Allt að 750 milljónum króna verður á vegum ríkisstjórnarinnar varið á þessu ári til sértækra aðgerða til að mæta félags- og heilsufarslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins.
Fram kemur á heimasíðu stjórnarráðsins að um er að ræða níu verkefni til að styðja m.a. við aldraða, þolendur og gerendur kynferðis- og heimilisofbeldis, fatlaða, börn í viðkvæmri stöðu, til að stytta biðlista. Þá verður stutt við verkefni á sviði heilbrigðistækni, framlög veitt til geðheilbrigðismála fyrir börn og unglinga og til geðheilbrigðisteyma í heilsugæslunni.
Verkefnin eru á ábyrgðarsviði fjögurra ráðuneyta en samráðshópur sem forsætisráðherra skipaði kallaði eftir tillögum ráðuneyta um aðgerðir til skemmri tíma. Vinna stendur einnig yfir við mat á nauðsynlegum aðgerðum til að bregðast við langtímaafleiðingum.
Fram kemur að úttektir sem gerðar hafi verið sýni fram á að faraldurinn, sóttvarnaaðgerðir og sá efnahagslegi samdráttur sem fylgdi í kjölfarið hafi bitnað verst á fólki sem þegar glímdi við erfiðleika eða tilheyrir viðkvæmum hópum. Þá varpi viðhorfskannanir ljósi á mjög mismunandi reynslu fólks af faraldrinum eftir aldri, kyni, kynþætti, þjóðerni, starfsstétt og tekjum. Reynsla og rannsóknir í tengslum við fyrri samfélagsáföll sýni einnig fram á að áhrifin á geðheilbrigði þjóða geta verið veruleg og þau koma alla jafna ekki fram fyrr en einhverju síðar.
Segir í tilkynningunni að stjórnvöld hafi frá upphafi heimsfaraldursins lagt áherslu á að vinna gegn félagslegum og heilsufarslegum áhrifum hans, einkum á viðkvæma hópa, og eru þessar aðgerðir liður í því.