Í tölvupósti sem starfsmenn Eflingar fengu í gær er listi af spurningum og svörum varðandi skipulagsbreytingar á skrifstofum félagsins. Þar kemur meðal annars fram að lækkun launakostnaðar muni til lengdar spara Eflingu allt að 120 milljónir króna á ári. Í ársskýrslu Eflingar fyrir árin 2020 og 2021 kemur fram að launakostnaður félagsins árið 2021 hafi verið um 693 milljónir króna. Þá voru 57 stöðugildi að meðaltali það ár.
„Þessar tölur koma mér frekar spánskt fyrir sjónir. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér hvernig störf átta eða níu manns eiga að spara 120 milljónir á ári,“ segir Gabríel Benjamin, trúnaðarmaður starfsfólks Eflingar.
„Ég tel mig hafa ástæðu til þess að efast um ýmislegt í þessari kynningu, og þetta er á meðal þess. Það á sér enginn útreikningur, engar útskýringar og engin röksemdafærsla þarna stað. Það er bara verið að impra aftur á því að þetta hafi verið faglega unnið og að réttmætar ástæður séu að baki þessu,“ segir Gabríel.
„Aftur er verið að tala um að það hafi verið eitthvert samráðsferli sem fór af stað með trúnaðarmönnum. Ég vísa því til föðurhúsanna,“ segir Gabríel og bætir við: „Það var ekkert samtal. Þetta var einhliða ákvörðun sem var búið að taka, og reynt að fá okkur trúnaðarmenn til að sætta okkur við hana.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.