Óljós svör hvort salan hafi verið klúður

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formenn ríkisstjórnarflokkanna segjast vilja tryggja að allt verði upp á borðum í tengslum við sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fór fram í mars. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að auðvitað gagnrýni einhverjir hennar flokksmenn hvernig tókst til en ríkisstjórnin riði þó ekki til falls.

Þetta segir Katrín í samtali við mbl.is.

Hún, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, funduðu um málið í gær þar sem ákveðið var að lagt verði til að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður.

Var þetta ekki bara klúður?

„Þetta mál er til rannsóknar á tveimur stöðum. Annars vegar hjá Ríkisendurskoðun og hins vegar Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Auðvitað finnst mér það vera vönduð stjórnsýsla að gefa þessum færu stofnunum tíma til að ljúka sinni rannsókn,“ segir Katrín.

Hún segir ýmis álitamál uppi sem eigi eftir að sjá hvað komi út úr. Í því samhengi nefnir hún framgöngu söluaðila og hvernig farið hafi verið með meðferð innherjaupplýsinga.

Virkari aðkoma þingsins

Katrín ítrekar það sem áður hefur komið fram að rík krafa sé gerð um gagnsæi og upplýsingagjöf til almennings. Stefnt sé að því að þingið komi að með virkari hætti þegar ákvörðun er tekin um sölu sem þessa en í núverandi löggjöf veiti það bara umsögn.

Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er ekki verið að firra fjármálaráðherra ábyrgð með því að leggja Bankasýsluna niður?

„Nú er það þannig að Bankasýslan starfar í þessari armslengd frá framkvæmdavaldinu og þegar við horfum á hver álitamálin eru þá snýst það ekki síst um framkvæmdaatriðið. Við getum nefnt þetta einfalda dæmi um birtingu kaupenda sem Bankasýslan vildi ekki birta en ríkisstjórnin tók ákvörðun um að birta af því að okkur fannst þær upplýsingar eiga erindi við almenning. Síðan eigum við eftir að fá niðurstöðu þeirra aðila sem skoða málið og þá er hægt að leggja frekara mat á framhaldið og hvort þurfi að leggjast í frekari rannsóknir.“

Spurð segir Katrín að auðvitað gagnrýni einhverjir flokksfélagar hennar hvernig til tókst en bendir jafnframt á að ágætlega hafi tekist til þegar fyrsti hluti Íslandsbanka var seldur í fyrra. Forsætisráðherra segir ríkisstjórnina ekki riða til falls vegna þessarar sölu.

„Við viljum öll vanda til verka í þessum málum og tökum gagnrýni alvarlega. Við viljum tryggja að allt verði upp á borðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert