„Launakostnaður hefur verið mjög hár. Það hafa verið margir starfsmenn á skrifstofunni en þegar hafa margir sagt upp. Við sjáum fyrir okkur að við þurfum ekki á jafn miklum mannafla að halda eins og var þegar mest lét. Það er partur af þessari útskýringu,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um hvernig ná eigi fram hagræðingu í rekstri skrifstofunnar þannig að um 120 milljónir króna sparist á ári.
Sólveig segir þó ekki tímabært að gefa það upp um hve mörg stöðugildi verður fækkað. Þá þurfi fleira að koma til en fækkun starfsfólks. Meðal annars þurfi að hagræða útseldri þjónustu sem snýr að ókeypis mat og rekstri á eldhúsi, fella niður ökutækjastyrk starfsfólks og lækka launakostnað með því að kaupa ákveðna þjónustu.
„Þegar við förum yfir þau gögn er varða rekstur félagsins þá er það okkar niðurstaða að með því að ráðst í þessar skipulagsbreytingar þá getum við reiknað með því að það náist sparnaður upp á þessa upphæð árlega,“ segir Sólveig, en öllu starfsfólki á skrifstofu Eflingar var sagt upp störfum í síðustu viku.
Þetta eru útreikningar sem þið eruð með í höndunum?
„Þetta eru útreikningar sem við höfum farið yfir já, ég og félagar mínir sem höfum verið að vinna þessar hugmyndir.“
Aðspurð hvort það standi til að lækka laun starfsfólks segir Sólveig:
„Það er svo að breyting á launakerfi snýst í sjálfu sér ekki um að fara í einhverjar massífar launalækkunaraðgerðir, heldur að uppræta ógagnsæjar, ómálefnalegar og úreltar hugmyndir um það að semja við fólk á einstaklingsbasis um hitt og þetta. Úreltar hugmyndir um að allir fái greiddan ökutækjastyrk þó það sé teljandi á fingrum annarrar handar það starfsfólk sem þarf að vera á ferðinni á vinnutíma, og svo framvegis. Og að launasetning verði gagnsæ og miði að því að inni á vinnustaðnum sé það sem hægt er að réttlæta sem eðlilegan og sanngjarnan launamun á milli þeirra sem eru með hæstu launin, og eru þá í yfirmannsstöðum og gegna mikilli ábyrgð, og þeirra sem vinna almennari störf.“
Einnig komi ákveðin þjónusta til með að verða aðkeypt.
„Svo sjáum við fyrir okkur að kaupa þjónustu og minnka með því launakostnað. Þannig einhver þjónusta verður meðhöndluð þannig.“
Starf bókara er meðal þeirra starfa sem ekki hefur verið auglýst, en Sólveig segir að það sé eitt að því sem þau sjái fyrir sér að hægt verði að útvista með auðveldum hætti.
Starf varaformanns var heldur ekki auglýst og verður það lagt niður að sögn Sólveigar. Varaformaður gegnir hins vegar áfram embætti sínu innan stjórnar næsta árið.
Tæplega tíu starfsmenn voru mættir til vinnu á skrifstofu Eflingar í morgun, en þar störfuðu fyrir hópuppsögnina rúmlega 40 manns. Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Gabríel Benjamin, kjaramálafulltrúi og trúnaðarmaður starfsfólks Eflingar, að varla næðist lágmarsþjónusta á skrifstofunni við þessar aðstæður.
Sólveig segist hins vegar ekki hafa miklar áhyggjur af starfsemi skrifstofunnar.
„Ég náttúrulega mun leggja alla áherslu á að skrifstofan haldist opin og ég tel að það muni takast og hef að sinni ekki miklar áhyggjur af því. Þetta bara er eins og þetta er. Það skiptir mig og stjórn félagsins öllu máli að skrifstofan verði opin og að félagsfólk geti sótt þar þjónustu sem það á rétt á. Að greitt verði út úr sjóðum og svo framvegis og það mun takast.“
Það starfsfólk sem ekki mætti til vinnu á skrifstofunni í dag tilkynnti veikindi. Aðspurð hvað muni gerast ef það verði viðvarandi ástand, segir Sólveig fólk vissulega eiga sinn veikindarétt. „En svo er það spurning um hvernig gangi að veita þjónustuna og ég fullyrði að það mun takast. Það getur kannski komið til þess að það hægist á því að erindi fáist afgreidd en skrifstofan mun haldast opin og við munum komast í gegnum þetta.“
Bjóstu við því að þetta myndi gerast, að fáir myndu mæta til vinnu?
„Ég var svosem bara undir allt búin en ég auðvitað vonaðist til þess að fólk sem er í launuðu sambandi myndi halda áfram að mæta til vinnu. En ef fólk er veikt þá nær það ekki lengra. Fólk á sannarlega sinn veikindarétt.“
Ert þú sjálf við störf á skrifstofunni?
„Ég er á fullu í vinnu en ég hef ekki farið á skrifstofuna.“
Hyggstu mæta þangað á næstunni?
„Ég reikna með því já, að ég muni mæta þar til að funda og fara yfir mál, komast inn í tölvupóstinn minn og svoleiðis.“
Aðspurð segist Sólveig ekki vera að forðast það að hitta starfsfólkið á skrifstofunni. Hún sé í stöðugu símasambandi við aðstoðarframkvæmdastjóra og fái upplýsingar um það sem varðar þjónustu skrifstofunnar og annað.
„Ég mæti þegar ég met það sem svo að það sé nauðsynlegt að ég sé þarna niðurfrá.“