Flugvélin hífð upp á föstudag

Viðbragðsaðilar að störfum við Þingvallavatn í febrúar.
Viðbragðsaðilar að störfum við Þingvallavatn í febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefnt er að því að hífa flug­vél­ina TF-ABB upp úr Þing­valla­vatni á föstu­dag­inn. Und­ir­bún­ing­ur vegna verk­efn­is­ins hef­ur staðið yfir frá því ís hvarf af vatn­inu.

Gert er ráð fyr­ir að unnið verði að upp­setn­ingu vinnu­búða vegna björg­un­araðgerða á morg­un, fimmtu­dag, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá lög­regl­unni.

Flug­vél­in, sem fórst í byrj­un fe­brú­ar með fjóra karl­menn um borð, ligg­ur á 48 metra dýpi í Ölfu­s­vatns­vík.

Setja þarf upp tjald­búðir með aðstöðu fyr­ir björg­un­ar­menn og ör­ygg­is­búnað vegna köf­un­ar. Einnig verður Björn­inn, fjar­skipta­bíll Lands­bjarg­ar, á vett­vangi til að tryggja fjar­skipti. Jafn­framt verða pramm­ar nýtt­ir sem aðstaða úti á vatn­inu og einnig til að hífa flug­vél­ina af botni Þing­valla­vatns og færa að landi, að því er seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Gert er ráð fyr­ir að aðgerðir á svæðinu hefj­ist með sjó­setn­ingu og próf­un­um á tækja­búnaði kl. 9 á föstu­dag­inn.

Lög­reglu­stjór­inn á Suður­landi hef­ur ákveðið að banna yf­ir­flug allra loft­fara um svæðið frá kl. 8 í föstu­dags­morg­un og þar til aðgerðum er lokið. Fyr­ir ligg­ur að nota þarf dróna lög­reglu við aðgerðina og eins mun þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar vera í viðbragðsstöðu til flugs á vett­vang ef þörf kref­ur. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert