Ríkisstjórnin krossfesti Bankasýsluna

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

Er verið að leggja Bankasýsluna niður fyrir að…framfylgja ákvörðunum fjármálaráðherra?“ Að þessu spyr Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á facebook-síðu sinni þar sem hún gagnrýnir harðlega tillögu ríkisstjórnarinnar þess efnis að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður.

Þorbjörg segir í samtali við mbl.is að það sé skýrt í lögum að Bankasýslan geri tillögu til fjármálaráðherra. 

„Það er fjármálaráðherra sem tekur allar ákvarðanir og pólitísk ábyrgð er hjá ráðherranum. Þetta er svolítið eins og að láta undirmanninn fara fyrir það sem yfirmaðurinn gerir,“ segir hún og heldur áfram:

„Mér finnst þetta svolítið eins og ríkisstjórnin sé að loka páskahátíðinni með því að krossfesta Bankasýsluna.“

Þorbjörg segir þetta tvennt ekki í sundur skilið; Bankasýsluna og fjármálaráðherra. Því hafi henni þótt þegar fólk innan VG kallaði eftir afsögn forstjóra og stjórnar Bankasýslunnar fælist í því krafa um afsögn fjármálaráðherra. Hins vegar virðist henni skilningur þingmanna VG ekki sá sami.

Hún bendir enn fremur á að fyrir páska hafi verið mikil og hörð umræða á þingi um það hvort ætti að skipa rannsóknarnefnd til að fara ofan í kjölinn á sölunni. 

„Ríkisstjórnarflokkarnir voru allir á því að ekki væri þörf á því á þessu stigi, það ætti að bíða hvað kæmi út úr skoðun Ríkisendurskoðunar, sem er svona veikara verkfæri en rannsóknarnefnd. Þrátt fyrir að þau hafi viljað fara í þá vinnu með Ríkisendurskoðun og bíða niðurstöðu þangað til í júní virðist þeirra pólitíska spil núna vera að það eigi að slökkva í þessu máli með því að láta Bankasýsluna víkja,“ segir Þorbjörg.

„Þetta er pólitískt sjónarspil sem er í gangi, og ekkert annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert