sambærilegum ferðum, það hafi mikið að segja.

Fimmta ferð Einars yfir jökulinn

Mun þetta vera í fimmta skipti sem Einar þverar jökulinn, en tuttugu og sex ár eru liðin frá fyrstu ferð hans. Hann kveðst sjá miklar breytingar í jöðrunum báðu megin við jökulinn þó hájökullinn láti ekki mikið á sjá. „Jökullinn hefur hörfað og þynnst mikið.“

Aðspurður hvers vegna hann hafi valið að fara frá austri til vesturs, fremur en vestri til austurs, segir Einar að það hafi helst verið af „lógískum ástæðum.“

„Það er smá karaktermunur á þessum leiðum, manni fannst lógískt að gera þetta svona, þannig að byrjunarpunkturinn sé nálægt. Svo fáum við fallvind í bakið lengri vegalend og losnum við að byrja á skriðjökli.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá fyrstu ferð Einars, en hópurinn mun halda úti bloggi á InReach þar sem hægt verður að fylgjast með ferðum þeirra.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert