Yfirborð sjávar hefur lækkað á Höfn

Höfn í Hornafirði
Höfn í Hornafirði Ljósmynd/ Sigurður Bogi Sævarsson

Yfirborð sjávar hefur lækkað við Höfn í Hornafirði hefur CNN eftir Þorvarði Árnasyni forstöðumanni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn á Hornafirði. Hann segir fréttastöðinni að skip fullfermd af loðnu eða síld eigi í hættu að vera nálægt sjávarbotni í innsiglingunni að bænum, sem gæti leitt til slysa, leka og jafnvel skipstrands. Lónið við Höfn er grynnra en það var og erfiðara að sigla vegna þess að öldurnar eru kraftminni en áður, svo set safnast fyrir á botninum á innsiglingunni.

Fréttastofa CNN hefur einnig eftir Þorvarði að sextíu menn frá Höfn og nærliggjandi sveitum vinni á skipunum og ástandið sé farið að hafa áhrif í bæjarfélaginu, þar sem óttast er um að þessi aukna hætta á slysum orðið samfélaginu dýr. Á sama tíma er almennur ótti um allan heim yfir hækkandi yfirborði sjávar vegna aukins hitastigs á jörðinni og bráðnun jökla.

Jöklar hopa og landið rís

Hækkun hitastigs hefur valdið því undanfarin ár að jöklar fara hopandi og nú hraðar en nokkru sinni áður undanfarin 200 ár. Þyngd Vatnajökuls hefur þjappað jarðveginum niður en mælingar síðustu ára sýna að land hefur risið um 1,7 sentímetra árlega á Höfn og ef keyrt er í 20 mínútur norður er hækkunin enn meiri, eða 3,8 sentímetrar.

Undur þyngdaraflsins

Ástæðan fyrir því að land er að rísa á svæðinu og yfirborð sjávar að hækka er þyngdaraflið. Hröð bráðnun Vatnajökuls og eins jökulbreiðunnar á Grænlandi eru orsök hækkandi yfirborðs sjávar út um allan heim vegna mikils magns jöklavatns sem fer út í sjóinn. En það furðulega er að í kringum bæði Vatnajökul og Grænland er yfirborð sjávar að lækka og það er ekki bara vegna þess að land er að rísa. Ísbreiðurnar eru svo þungar að þær draga til sín hafið vegna þyngdaraflsins, en þegar ísbreiðurnar bráðna færist vatnið sífellt lengra og lengra. Þannig að því fjær staðnum þar sem bráðnunin hefst þeim mun meira rís yfirborð hafsins.

Vísindamenn NASA áætla að ef yfirborð sjávar rísi að meðaltali um einn metra, sem gæti verið afleiðingar bráðnunar íshellunnar á Grænlandi, myndi yfirborð sjávar lækka um 20 sentímetra í kringum Ísland vegna nálægðar landsins við Grænland.

Áhrifin næðu til 2050 ef hætt yrði í dag

Þótt Ísland sé ríkt af jöklum myndi bráðnun allra jökla landsins valda eins sentímetra hækkun á yfirborði sjávar, á meðan bráðnun ísflekans á Grænlandi myndi valda 7,5 metra hækkun á yfirborði sjávar og ef íshella Suðurskautsins myndi bráðna myndi yfirborð sjávar hækka um 60 metra. Síðan veldur aukning hitastigs sjávar einnig hækkun á yfirborði sjávar, en hitastigið hækkar mest vegna bruna á kolum, olíu og jarðgasi. Jafnvel þótt hætt yrði að brenna þessu eldsneyti í dag myndi yfirborð sjávar halda áfram að hækka fram til ársins 2050, en þá fyrst myndu jákvæðar afleiðingar fyrir vistkerfið koma í ljós.

Vísindamenn hafa varað við því að ef hitastig jarðarinnar hækkar um 3-4 gráður Celsíus gæti yfirborð sjávar hækkað um 70 sentímetra áður en öldin er öll. Það gæti ógnað lífi víða á jörðinni. Hækkun hitastigs jarðar er nú þegar 1,2 gráður á Celsíus.

Marshalls eyjar finna mest fyrir hækkun sjávar

Íbúar Marshalls eyjanna í Vestur-Kyrrahafi hafa séð yfirborð sjávar rísa stöðugt síðustu ár. Það eru engin fjöll á eyjunum og hafið færist stöðugt lengra og lengra yfir strendurnar og hver sentímetri skiptir máli. Frá árinu 1993 hefur yfirborð sjávar hækkað á bilinu 2,6-3,6 millímetra að meðaltali í heiminum, en við Marshalls eyjar hefur hækkunin verið 7 millímetrar.

Flóð eru algeng og í stöðugum vexti. Drykkjarvatn mengast og íbúarnir þurfa að bregðast við hratt ef þeir eiga að geta viðhaldið eyjunum í byggð. Yfirvöld eyjanna og Alþjóðabankinn hafa tekið saman mögulegar lausnir eyjanna og er bygging sjávargarða og hækkun bygginga meðal þess sem lagt er til, en einnig er talað um hækkun allra eyjanna eða í versta falli að flytja annað.

Eyjaskeggjar ekki sáttir

Margir hafa verið að byggja steypta sjávargarða, en áður höfðu sumir notað álplötur sem entust stutt. Ein rannsókn sýnir að 40% allra bygginga í höfuðborginni Majuro væru í hættu ef yfirborð sjávar hækkar um 1 metra og 96% borgarinnar byggi við stöðug flóð. Ljóst er að kostnaður yrði gífurlegur ef heilu og hálfu eyjar yrði að endurbyggja, ef þyrfti hækka varnargarða meira og meira og hækka öll hús til að varna flóðunum. 

Eyjaskeggjum finnst ekki eðlilegt að þeir beri kostnaðinn af hegðun annarra á plánetunni sem bitna mest á þeim. Einn íbúanna segir að það sé engan veginn sanngjarnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert