Ekki útlit fyrir að þing komi fyrr saman

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er útlit fyrir að Alþingi komi saman fyrr en áætlað var vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þetta segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa kallað eftir því að þingið komi fyrr saman til að ræða söluna, sem hefur valdið miklum usla í íslensku stjórnmálalífi.

„Þing á að koma saman næstkomandi mánudag og ég geri ráð fyrir því að við höldum plani. Það er tvennt sem getur breytt því, annars vegar að það komi fram ósk frá forsætisráðherra um það fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hins vegar að það komi frá meirihluta þingmanna og hvorugt er fyrir hendi núna þannig að ég geri ráð fyrir að við höldum okkur við starfsáætlunina,“ segir Birgir.

Hann nefnir sömuleiðis að ekki sé hægt að kalla þing saman eins og að smella fingrum og að ekki myndi miklu muna þótt umræðan færðist fram um einn dag eða svo.

Spurður hvers konar umræða um bankasöluna sé fyrirhuguð á Alþingi segir hann ýmsar hugmyndir vera uppi um fyrirkomulagið. Ekki liggur þó fyrir hvaða leið verður valin, en Birgir reiknar með góðu svigrúmi í dagskrá þingsins ef eftir því verður óskað.

Íslandsbanki.
Íslandsbanki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opinn fundur fjárlaganefndar

Fjárlaganefnd Alþingis verður jafnframt með opinn fund vegna bankasölunnar á mánudagsmorgun. Gestir verða þeir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, Lárus Blöndal stjórnarformaður, Þórólfur Heiðar Þorsteinsson lögfræðingur og Karl Finnbogason, starfsmaður Bankasýslu ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert