„Það er erfitt að slökkva í þessu“

Síðast í gær var slökkviliðið kallað til vegna brennandi hlaupahjóls …
Síðast í gær var slökkviliðið kallað til vegna brennandi hlaupahjóls í miðbæ Reykjavíkur. Ljósmynd/Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu

Útköll­um vegna log­andi raf­magns­hlaupa­hjóla hef­ur fjölgað ár frá ári hér­lend­is, rétt eins og í Skandi­nav­íu. Hér á landi er dæmi um gjör­eyðilagða íbúð vegna hlaupa­hjóls sem kviknaði í og í Svíþjóð lentu feðgar í því að vegg­ur í húsi þeirra færðist um 15 sentí­metra þegar spreng­ing varð í raf­hlöðum fyr­ir slík hjól.

Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu ger­ir ráð fyr­ir áfram­hald­andi fjölg­un á út­köll­um vegna raf­hlaupa­hjóla sem brenna í takt við aukn­ar vin­sæld­ir.

„Þetta á bara eft­ir að aukast hjá okk­ur,“ seg­ir varðstjór­inn, Bjarni Ingimars­son.

Rosa­lega mik­il orka í litl­um kubbi

Hann minn­ist út­kalls í Bríet­ar­túni í miðbæ Reykja­vík­ur í fyrra haust þar sem íbúð gjör­eyðilagðist vegna raf­hlaupa­hjóls sem kviknaði í. Það hlaupa­hjól var í hleðslu en slökkviliðið hef­ur líka þurft að slökkva í hjól­um sem kviknaði í al­veg án þess að þau væru í hleðslu, síðast í gær.

„Það er verið að setja rosa­lega mikla orku í lít­inn raf­hlöðukubb þannig að ef eitt­hvað klikk­ar þá þarf þessi orka að kom­ast eitt­hvað,“ seg­ir Bjarni.

Spurður hvað geti valdið því að hjól­in svo að segja kveiki í sjálf­um sér seg­ir hann:

„Þetta get­ur verið eitt­hvað sem klikk­ar við hleðslu, of mik­il spenna eða annað. Svo get­ur verið að það sé kom­in upp bil­un í raf­hlöðunni, að sell­urn­ar gefi sig.“

Frá aðgerðum í Bríetartúni þar sem kviknaði í hlaupahjóli sem …
Frá aðgerðum í Bríet­ar­túni þar sem kviknaði í hlaupa­hjóli sem var í hleðslu. mbl.is/​Kar­en

Raf­hlaðan get­ur skemmst við árekst­ur við gang­stétt­arkant

Hann nefn­ir að raf­hlaupa­hjól séu ekki einu raf­magns­tæk­in sem kveikja í eig­in skinni. Það gera tölv­ur og sím­ar til að mynda stund­um líka.

„Það er gríðarleg spreng­ing og eld­ur sem kem­ur úr svona lít­illi raf­hlöðu. Ég held að það séu ekk­ert marg­ir sem átta sig á því að raf­hlaðan get­ur skemmst með tím­an­um og þú get­ur séð það á farsím­um og far­tölv­um að raf­hlaðan get­ur byrjað að bólgna. Það er hluti af því að raf­hlaðan er að verða búin eða er að skemm­ast, hún hef­ur bara ákveðinn líf­tíma. Þú get­ur fundið svona bung­ur á raf­hlöðunum þó að þær séu ekki farn­ar að gefa frá sér nein gös.“

Besta for­vörn­in að hlaða hjól­in ekki inn­an­dyra

Erfiðara er að sjá slík­ar bung­ur á raf­hlöðum hlaupa­hjóla en Bjarni seg­ir að „gríðarleg orka“ sé geymd í þeim. Hann seg­ir að núm­er eitt tvö og þrjú hvað varðar for­varn­ir sé að hlaða hjól­in ekki inn­an­dyra. Ef fólk ætl­ar sér að gera það þurfi það að hafa var­ann á og eld­varn­ir í lagi. En eins og áður seg­ir hef­ur líka reglu­lega komið upp eld­ur í raf­hlaupa­hjól­um sem eru alls ekki í hleðslu, t.d. hjól­um sem eru til leigu á göt­um Reykja­vík­ur­borg­ar.

„Þú get­ur skemmt raf­hlöðuna með því að tjóna hlaupa­hjólið, til dæm­is með því að negla því niður á gang­stétt­arkant. Það get­ur líka verið galli í ein­hverri sellu raf­hlöðunn­ar og hún eld­ist líka með tím­an­um og verður veik­ari eins og geng­ur og ger­ist,“ seg­ir Bjarni og bæt­ir við:

„Hlaupa­hjól eru nátt­úru­lega svo ný hérna að það er lík­lega í flest­um til­vik­um ein­hver tjón eða galli sem er að valda þessu.“

Íbúðin í Bríetartúni gjöreyðilagðist.
Íbúðin í Bríet­ar­túni gjör­eyðilagðist. mbl.is/​Arnþór

Þarf mikið vatn til þess að slökkva í raf­hlöðunum

Raf­hlaupa­hjól hafa fuðrað upp víðar um heim að und­an­förnu og hafa slökkvilið í Skandi­nav­íu orðið vör við sömu þróun og Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins. Bjarni nefn­ir mál feðga í Svíþjóð sem voru með einskon­ar verk­stæði fyr­ir raf­hlaupa­hjól inni hjá sér og lentu illa í því.

„Þar var vegg­ur sem hliðraðist um ein­hverja 15 sentí­metra í spreng­ing­unni,“ seg­ir Bjarni.

Hann bend­ir á að spreng­ing­ar í raf­hlöðum geti verið afar öfl­ug­ar.

„Þegar þær brenna mynd­ast vetn­isgas þannig að eld­ur­inn viðheld­ur sér sjálf­ur, þarf ekki súr­efni,“ seg­ir Bjarni og bæt­ir við: „Það er erfitt að slökkva í þessu. Það þarf rosa­lega mikið vatn í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka