„Ótrúlegt að menn skuli gera þetta“

Hjólförin sjást greinilega á Ingólfsfjalli í Ölfusi.
Hjólförin sjást greinilega á Ingólfsfjalli í Ölfusi. Ljósmynd/Aðsend

„Það er alveg ótrúlegt að menn skuli gera þetta,“ segir Bárður Jón Grímsson í samtali við mbl.is, en hann var ásamt syni sínum í göngu á Ingólfsfjalli í dag er hann gekk fram á náttúruspjöll sem höfðu verið unnin á fjallinu.

Bárður og sonur hans voru í göngu er þeir sáu …
Bárður og sonur hans voru í göngu er þeir sáu förin. Ljósmynd/Aðsend

Fjórhjóli hafði verið ekið langt upp á fjallið svo að djúp för mynduðust í jarðveginum. 

Bárður segir að jarðvegurinn sé sérstaklega viðkvæmur á þessum tíma ársins er frost er farið úr jörðu. 

„Maður stiklaði á steinum annars hefðum við sokkið niður upp að ökkla í drullunni,“ segir hann og bætir við að mosinn og melarnir hafi ekki bætt úr skák.

Festi sig í drullunni

Bárður segir að honum hafi blöskrað mikið og mikilvægt sé að koma í veg fyrir að þessi háttsemi sé höfð.

„Það er alveg ótrúlegt að manneskjunni hafi dottið þetta í hug að spóla sig í gegn þarna á fjörhjóli við þessar aðstæður,“ segir hann og bætir við að förin hefðu kannski ekki myndast hefði verið frost í jörðu.

„Meira að segja þegar maður gengur um á svona jarðvegi er maður að passa sig á að stikla á milli steina af því það er leiðinlegt að vera troða ofan í mosann.“

Ljósmynd/Aðsend

Bárður segist ekki vita hversu langa leið hjólinu var ekið þar sem þeir feðgar höfðu ekki möguleika á að ganga meira um svæðið. 

Hjólinu hafi þó ekki verið snúið við til þess að forða sér úr aðstæðunum og á einum stað var skýrt að hjólið hafði fest sig i drullunni. „Honum var greinilega alveg sama.“

Man ekki eftir öðru eins

Bárður stundar útivist mikið og hefur gengið um fjöll og firnindi. 

„Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann séð annað eins uppi á fjöllunum,“ segir hann og leggur áherslu á að fólk fari með nærgætni um náttúru Íslands. 

Bárður hefur tilkynnt málið bæði til lögreglu og Umhverfisstofnunar. 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka