Útköllum vegna logandi rafmagnshlaupahjóla hefur fjölgað ár frá ári hérlendis, rétt eins og í Skandinavíu. Hér á landi er dæmi um gjöreyðilagða íbúð vegna hlaupahjóls sem kviknaði í og í Svíþjóð lentu feðgar í því að veggur í húsi þeirra færðist um 15 sentímetra þegar sprenging varð í rafhlöðum fyrir slík hjól.
Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu gerir ráð fyrir áframhaldandi fjölgun á útköllum vegna rafhlaupahjóla sem brenna í takt við auknar vinsældir.
„Þetta á bara eftir að aukast hjá okkur,“ segir varðstjórinn, Bjarni Ingimarsson.
Hann minnist útkalls í Bríetartúni í miðbæ Reykjavíkur í fyrra haust þar sem íbúð gjöreyðilagðist vegna rafhlaupahjóls sem kviknaði í. Það hlaupahjól var í hleðslu en slökkviliðið hefur líka þurft að slökkva í hjólum sem kviknaði í alveg án þess að þau væru í hleðslu, síðast í gær.
„Það er verið að setja rosalega mikla orku í lítinn rafhlöðukubb þannig að ef eitthvað klikkar þá þarf þessi orka að komast eitthvað,“ segir Bjarni.
Spurður hvað geti valdið því að hjólin svo að segja kveiki í sjálfum sér segir hann:
„Þetta getur verið eitthvað sem klikkar við hleðslu, of mikil spenna eða annað. Svo getur verið að það sé komin upp bilun í rafhlöðunni, að sellurnar gefi sig.“
Hann nefnir að rafhlaupahjól séu ekki einu rafmagnstækin sem kveikja í eigin skinni. Það gera tölvur og símar til að mynda stundum líka.
„Það er gríðarleg sprenging og eldur sem kemur úr svona lítilli rafhlöðu. Ég held að það séu ekkert margir sem átta sig á því að rafhlaðan getur skemmst með tímanum og þú getur séð það á farsímum og fartölvum að rafhlaðan getur byrjað að bólgna. Það er hluti af því að rafhlaðan er að verða búin eða er að skemmast, hún hefur bara ákveðinn líftíma. Þú getur fundið svona bungur á rafhlöðunum þó að þær séu ekki farnar að gefa frá sér nein gös.“
Erfiðara er að sjá slíkar bungur á rafhlöðum hlaupahjóla en Bjarni segir að „gríðarleg orka“ sé geymd í þeim. Hann segir að númer eitt tvö og þrjú hvað varðar forvarnir sé að hlaða hjólin ekki innandyra. Ef fólk ætlar sér að gera það þurfi það að hafa varann á og eldvarnir í lagi. En eins og áður segir hefur líka reglulega komið upp eldur í rafhlaupahjólum sem eru alls ekki í hleðslu, t.d. hjólum sem eru til leigu á götum Reykjavíkurborgar.
„Þú getur skemmt rafhlöðuna með því að tjóna hlaupahjólið, til dæmis með því að negla því niður á gangstéttarkant. Það getur líka verið galli í einhverri sellu rafhlöðunnar og hún eldist líka með tímanum og verður veikari eins og gengur og gerist,“ segir Bjarni og bætir við:
„Hlaupahjól eru náttúrulega svo ný hérna að það er líklega í flestum tilvikum einhver tjón eða galli sem er að valda þessu.“
Rafhlaupahjól hafa fuðrað upp víðar um heim að undanförnu og hafa slökkvilið í Skandinavíu orðið vör við sömu þróun og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Bjarni nefnir mál feðga í Svíþjóð sem voru með einskonar verkstæði fyrir rafhlaupahjól inni hjá sér og lentu illa í því.
„Þar var veggur sem hliðraðist um einhverja 15 sentímetra í sprengingunni,“ segir Bjarni.
Hann bendir á að sprengingar í rafhlöðum geti verið afar öflugar.
„Þegar þær brenna myndast vetnisgas þannig að eldurinn viðheldur sér sjálfur, þarf ekki súrefni,“ segir Bjarni og bætir við: „Það er erfitt að slökkva í þessu. Það þarf rosalega mikið vatn í það.“