„Líklega hefur Lilja sagt of mikið“

Helga Vala telur skorta traust innan ríkisstjórnarinnar.
Helga Vala telur skorta traust innan ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er auðvitað tilraun ríkisstjórnarinnar til að firra sig allri ábyrgð en lögin eru alveg skýr. Fjármálaráðherra ber lagalega ábyrgð.“

Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is um áform ríkisstjórnarinnar að leggja til við Alþingi að Banka­sýsla rík­is­ins verði lögð niður.

„Það skiptir engu máli hvað þau reka marga opinbera starfsmenn í þessum leiðangri sínum til að fría sig ábyrgð, því að samkvæmt öllu þá liggur ábyrgðina hjá þeim og fjármálaráðherra. Það er ekkert undan því komist,“ bætir Helga Vala við.

Telur skorta traust innan ríkisstjórnarinnar

Helga Vala segir vekja athygli að ríkisstjórnin hafi ekki verið kölluð saman til að ræða málið en fram hefur komið að formenn stjórnarflokkanna hafi tekið þessa ákvörðun á fundi í gær.

„Það opinberar algjöran skort á trausti innan ríkisstjórnarinnar,“ segir Helga Vala.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hafi ekki verið hlynnt þeirri aðferðafræði sem varð ofan á við söl­una á bréf­um í Íslands­banka. Hún vildi al­mennt útboð.

„Líklega hefur Lilja sagt of mikið og þá kalla þau ekki saman ríkisstjórnina,“ segir Helga Vala.

Best að ríkisstjórnin geri sem minnst

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að ekki verði ráðist í frek­ari sölu á hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka að sinni. Þegar ný lög­gjöf ligg­ur fyr­ir mun ákvörðun um mögu­lega sölu á hlut rík­is­ins í Íslands­banka verða tek­in fyr­ir á Alþingi.

Spurð hvort henni finnist þetta skynsamleg ákvörðun segir Helga Vala: 

„Það ríkir auðvitað ekkert traust til ríkisstjórnarinnar til sölu eigna almennings. Ég held að við ættum í raun að fagna því að þessi ríkisstjórn geri sem minnst því að þá eru þau allavega ekki að valda tjóni á meðan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert